24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4168 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hélt að það hefði komið nokkuð ljóst fram hjá mér, að þrátt fyrir þann ótta, sem ég á að hafa borið í brjósti um að nú ætti að íþyngja umbjóðendum mínum, eru það ekki og voru ekki mín orð. Frsm. sagði beinlínis, að það væri tilgangurinn að fjármagna uppbyggingu símakerfisins með því að auka byrði þjóðfétagsþegnanna hér. En hitt er annað mál, að ég tók fram að einmitt ætti að reyna að koma símagjöldunum niður og hafa þau jöfn um land allt, að hér væri eitt land og ein þjóð.

Það er ástæða til þess að vera a. m. k. tortrygginn þegar hagsmunamál landsbyggðarinnar koma til umr. hér, vegna þess að þá er alltaf verið að íþyngja borgarfyrirtækjum. Það er aldrei nokkurn tíma talað um að aðild ríkisins í fyrirtækjum í Reykjavík, sem bera sig ekki. Það er aldrei talað um að landsbyggðin taki þátt í Bæjarútgerð Reykjavíkur. Það er aldrei talað um að landsbyggðin taki þátt í að reka strætisvagnana í Reykjavík. Öll þjóðin notar þá meira eða minna.

Ég vil ganga enn þá meira fram af þeim sem hafa það útkjálkasjónarmið sem kom fram hjá hv. 4, þm. Norðurl. e. þegar ég talaði um þá tækni sem ég lýsti áðan í rafvirkjun. Það vill svo til að sú kvikmynd, sem ég hef talað um, er enn þá til á frönsku sýningunni sem nú stendur yfir hér í borg á mínum vegum, og ég býð hv. þm. að koma með mér að loknum þessum fundi og skoða þá kvikmynd og aðrar tæknilegar myndir sem gætu e. t. v. opnað hugi manna eitthvað meira en virðist vera fyrir.

Í sambandi við vegagerð er alveg rétt, að ég var með hugmynd um erlent lán á 12 ára tímabili. Samkv. upplýsingum Seðlabanka Íslands þann dag sem við báðir tókum þátt í umr. í Ed. hefur sú upphæð margfaldast með tveimur og hálfum í erlendum gjaldeyri á sama tíma og innlend skuldabréf hafa fimmtánfaldast.

Ég ætla að minna hv. þm. á það líka, að 1951 — þá var ég að vísu íþróttamaður — var ég staddur í Brasilíu og eitt af því, sem okkur var þá sýnt, voru verklegar framkvæmdir við vegagerð. Byggður var 1 km í dag fullfrágenginn gegnum frumskóga. Þegar Búrfellsvirkjunin fór í gang á útboði kom boð frá frönsku fyrirtæki sem hafði þá lokið við tíu sinnum stærra raforkuver í Ástralíu, en allar vélar komnar um borð í skip til að flytja þær heim til Frakklands. Þeir voru lægstbjóðendur, en fengu ekki verkið. Þá var aftur á móti skandinavísk samsteypa mynduð til þess að vinna verkið. Þeir frönsku voru tilbúnir til þess að koma hingað og vinna þetta litla verk, Búrfellsvirkjun, og koma með allar þær vélar til vegagerðar sem til þurfti til að byggja 2 þús. langan km veg að þeim virkjunarstað sem þeir voru að virkja á í Ástralíu. Þeir buðu því að vegvæða landið um leið, en því boði var ekki tekið. Það er ekki stórmál að byggja hér 4–5 þús. km veg. Það er hægt að finna fjármagn til þess. Það er hægt að gera það á mjög skömmum tíma. Og það er nákvæmlega sama um símann. Það er nákvæmlega sama um rafveituna sem ég var að tala um áðan.

Svo býð ég hv. þm. að koma með mér að loknum þessum fundi, og ég skal sýna þeim kvikmyndir um þau atriði sem ég var að tala um núna.