24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4147 í B-deild Alþingistíðinda. (3249)

224. mál, jarðhitaleit og fjarvarmaveitur á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef nú hlýtt hér á ágætar umr. um hið þýðingarmesta mál, sem er jarðhitaleit. Og hún er að sjálfsögðu ekki þýðingarminni á Snæfellsnesi en víða annars staðar. Ég hef í raun og veru engu við að bæta við það sem allir ræðumenn hafa hér sagt um mikilvægi þessa máls. En þegar hæstv. ráðh. áðan hvatti menn til þess að styðja hann í viðleitni til þess að fá meira fjármagn til jarðhitaleitar, þá vil ég fyrir mitt leyti taka undir það heils hugar að styðja ráðh. í því efni.

Það er ágætt að hafa góð orð í þessu efni, en því miður dugir ekki annað en aðgerðir. Og það, sem mest er um vert og stendur á núna, er aukið fjármagn.

Fyrir nokkrum dögum — á laugardag fyrir páska — mælti ég fyrir till. um aðgerðir í þessum efnum sem ég ber fram ásamt 11 öðrum sjálfstæðismönnum. Ég hélt allítarlega framsöguræðu fyrir þessari till. Hæstv. ráðh. hélt — ef eitthvað var — enn þá ítarlegri ræðu. Og ég held að það hafi naumast mátt á milli sjá hvor lagði meiri áherslu á mikilvægi þessara mála.

Nú vil ég mega að gefnu tilefni vekja athygli á þessari till. Ég held að hún sé raunhæf aðferð til þess að við gerum átak í því efni að auka fjármagn á því ári sem nú er að liða til þess að við getum afrekað meira nú þegar í þessu efni heldur en horfur eru á.

Hæstv. ráðh. vék að ástandinu í þessum efnum, hvaða fjármagn Orkusjóður hefur haft til jarðhitaleitar á þessu ári, hve miklu er búið að ráðstafa og hve lítið er eftir. Í þessari till., sem ég gat um, er gert ráð fyrir m. a. að auka þetta fjármagn.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson er einn af flm. þessarar þáltill., þannig að ég þarf ekki að hvetja hann til stuðnings í þessu efni. Ég hvet aðra ræðumenn hér að styðja okkur í þessu efni og fara þá leið sem við bendum á og hæstv, ráðh. réttilega nefndi áðan. Það er fullkomið tilefni og í raun og veru ekki annað réttlætanlegt en að taka lán til þessara mála, svo þýðingarmikil eru þau fyrir hin einstöku byggðarlög og ekki síst fyrir þann hluta þjóðarinnar, 1/4 hluta þjóðarinnar, sem býr við það ástand að þurfa að nota olíu til upphitunar húsa sinna. Þjóðhagslega er þetta svo þýðingarmikið atriði, að við þurfum allir hv. þm. að sameinast um þetta mál.