25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. félmn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Við, sem skipum minni hl. n., leggjum til að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, svo sem fram kemur í nál. okkar á þskj. 549. Sú rökstudda dagskrá er, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Í trausti þess að félmrh. skipi nefnd, sem í eigi sæti fulltrúar launþega, atvinnurekenda og ríkisvalds, til þess að fjalla um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla og að málið verði að þeirri umfjöllun lokinni á ný lagt fyrir Alþ. í byrjun næsta þings, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Hv. 3. landsk. þm. lét þess getið að þetta mál væri mikið og merkilegt og hefði mikla þýðingu fyrir launafólk í landinu. Ég get tekið undir þessi orð. Það var ekki ágreiningur um þetta atriði í hv. félmn., heldur um vinnubrögð. Hv. 3. landsk. þm. sagði að það hefði verið til sóma ef hv. félmn. hefði verið sammála um afgreiðslu málsins. Mér finnst að það fari eftir því um hvað menn eru sammála, en mestan sóma hafi bæði félmn. og þessi hv. d. af því að gera þetta frv. svo úr garði að það geti sem best náð tilgangi sínum. Og það er einmitt með þetta í huga sem við, sem í minni hl. erum, leggjum til að málið verði athugað betur.

Það er ekki að ófyrirsynju að við gerum þetta, vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins sem þetta mál skiptir fyrst og fremst, hafa ekki verið leiddir saman til samráðs, eins og við teljum að æskilegt hefði verið. Ég skal ekki fara að ræða þetta mál efnislega, þar sem ég hef lýst því yfir að ég tel það jafnþýðingarmikið og hv. 3. landsk. þm. En það eru aðrar starfsaðferðir sem við viljum að séu viðhafðar við meðferð þessa máls, að leitað sé samráðs við aðila vinnumarkaðarins. Hér er að ýmsu leyti um vandasamt mál að ræða. Það kemur fram í umsögnum um frv. sem hv. félmn. Nd. voru sendar bæði frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Og þessi mál eru þess eðlis, að ég hygg að það orki vart tvímælis að það sé rétt að kveða þá aðila og launþegasamtökin til samráðs áður en gengið er lengra í afgreiðslu þeirra. Ég hygg að það muni ekki þurfa að valda neinum óeðlilegum óþægindum þó að þessi athugun fari fram, ef þess er gætt, eins og dagskrártillaga okkar gerir ráð fyrir, að hraða málinu svo að það geti komið á ný fyrir Alþ. strax í upphafi þings í haust.

Ég vil í þessu sambandi láta það koma fram, að eðlilegast væri að náðst gæti samkomulag um þessi atriði milli aðila vinnumarkaðarins og þetta væri samningsatriði milli aðila vinnumarkaðarins, eins og fjölmörg þýðingarmikil atriði varðandi laun og kjör eru. Ég vil leyfa mér að vonast til þess, ef sú leið verður farin sem ég vænti, að það verði leitast við að hafa samráð við alla aðila vinnumarkaðarins, að þá verði líka athugað hvort hægt sé að koma þessu máli á þann grundvöll að samningar takist milli sjálfra aðila vinnumarkaðarins. Þá mætti líka gera ráð fyrir að þessum málum væri komið fyrir sem best væri og allir aðilar gætu verið ánægðir með það. Ef þetta hins vegar tekst ekki, og ég er ekki að gera því alfarið skóna að það takist, hlýtur málið að eiga að koma aftur fyrir þingið. Þess vegna leggjum við líka áherslu á að það verði gert, svo sem segir í dagskrártill., þegar í byrjun næsta þings.