25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4176 í B-deild Alþingistíðinda. (3275)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla að hemja málgleði mína við þessa umr., hefði e. t. v. ekki einu sinni kvatt mér hljóðs hefði ekki komið svo berlega fram í ræðum hv. stjórnarandstæðinga um þetta mál að þeir virðast ekki hafa gert sér grein fyrir hversu lengi viðræður hafa staðið yfir um nákvæmlega þetta mál efnislega á milli aðila vinnumarkaðarins. Er þeim hv. og góðgjörnu þm. út af fyrir sig engin afsökun í því, þótt svo virðist sem núv. forsvarsmenn Vinnumálasambands samvinnufélaganna virðist ekki gera sér grein fyrir því heldur.

Um þetta mál hefur verið deilt áratugum saman efnislega í öllum kjarasamningum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda á þessu landi. Um þetta mál hefur staðið deila. Um þetta mál hafa verið háð verkföll. Um þetta mál hefur verið deilt jafnvel enn þá lengur en deilt var um rétt sjómanna á togurunum um hvíldartíma á sínum tíma. Um þetta mál hafa verið háð fleiri verkföll.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og hv. þm. Guðmundi Karlssyni, að hið æskilega hefði verið að um þetta atriði næðist samkomulag í frjálsum samningum verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda. En þetta hefur verið reynt svo lengi án æskilegs árangurs að eðlilegt er að verkalýðshreyfingin neyti þess nú, að þeir flokkar, sem hún hefur sérstaklega til treyst og sérstaklega hafa orðið öðrum fremur við áskorun verkalýðshreyfingarinnar, sitja nú á stjórnarstólum, og fái þetta fært í lög eins og svo ákaflega mörg réttindamál alþýðu hafa verið færð í lög vegna þess að ekki var hægt að ná þeim fram öðruvísi. Ég hygg að það mundi koma í ljós við athugun á vinnudeilum síðustu þrjá áratugina, að næst á eftir kröfum um lagfæringu launa með tilliti til dýrtíðar hafi þessar kröfur borið einna hæst í þeim verkföllum sem háð hafa verið á því tímabili. Það var enginn að biðja hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, enda hefði verið ósæmilegt að víkja slíku að honum, um að blygðast sín fyrir afskipti Sjálfstfl. af félagsmálum á landi hér. Þó að honum finnist ekki ástæða til að blygðast sín fyrir afskipti Sjálfstfl. af félagsmálum á landi hér á síðari áratugum, enda hefði hann sennilega gengið úr Sjálfstfl., jafnsómakær maður og hann er, ef honum hefði fundist ástæða til þess að blygðast sín fyrir slíkt, er ekki þar með sagt, að Sjálfstfl. sem slíkur, séu metin mál og málefni sem hann hefur uppi gjarnan í þjóðmálaumr., hefði ekki ástæðu til þess að skammast sín fyrir þessa hluti.

Af ákaflega eðlilegum ástæðum minntist hv. þm. Karl Steinar Guðnason á desembersamkomulagið frá því í vetur, þar sem samið var við þessa ríkisstj. sem verkalýðshreyfingin hefur sýnt oftar en einu sinni að hún ber sérstakt traust til. Það var gert óformlegt samkomulagað vísu óformlegt samkomulag eins og gjarnan er gert á milli aðila sem treysta hvor öðrum — um að gegn því að látið yrði kyrrt liggja hvort kæmu fullar verðlagsbætur samkv. samningum á laun eða ekki, fengist ígildi þeirrar upphæðar sem þar var um að ræða, í félagslegum umbótum. Ég hygg að margir úr hópi þeirra, sem fastast hafa staðið í ístaðinu fyrir verkalýðshreyfinguna í kjarabaráttunni síðari áratugina, hafi talið að einmitt þetta atriði, sem frv. það felur í sér sem við hér fjöllum um, vægi mjög þungt upp á móti 3% sem voru síðan bætt að öðru leyti líka með fyrirheitum um lögbindingu annarra félagslegra úrbóta — fyrirheitum sem nú er verið að efna.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði: Þetta mál hefur dregist of lengi. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson undirstrikaði að það væri ekki Sjálfstfl. að kenna. Að vísu mun það vera þannig, að Sjálfstfl. óskaði sérstaklega eftir því að afgreiðslu málsins væri frestað. Af eðlilegum þingræðislegum ástæðum var orðið við því.

Ég ætla ekki að kalla ábyrgð á atvinnurekendum gersamlega yfir höfuð Sjálfstfl. og allra síst hv. þm. Guðmundar Karlssonar og Þorv. Garðars Kristjánssonar. En hefðu atvinnurekendur verið fáanlegir til þess að fallast í frjálsum samningum á þær kjarabætur, sem felast í þessu frv., hefði verkalýðshreyfingin greinilega orðið að grípa til enn þá hvassari vopna en þeirra sem felast í möguleikanum til þess að gera verkfall til þess að koma slíku til leiðar. Þetta er margbúið að reyna. Hér er um það að ræða, að við lögfestum núna að verkafólkið skuli fá þessi réttindi. Það má ekki dragast hótinu lengur.