24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

224. mál, jarðhitaleit og fjarvarmaveitur á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. svör hans, þó að ég vilji ekki leyna því, að þau ollu mér nokkrum vonbrigðum, þar sem við höfðum áður fullyrðingar Orkustofnunar um að þessi tilraunaborun yrði gerð á árinu 1978 eftir að sá árangur, sem kom út úr hitastigsborunum 1976 og 1977, hafði sýnt jákvæða svörun.

Við á Snæfellsnesi reiknuðum alveg fastlega með því, að af þessari borun yrði, og ég vil nota þetta tækifæri enn til að ítreka það, að ég vona að hér verði ekki látið staðar numið, heldur verði reynt að leita að möguleikum til að þessi tilraunaborun geti orðið að veruleika á þessu ári. Og ég vænti þess, eftir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, að fast muni verða eftir því leitað.

Margt bendir til þess, að þarna geti verið um virkjanlegan hita að ræða. Það hefur komið fram í mörgum skýrslum sem unnar hafa verið um þetta mál. Það hefur blandast inn í umr. um þetta mál sem hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði áðan, að þetta svæði hefur eitt sérkenni sem erlendir fræðimenn hafa haft mikinn áhuga á, og við höfum fengið í hendur sérstakar skýrslur sem eru unnar af þýskum aðilum, þar sem vakin er athygli á efnasamsetningu í fjölmörgum ölkeldum á ölkeldusvæðum á Snæfellsnesi.

Ég vil sem sagt vonast til þess, að hæstv. ráðh. verði vinsamlegur, það verði leitað allra ráða til þess að finna möguleika á að láta framkvæma þessa borun á þessu ári. Íbúar á þessu þéttbýlissvæði binda miklar vonir við og bíða raunar eftir þessum úrskurði. Við erum tilbúnir á þessu svæði, íbúarnir, að leggja í hitaveitur, fjarvarmaveitur, ef það sýnir sig að ekki er fyrir hendi jarðhiti, sem við viljum þó ekki trúa að sé ekki miðað við þær ytri aðstæður sem víða eru á svæðinu.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan, að ég flyt sérstakar þakkir fyrir þá frumskýrslu sem við höfum fengið í hendur um fjarvarmaveiturnar eða möguleika á þeim á þessu svæði. Þær eru ákaflega mikils virði og verður hægt að vinna eftir þeim eða byrja á því jafnvel þó að ekki liggi fyrir þessar upplýsingar sem við bindum mestar vonir við, því að alla vega sýnir skýrslan að hægt er að gera þetta á hagkvæman hátt þar sem þéttbýlið er mest.

Það eru einnig viss vonbrigði með svör hæstv. ráðh. varðandi Dalasýslu. Ég legg áherslu á það, að Orkustofnun geri ráðamönnum í Dalasýslu fyllilega grein fyrir því, hvers vegna ekki er hægt að taka á dagskrá sérstaka tilraunaborun í Dalasýslu, þar sem þar eru þó fyrir hendi á yfirborðinu laugar sem benda til að þar geti verið um virkjanlegt vatn að ræða.

Ég vil endurtaka þakkir fyrir svör hæstv. ráðh., en vænti þess, að þetta mál fái meiri athugun. Það verður örugglega eftir því leitað.