24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4167 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru bara örfá orð.

Það er ofurlítið gaman að því að ræða svona mál í rólegheitum og ekki síst varðandi bollaleggingar um fjármálalegu hliðina. Það hefur oft verið talað um það áður í umr. um Landssímann að lækka hæstu gjaldflokkana, en það út af fyrir sig leysir lítinn vanda. En í þessum umr. hef ég tekið eftir að komu fram tvær hugmyndir. Önnur er gamalkunn eins og sú að lækka hæstu gjaldflokkana, mér finnst hún aldrei neitt aðgengileg, en það er að lækka aðflutningsgjöld af efni. Að lækka aðflutningsgjöld til ríkissjóðs af efni til síma þýðir það að hækka þarf einhver önnur gjöld til ríkisins í staðinn. Mér finnst þetta því ekki frumleg eða aðlaðandi hugmynd. Hitt er svo sú hugmynd sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv., um það, ef ég hef skilið hann rétt, að Landssíminn selji mönnum tækin, sem þeir nota nú, og nýti það fjármagn, sem þannig fengist, til þess að færa út sjálfvirknina og treysta símakerfið og bæta þjónustuna. Svona hugmyndir kitla mig vissulega nokkuð. Þarna er um að ræða möguleika að ná inn auknu fjármagni og það þarf að gera ef eitthvað á að framkvæma. Svona hluti vil ég vissulega taka þátt í að skoða að svo miklu leyti sem það kemur til minna kasta.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. minntist á viðtækjaeinkasöluna gömlu, en það er staðreynd, og ég vil undirstrika það sem hann sagði, að fyrir hagnað af þeirri verslun var byggður upp mikill hluti af kerfi útvarpsins og þegar útvarpið missti þessa tekjulind var það því mikill hnekkir á sínum tíma. Ég get líka tekið undir það sem þessi hv. þm. sagði, að það á ekki að leggja til að þarna verði aftur horfið að að gamla fyrirkomulaginu. En svona var þetta. Aftur á móti gegnir allt öðru máli um símatækin, því þau hafa ekki verið seld notendum. Útvarpstækin voru seld með verslunarálagningu. Þess vegna hafði útvarpið hagnað af þeim viðskiptum.

Hv. 1. þm. Reykv. er sem oftar hræddur um að nú eigi að íþyngja umbjóðendum hans hér í Reykjavík. Í sambandi við það vil ég bara segja eina setningu: Það fer náttúrlega ekki á milli mála að við eigum aðeins eitt land, og það verður að líta svo á að í þessu landi búi aðeins ein þjóð. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það. (Gripið fram í.) En það kemur viss tortryggni fram, kannske bæði hjá hv. 1. þm. Reykv. og t. d. mér og e. t. v. fleiri þm., annars vegar varðandi bætta þjónustu víðs vegar um landið og svo þessa breytingu með símatækin, að Landssíminn eða ríkið hætti að hafa með þau að gera og einstaklingar tækju við þeim viðskiptum. Hv. 1. þm. Reykv. er svolítið á varðbergi, telur að við séum að koma einhverjum klyfjum á umbjóðendur hans. Við — eða a. m. k. ég — erum örlítið tortryggin á að athenda verslun með símatæki einstaklingum til þess að hagnast á, því að sú verslun yrði auðvitað að bera sig eins og önnur starfsemi í landinu. Ég vil árétta það, að ég vil skoða alla hluti í þessu sambandi og þá fyrst og fremst í þeim tilgangi að auka möguleika Landssímans til þess að veita landsmönnum örugga og góða þjónustu.