24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4139 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

224. mál, jarðhitaleit og fjarvarmaveitur á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 447 höfum við hv. 1. þm. Vesturl., Halldór E. Sigurðsson, leyft okkur að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi jarðhitaleit og fjarvarmaveitur á Snæfellsnesi og Dalasýslu sem hljóðar svo:

„1. Verður gerð tilraunaborun eftir heitu vatni á norðanverður Snæfellsnesi á þessu ári í framhaldi tilraunaborana 1977, eins og áformað var að framkvæmt yrði 1978?

2. Hvað líður athugun á fjarvarmaveitum fyrir þéttbýlisstaði á Snæfellsnesi?

3. Er fyrirhuguð tilraunaborun eftir heitu vatni í Dalasýslu á þessu ári?“

Til skamms tíma var því slegið föstu, að á norðanverðu Snæfellsnesi væri ekki um að ræða virkjanlegan jarðhita þrátt fyrir ný hraun og gosgíga. Árið 1972 lét Orkustofnun gera sveiflumælingar á Snæfellsnesi. Kom þá í ljós svörun sem benti eindregið til jarðhita víða á svæðinu. Þetta varð til þess að sveitarfélögin á norðanverðu nesinu ákváðu að kalla eftir frekari rannsóknum og árið 1973 var framkvæmd hitastigulsborun milli Hellissands og Ólafsvíkur sem sveitarfélögin kostuðu sameiginlega. Hitinn í þessari holu reyndist of lítill. Var talið að saltmagn hefði valdið jákvæðri svörun í sveiflumælingum, en kostnaður sveitarfélaganna var 1.3 millj. kr. sem þau greiddu að fullu sjálf.

Þrátt fyrir þessa misheppnuðu borun vildu sveitarfélögin á Snæfellsnesi ekki gefa upp von um að jarðhiti væri finnanlegur. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi svo og sýslunefnd Snæfellsnessýslu lögðu málinu lið og var leitað fast á Orkustofnun um áframhaldandi rannsóknir á mögulegum jarðhita á norðanverðu Snæfellsnesi. 1967 og 1977 lét Orkustofnun framkvæma hitastigulsboranir á svæðinu frá Ólafsvík til Stykkishólms. Nýjar athuganir eftir loftmyndum frá gervitungli höfðu sýnt jarðhitamöguleika á stærra svæði frá Reykhólum til Snæfellsness en áður hafði verið talið. Voru boraðar nokkrar holur: ein við Ólafsvík, tvær í Grundarfirði og ein við Stykkishólm. Mælingar á holum hafa sýnt 105–114 stiga hita á öllum þessum stöðum, sem gefur til kynna að á þessu svæði sé það mikill jarðhiti að möguleikar gætu verið á virkjanlegu vatni. Orkustofnun taldi nauðsynlegt að gera tilraunaborun á meira dýpi á svæðinu, ca. 600–800 metra, til að ganga úr skugga um hvort jarðhiti og vatn væru á því dýpi sem virkjanlegt væri. Taldi Orkustofnun líklegast að gera þessa tilraunaborun í Grundarfirði. Var áformað að þessi borun yrði framkvæmd á s. l. ári, en af einhverjum ástæðum varð ekkert af framkvæmdum til mikilla vonbrigða fyrir íbúa þessara byggðarlaga. Því er hér leitað svars frá hæstv. ráðh.

Enda þótt bundnar séu miklar vonir við jarðhitaleit á þessu svæði hafa þéttbýlissveitarfélögin öll á Snæfellsnesi svo og Búðardalur í Dalasýslu óskað eftir því, að gerð verði áætlun um fjarvarmaveitur í þessum þéttbýlisstöðum, sem byggði á ódýru rafmagni, svartolíu og öðrum orkugjöfum. Var tekið jákvætt undir áform Rafmagnsveitna ríkisins um slíkar fjarvarmaveitur. Hefur Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens verið að vinna að þessu máli með aðstoð tæknimanna viðkomandi sveitarfélaga. Er því nauðsynlegt að fá að vita um hvernig þetta mál stendur í dag.

Hæstv. iðnrh. hefur nú afhent mér myndarlega frumáætlun þessa máls og fagna ég því sérstaklega og þakka um leið. Gífurlegur áhugi er á þessu máli á Snæfellsnesi sem víðar. Í þéttbýlisstöðum á þessu svæði búa um 4000 íbúar sem í dag greiða hæsta raforkuverð og verða að hita híbýli sín með olíu. Á þessu svæði fer fram stór hluti útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Það er því lífsnauðsyn að viðunandi lausn fáist á þessum þætti orkumála á svæðinu til að tryggja áframhaldandi búsetu og uppbyggingu.

Í Dalasýslu er mikill áhugi á jarðhitaleit. Sýslunefnd hefur margoft skrifað Orkustofnun og farið fram á jarðhitarannsóknir. Í Miðdalahreppi er vitað um jarðhita. Þar er um að ræða yfirborðsvatn sem er um 50 gráðu heitt. Þetta þarf að rannsaka og kanna möguleika á nýtingu bæði til iðnaðar og upphitunar í þéttbýliskjörnum í Dalasýslu.

Herra forseti. Allir eru sammála um þjóðhagslegt gildi þess að nýta innlenda orkugjafa. Þess vegna verður að leita allra ráða til að láta slíkar framkvæmdir hafa forgang, hvort sem um er að ræða virkjanir, jarðhitaleit, hitaveitur eða fjarvarmaveitur. Slík fjárfesting skilar sér margfalt fyrir þjóðina. Og til að undirstrika þessa fullyrðingu vil ég nefna upplýsingar er fram koma í skriflegu svari hæstv. iðnrh. við fsp. frá Gunnlaugi Finnssyni og mér á þskj. 451, að á tímabilinu 1971–1978 voru 11 hitaveitur teknar í notkun, þar með talin stækkun Hitaveitu Reykjavíkur í nágrannabyggð. Fengu þannig 45 910 íbúar landsins full not af þessum jarðhitaveitum. Ef gengið er út frá því, að olíunotkun til upphitunar íbúðarhúsnæðis sé 13 lítrar á m3 á ári og hver íbúi noti 140 m3 húsnæði, þá spara þessar hitaveitur 1820 lítra af olíu á hvern íbúa á ári eða alls 83.6 millj. lítra, sem miðað við útsöluverð húsa á olíu í dag er um 8 milljarða kr. sparnaður á ári. Svo stórkostlegur er árangurinn.

Núverandi ástand í upphitunarmálum víða um land er algerlega óþolandi. Lágmarksupphitunarkostnaður á olíunotkunarsvæðum er nú 100–120 þús. kr. á mánuði fyrir meðalíbúð. Þetta ástand auk hæsta raforkuverðs er svo alvarlegt, að það jaðrar við að fólksflutningar frá þessum svæðum séu yfirvofandi ef ekki tekst að ráða hér bót á. Það er þjóðarnauðsyn, því að fáar framkvæmdir í dag hafa eins mikil áhrif á búsetuskilyrði fólks og hitaveitur.

Ég vænti þess, að svör hæstv. iðnrh. auki bjartsýni í þessum málum á Snæfellsnesi og í Dalasýslu sem víðar.