24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil að mörgu leyti lýsa stuðningi mínum við þá þáltill. sem hér liggur fyrir og er flutt af hv. þm. Jóni Kristjánssyni en að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að það verði ekki til útgjaldaauka fyrir þá íbúa sem mynda þéttbýtiskjarna þessa lands, enda tel ég óþarfa að svo þurfi að vera. Það er ekki endalaust hægt að hlaða einhvers konar jöfnunargjöldum á íbúa sem hér búa. Ég tel ekki sambærilegt að miða við byggðakjarna eins og hv. 3. þm. Austurl., Helgi Seljan, minntist á áðan. Þar er um að ræða byggðakjarna sem einangrast að vetrinum með nákvæmlega sömu þarfir og aðrir byggðakjarnar úti á landi þegar veður eru vond og síminn þarf að vera neyðartæki. Við getum margfaldað þörfina með íbúafjöldanum á hverjum stað, hvar sem menn búa á landinu.

En ég vil leyfa mér að koma ofurlítið að því sem hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan. Hann sagði að það væri ekki sama hvað þyrfti að gera og hægt væri að gera. Það er alveg rétt. En oft fer það eftir því hvernig að er staðið. Hv. 2. þm. Austurl. var ráðh, í síðustu ríkisstj. og minntist í því sambandi á Ríkisútvarpið. Það er ágætt til samanburðar um hvernig á að standa að málum og hvað væri ekki hægt að gera ef eins væri staðið að málum í Ríkisútvarpinu og er með símann. Hvernig haldið þið að líti út ef Viðtækjaverslun ríkisins hefði haldið áfram sem slík, haft einkarétt á því að flytja inn sjónvarpstæki og útvarpstæki og átt að sjá fyrir allri þjónustu og varahlutum í öll þau tæki og allar þær tegundir sem fluttar eru inn? Þá hefði verið ógerningur fyrir Ríkisútvarpið að byggja sig upp — gersamlega ómögulegt. Slíkt fjármagn hefði ekki verið til hér á landi. Þess vegna hef ég flutt tvær till. til breytinga á lögum, önnur er á þskj. 210 og hin á þskj. 211, sem snerta símamálin. Þær eru á þann hátt, að síminn verði rekinn á sama hátt og Ríkisútvarpið, þannig að ríkið sjálft fjárfesti ekki í innflutningi á tækjum né heldur varahlutum eða þjónustu og losnaði við þá gríðarlega miklu fjárfestingu sem er falin í tækjunum sjálfum. Ég fékk þær upplýsingar í dag, að það væru um 100 þús. símatæki á landinu, þó rétt innan við þá tölu. Þar af eru í kringum 67 þús. í Reykjavík. Hvert símatæki kostar nú líklega um 25 þús. kr. Ef hver símnotandi ætti sér tæki eins og önnur heimilistæki gætum við margfaldað þá tölu með 100 þús. Það er það fé sem losnaði og mætti fjárfesta í sjálfvirkum símstöðvum víðs vegar um landið til viðbótar við það fé sem er Pósti og síma til ráðstöfunar á fjárl. hverju sinni. Ég held að sú lausn gæti orðið til þess að því markmiði, sem stefnt er að með till. hv. þm. Jóns Kristjánssonar, yrði náð.

Jafnframt kemur fram í till. mínum að einstaklingar sæju um alla þjónustu við símann, þannig að allt sem heitir launatengd gjöld og kostnaður við þjónustu, viðgerðir og annað, sem nú hvílir á Pósti og síma, og allt það mikla bákn sem hvílir á Pósti og síma gæti þá dreifst á þá einstaklinga sem eru sérhæfðir í þjóðfélaginu til þess að annast slíka þjónustu. Það þýðir að Póstur og sími mundi starfa á líkan hátt og aðrar aðveitustofnanir, legði þá síma í allar byggingar og öll hús hvar sem er á landinu, en síðan væri einstaklingurinn sjálfur látinn ráða tæki sínu og hver setti það upp. Það kostar orðið stórfé, það kostar 20–30 þús. kr. að flytja síma á milli veggja í herbergi eða milli herbergja innan íbúðar. Það kostar ekki svo mikið að flytja tengingu fyrir útvarp eða sjónvarp milli herbergja.

Ég vildi að fram kæmi hér að ég eygi lausn á því vandamáli sem ætlast er til að leyst verði með þáltill. hv. flm., Jóns Kristjánssonar, ef eins verður að síma staðið og þegar hefur reynst vel varðandi útvarp og sjónvarp.

Ég sé ekki ástæðu til að segja miklu meira að þessu sinni en það, að verði sú lausn fundin, sem þarf til þess að fjármagna í sjálfvirkum símstöðvum, sé ég enga ástæðu til þess að gjaldið verði annað hér í Reykjavík en alls staðar úti á landi, og það ætti að geta lækkað verulega mikið. Ég vona að undirtektir verði jafngóðar við þær till., sem ég kem til með að mæla fyrir í næstu viku og eru 210. og 211. mál þingsins. Og ég vona að tekið verði almennt tillit til þeirrar till. sem liggur hér fyrir til umr.