25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4174 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, sem skapast fyrst og fremst af því, að ég tel afskipti hins opinbera og ríkisvaldsins af vinnudeilum og vinnumarkaðinum í flestum tilvikum hafa verið óheillavænleg og óheilbrigð á undanförnum árum og ekki orðið til góðs, hvorki fyrir atvinnureksturinn né verkafólkið.

Hæstv. félmrh., Magnús H. Magnússon, talaði um að hér væri réttlætismál á ferðinni. Ég er honum innilega sammála. Auðvitað er það réttlætismál að lægst launaða fólkið í samfélaginu og það, sem vinnur erfiðustu störfin, hafi sömu réttindi og aðrir í samfélaginu, og þá ekki síst þeir sem eru í opinberum störfum. Satt að segja verður manni að spyrja, úr því að hið opinbera er að skipta sér af þessu: Af hverju er þá ekki stigið skrefið til fulls og þessu fólki tryggð öll sömu réttindi og t. d. opinberum starfsmönnum? (Gripið fram í: Það verður gert næst.) Þó þarf um leið að tryggja að hinn frjálsi atvinnurekstur, ef hann á að vera til í landinu, geti reitt þá bagga sem honum eru bundnir. Sé svo er ekkert óeðlilegt að það skref verði stigið. Ekki skal ég standa á móti því að það verði stigið, síður en svo, því að þetta fólk vinnur það erfið störf að full ástæða er til að taka tillit til þess.

En hitt er annað mál, að t. d. í þessu tilviki þarf að hafa í huga að staðgengilsreglan getur orðið smáatvinnurekstri ákaflega erfið. Þegar um er að ræða lítil fyrirtæki þar sem starfa 2–3 menn, t. d. litla útgerð þar sem eru 3–4 menn í áhöfn, getur orðið býsna erfitt fyrir menn að greiða þetta. Það hefur líka komið fram við flutning þessa máls, að menn geti keypt tryggingu og tryggt sig fyrir þessu, en það er alger misskilningur. Það er engin tryggingastarfsemi til sem tryggir slíkt sem þetta. Vil ég að komi fram að það er alger misskilningur.

Það er síður en svo að ég vilji standa á móti því að verkafólkið fái rétt sinn í samfélaginu. Þar fyrir tel ég að afskipti hins opinbera af þessum málum séu til ills í flestum tilvikum og eigi að forðast þau svo sem kostur er.