24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4169 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Mér hefur rétt einu sinni tekist svo óheppilega til, að hv. þm. Álbert Guðmundsson hefur misskilið mig, og það er efalaust mér að kenna, en ekki honum. Ég var ekki að rengja það sem hv. þm. sagði okkur um þetta franska raforkuver, síður en svo. Ég trúði þessari lýsingu hans, og það hvarflaði ekki að mér að ættast til þess af honum, að hann, ef svo má segja, æti eitt eða neitt ofan í sig aftur af því sem hann sagði í þessu sambandi. Ég hygg að hann hafi haft þar allt rétt fyrir sér. Hann þarf ekki að sýna mér eða sanna mér neitt í þessa veru með kvikmynd. Þessu trúi ég öllu. Þó að útkjálkamaður sé í mér, eins og hv. þm. komst að orði og réttilega líka, hef ég lært svo mikið, m. a. af forsögnum góðra manna, að til slíks ætlast ég ekki að hann éti ofan í sig einn fróðleik eða annan sem hann segir okkur utan úr heimi.

Mér er það minnisstætt, sérstaklega af því að það eru Austfirðingar sem hafa vakið þessa umr., þegar Gunnar ókvænti, sem kallaður var, Sunnlendingur sem kom austur til róðra í Borgarfirði eystra, — en ókvænti var hann kallaður vegna þess að hann hafði hlotið dóm fyrir tvíkvæni, — boðaði til fundar í Bakkagerði í Borgarfirði til þess að segja Austfirðingum tíðindi úr Ameríku, en þaðan hafði hann komið fyrir tveimur árum og vildi fræða þá um hvernig þar væri staðið að málum. Útkjálkamennirnir fylltu samkomuhúsið í Bakkagerði gersamlega og borguðu þó 2 kr. fyrir innganginn, sem var stórfé árið 1932. Gunnar hóf að segja þeim frá reynslu sinni í Ameríku og sagðist hafa byrjað að vinna þar á búgarði nokkrum. „Þar voru 100 mjólkandi kýr í fjósi,“ sagði Gunnar. Og þá gullu þeir við útkjálkamennirnir, sem engu vildu trúa öðru en því sem þeir sjálfir höfðu séð og tvisvar, og einhver kallaði: „100 mjólkandi kýr! Hver heldur þú að trúi því?“ Þá bilaði Gunnar ókvænti og fór á taugum og sagði: „Það voru náttúrlega ekki allt saman mjólkandi kýr, því sumt voru hænsni.“ Þetta er náttúrlega dæmisaga um hversu fráleitt það er af manni að fara að éta nokkurn skapaðan hlut ofan í sig frammi fyrir útkjálkamönnum sem aldrei trúa neinu sem merkilegt er, nema þeir sjái það sjálfir og þá helst tvisvar.

Jú, ég trúi þessari sögu um frönsku virkjunina mætavel, og mér var alvara þegar ég þakkaði fyrir upplýsingar af þessu tagi og talaði um nauðsyn þess, að við tileinkuðum okkur erlenda tækni aðhæfða breyttum aðstæðum. Ég get bent hv. þm. á vegarkafla u. þ. b. 1 km að lengd sem lagður var í grennd við Reykjavík með erlendri tækni sem hafði gefist vel annars staðar, en reyndist ekki nógu vel hérna — hvergi nærri nógu vel. Hér vantar okkur ýmislegt í náttúrufar landsins sem geri það að verkum að við getum flutt erlenda tækni,.aðallega í byggingarframkvæmdum og jafnvel við virkjanir, inn án aðhæfingar að íslenskum aðstæðum. En í grundvallaratriðum getum við haft af slíkri tækni ákaflega mikil not.

Ég vildi leiðrétta það, fyrst ég hafði komið því inn hjá hv. þm., að ég væri að tortryggja það sem hann sagði eða gera lítið úr þeim fróðleik. Það er gagnstætt. Ég er einmitt þeirrar skoðunar, að af slíku getum við haft ákaflega mikið gagn og einnig af ýmsum hugmyndum hv. þm., sem hann hefur gert þinginu grein fyrir áður, um möguleika til fjáröflunar til nytsemdarfyrirtækja sem geta gert okkur lífið þægilegra og framkvæmdir ódýrari.