24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4165 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það er nú stund liðin síðan þeir þm. Austurl. urðu fyrir vonbrigðum. Hafa þeir ímyndað sér, eins og hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson gaf í skyn, að þeir fengju að ræða bara sín í milli þessa ágætu þáltill.? (Gripið fram í. ) Það er alveg rétt, þeir voru þrír í röð og sáu hilla undir þann möguleika að þeir sætu einir að því að ræða svona gott mál. En svo komu þeir hv. þm. Albert Guðmundsson og Stefán Valgeirsson og spilltu þessu fyrir þeim.

Ég hefði sennilega látið það nægja að fram kæmi við þessar umr. yfirlýsing hv. þm. Stefáns Valgeirssonar í þá veru, að einnig séu símamál í Norðurlandskjördæmi eystra þess háttar, að nokkurra úrbóta sé þörf, ef ekki hefði verið þetta lítilræði sem hv. þm. Albert Guðmundsson vék að, mismunurinn á tæknilegri uppbyggingu ríkisútvarps og síma. Ég vil alls ekki álasa hv. þm. hið minnsta fyrir gagnrýni hans á því, hvernig að þessu er staðið hjá Pósti og síma. Fyrir mér er það kerfi sem nú er þar viðhaft alls ekki heilagt, heldur gagnrýnivert á margan hátt. En ég hef ástæðu til þess að ætla að hv. þm. hafi misskilið hlutverk viðtækjaeinkasölunnar á sínum tíma og geri sér ekki fulla grein fyrir því, hversu geysihagleg geit viðtækjaeinkasalan var Ríkisútvarpinu á þeim tíma þegar raunverulega var verið að byggja það upp frá grunni, vegna þess að af tekjum ríkisviðtækjaeinkasölunnar voru þær framkvæmdir fjármagnaðar að ákaflega miklu leyti. Það veit ég að er rétt. Hitt er ekki af tekjum viðtækjaeinkasölunnar, því að hún hefur verið lögð niður; en tolltekjur hefur Ríkisútvarpið enn þá.

Það er líka mála sannast, að á þeim tíma þegar Ríkisútvarpið annaðist sjálft viðgerðarþjónustu hér á landi var það beinlínis vegna þess að útvarpsvirkjar, sem áttu þess kost að kaupa viðgerðarefni hjá viðtækjaeinkasölunni, voru ekki orðnir nógu margir, þeir gáfu sig ekki til þeirra starfa þá. Úti um land byggðist viðgerðarþjónustan algerlega á því, að Ríkisútvarpið sendi sjálft viðgerðarmenn sína í ferðalög um landið til þess að annast viðgerðarþjónustu. Þetta breytir ekki því, að ég hygg að viðgerðarþjónustan núna á viðtækjum og sjónvarpstækjum sé miklu betri en hún þá var, enda er alllangur tími liðinn. En eins og ég segi, þegar hin tæknilega uppbygging með þeim kostnaði sem fylgdi hjá Ríkisútvarpinu stóð raunverulega hæst hafði Ríkisútvarpið ekki aðeins tolltekjur af viðtækjunum, heldur af sölu þeirra og af varahlutasölu í þessi tæki. Ég mæli ekki með því að slíkt verði tekið upp aftur, og ég vildi gjarnan að athugaðar væru hugmyndir hv. þm. Alberts Guðmundssonar um að tækjaleigunni yrði hætt, yrði rannsakað hvaða áhrif slíkt mundi hafa á fjárhag símans og hvort e. t. v. væri æskilegt að breyta þarna til. Þetta vil ég að verði athugað.

Aftur á móti segja mér fróðir menn hjá Pósti og síma, að þau háu gjöld, sem tekin eru fyrir ýmiss konar þjónustu, svo sem flutning á símatækjum milli herbergja, stafi af því að Póstur og sími leiti ýmissa ráða til verðjöfnunar, þetta háa gjald, sem innheimt er fyrir tiltölulega lítilsverðan flutning á tækjum innanhúss sé notað til þess að greiða niður nýlagnir í hús m. a., sem verði þá tiltölulega ódýrari.

