24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4160 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er kannske gott til tilbreytingar, að Austfirðingar raði sér á mælendaskrá í eitt skipti! Það eru oftar þm. úr öðrum kjördæmum sem það gera. — En ég vil vekja athygli á því, að í málum eins og þessum eru í raun og veru tvö meginatriði. Annars vegar er að gera sér grein fyrir því, sem menn vilja láta gera og þarf að gera, og svo þarf hins vegar, og það er kannske enn þá þyngra á metunum, að afla fjár til þess. Þessi till. felur í sér hvort tveggja. Hún er þannig upp byggð, að lagt er til að gerð verði 5 ára áætlun og það útfært nánar og að endurskoðun, kostnaðaráætlun og áætlun um fjármögnun framkvæmda skuli liggja fyrir við næstu fjárlagagerð. Það er mergurinn málsins.

En því vek ég á þessu sérstaka athygli, sem þó má raunar öllum vera ljóst þó ég fari ekki að ræða það hér sérstaklega, að það er afskaplega rík tilhneiging til þess hjá fjárveitingarvaldi og öðrum. stjórnvöldum að svelta ríkisfyrirtækin, en svo jafnframt að krefjast af þeim mikillar þjónustu og góðrar og jafnvel framlaga til óskyldra þátta, að ég tel, eins og t. d. til framfærslumála og allir hv. þm. vita hvað ég á þar við.

Við ættum að þekkja þetta t. d. sem höfum starfað í svonefndum kröfuráðuneytum, útgjaldaráðuneytum. T. d. ætti ég að þekkja þetta varðandi Ríkisútvarpið og hv. 1. þm. Vesturl. varðandi einmitt það fyrirtæki sem hér er verið að ræða um. Útreiðin á þessum fyrirtækjum fjárhagslega, þegar við tók:um við þeim 1974, líður okkur ekki úr minni. Mestan hlutann af ráðherratíð minni átti ég undir högg að sækja með að koma útvarpinu á réttan kjöl aftur fjárhagslega. Ég tel að það hafi þá tekist. Þess vegna verður aldrei nógsamlega undirstrikað þegar rætt er um bráðnauðsynlegar þjónustuaðgerðir, eins og þær að gera Landssíma Íslands mögulegt að veita landsmönnum það öryggi og þá þjónustu aðra sem honum er ætlað, að það kostar fé.

Það er ekki til neins að svelta þessar stofnanir. Það eru allar aðrar leiðir heppilegri til þess að auka hagkvæmni í rekstri ríkisfyrirtækjanna, knýja þau til að gæta fyllstu hagsýni o. s. frv. Ég held að þrátt fyrir allt séu allar aðrar leiðir skynsamlegri til þess en að svelta þau og gera þeim í raun og veru ómögulegt að starfa eðlilega. Og varðandi Landssímann er ákaflega óskynsamlegt, miðað við afkomu fyrirtækisins, að gera ekki Landssímanum mögulegt að leggja inn síma hjá fólki sem vill kaupa þjónustu hans og greiða fyrir hana. Og svo náttúrlega frá sjónarmiði hins almenna notanda, sem á að njóta þeirrar þjónustu, er það hart aðgöngu að eiga hennar engan kost fyrr en seint og um síðir.