Það er rétt, sem hv. þm. vakti athygli okkar á, að við getum haft mikinn fróðleik af þeim mönnum sem fylgst hafa í áradvöl sinni erlendis með tæknilegum framförum og þeirri hugsun sem þar er beitt við úrlausn vandamála. Ég minnist þess, mig rámar aðeins í það, þegar Íslendingar ætluðu beinlínis að hlæja af sér rassinn yfir hugmyndum Ólafs heitins Friðrikssonar sem stofna vildi jöklabræðslufélagið, sem í aðalatriðum átti að starfa þannig að komið skyldi upp raforkuveri og orkan, sem frá því kæmi, færi í það að bræða jöklana til þess að auka það vatn sem virkja mætti. Þannig var túlkuð hugmyndin um jöklabræðslufélagið. Enn þá meir hefðu Íslendingar hlegið að þeirri hugmynd að virkja stöðuvatn í 90 metra hæð og nota síðan orkuna, — enn þá skemmtilegri hefði þótt sú hugmynd að leggja fyrst peninga í að búa vatnið til, þ. e. a. s. þá væntanlega grunninn undir vatnið, því ætla má að þetta vatn komi af himnum ofan á einhverju tímabili. Ég hygg að þeim hefði þótt gaman að þeirri hugmynd að virkja þannig fall stöðuvatns um 90 metra og nota síðan orkuna til þess að dæla vatninu upp aftur. Ég sé að hv. þm. slær nú í borðið og kveður sér hljóðs, en ég vil taka það fram, ef það getur sparað okkur tíma, að það hvarflar ekki að mér að hið öfuga fall sé virkjað í þessu tilfelli, þ. e. a. s. vatnið á leiðinni upp aftur heldur skil ég þetta á þá lund, að þarna sé um að ræða að á nóttunni, þegar minna álag er og minni orku þarf, sé vatninu dælt upp aftur á sinn fyrri stað.

Ég efast ekkert um það, eins og ég segi, að við getum lært margt af tæknibrögðum annarra þjóða, enda gerum við það. Við notfærum okkur mjög innflutta þekkingu og tæknimenntun útlendinga við lausn á vandamálum okkar hér heima. Ég hygg að sú hugmynd, sem Albert Guðmundsson setti hér fram um þann möguleika sem í því felst að við höfum eina gjaldskrá fyrir allt okkar símakerfi leysi endanlega þetta vandamál fyrir okkur. Eins og stendur fæ ég hins vegar ekki séð að við komumst hjá því að knýja á dyrnar hjá þeim, sem betur eru settir um símaþjónustuna, sem njóta ódýrari símaþjónustu nú um að hjálpa til við að standa nokkurn straum af kostnaðinum sem af því leiðir að veita öðrum þegnum landsins sams konar aðstöðu. Hitt get ég alveg fallist á, að slíkt sé ekkert meginmarkmið. Ef við gætum útvegað fé til þessara hluta á annan hátt væri það sjálfsagt, því að það getur út af fyrir sig ekki verið meginmarkmið hjá okkur að leysa vandamál á þann hátt að gera einhverjum hluta landsmanna nauðsynleg þægindi dýrari en þau áður voru. Ef við getum fundið aðrar leiðir til þess er það sjálfsagt. Ef við finnum ekki aðrar leiðir til þess en þær að láta þá, sem þegar njóta þessara hlunninda, bera nokkurn hluta af kostnaðinum við jöfnun á þessari aðstöðu, þá finnst mér það sjálfsagt.

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Albert Guðmundsson, þó að það kæmi ekki beinlínis fram í ræðu hans áðan, hafi hugsað fjármálahliðina á líkan hátt og þær hugmyndir sem hann setti fram hér í þinginu fyrir þremur árum varðandi framkvæmdir í vegamálum, þegar hann gerði grein fyrir þeirri hugmynd sinni að takast mætti að koma hér upp fullkomnu vegakerfi og á býsna ódýran hátt og standa undir þeim framkvæmdum t. d. með þeim hætti að fá erlent lánsfé til slíkra framkvæmda. Ég neita því ekki, að það hefur hvarflað að mér oft síðan ég hlustaði á mál hans þá að þarna kynni að vera fjárhagslega hagkvæm leið til þess að bæta úr slæmu ástandi í vegamálum hér á landi vegna þess að ýmislegt í rökstuðningi hv. þm. þá fyrir því að þetta kynni að verða hin ódýrasta leið virðist mér vera í fullu gildi enn í dag. Þess vegna vil ég gjarnan að hugmyndir þm. verði teknar til mjög svo alvarlegrar athugunar í sambandi við þessi mál, og ítreka þá það sem ég fyrr sagði, að því fer víðs fjarri að ég sé viss um að núverandi starfsaðferðir Pósts og síma eða fjárhagsleg uppbygging og tæknileg hljóti að vera hin besta.