25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4177 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en það eru nokkur atriði vegna seinni ræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar sem mér finnst nauðsynlegt að láta koma fram.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sagði að í þessu frv. fælust sjálfsögð réttindi, sjálfsögð réttindabót fyrir láglaunafólkið í landinu. Á sama tíma benti hann hv. þingheimi á það, sem er vissulega satt og rétt, að Sjálfstfl. hefði allra flokka lengst í sögu lýðveldisins farið með stjórn mála. Ég held að það sé nokkur vitnisburður um það félagslega réttlæti — eða réttara sagt skortinn á því félagslega réttlæti og þann ójöfnuð sem þróast hefur í þessu þjóðfélagi, að það skuli þurfa með löggjöf á því herrans ári 1979 að knýja fram þessi sjálfsögðu réttindi, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson kallaði svo, eftir að Sjálfstfl. hefur lengst allra flokka farið með stjórn þessa þjóðfélags á lýðveldistímanum. Staðreyndin er nefnilega sú, að það hefur þurft flokka launafólksins í landinu til þess að knýja á um þessar réttindabætur hvað eftir annað, annaðhvort með kjarasamningum eða þá með ítökum sínum í stjórn ríkisins.

Þau réttindi, sem hér eru á ferðinni, eins og rakið hefur verið í þessum umr., hafa samtök launafólks sett á oddinn í kjarasamningum áratugum saman og ávallt hefur Vinnuveitendasambandið staðið gegn þessum réttindum. Ég sé ekki hvaðan hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni kemur sú vitneskja, að allt í einu á næstu mánuðum muni Vinnuveitendasambandið fallast á þessi réttindi, enda hefur það skýrt komið fram af hálfu Vinnuveitendasambandsins að það muni ekki gera það. Vinnuveitendasambandið hefur slegið reikningsstokk á þessi réttindi og áætlað lauslega að þau nemi jafnvirði 18 milljarða kr. á ársgrundvelli. Það er fyrirsláttur einn hjá hv. þm. að það sé einhver von til þess, að þessi réttindi náist fram í betra formi til handa láglaunafólkinu í landinu með því að tefja málið á þann hátt sem hann hefur gert till. um. Það er engin von til þess, vegna þess að það liggur fyrir skjalfest af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands, bæði kom það fram þegar þessar hugmyndir litu fyrst dagsins ljós og þeir slógu reikningsstokk á þessi réttindi og nýlega í yfirlýsingum, að Vinnuveitendasambandið sé ekki til viðræðna við samtök launafólksins í landinu um neitt yfir höfuð á næstu mánuðum. Þá liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir öllum þeim, sem hafa heilbrigða skynsemi og augu sem vilja sjá, að krafa um að vísa þessu máli til samninga Vinnuveitendasambands og launafólksins í landinu er krafa um að reyna að tefja og koma í veg fyrir að lægst launaða og réttindasnauðasta fólkið í þessu landi fái bætur. Og það er e. t. v. vitnisburður senn rétt er að geyma sér í minni eftir þann langa valdaferil Sjálfstfl. sem hv. þm. gumaði svo mjög af áðan, að það skuli þurfa á Alþingi Íslendinga að knýja fram þær réttindabætur, það atvinnuöryggi, þá tryggingu í sjúkdómstilfellum sem gert er með þessu frv. Það er vitnisburður um að við lifum þrátt fyrir allt í þjóðfélagi þar sem lægst launaða fólkið í landinu tugþúsundum saman hefur jafnlítið atvinnuöryggi, hefur jafnlítið tekjuöryggi í veikindatilfellum og raun ber vitni.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sótti sér röksemdir í álit Vinnumálasambands samvinnufélaganna og taldi sig aldeilis hafa höndlað hamingjuna að hafa fengið liðsmenn í framsóknaríhaldinu í SÍS. Því miður er það skoðun okkar sumra, sem höfum verið — og erum reyndar enn — fylgjandi samvinnuhugsjóninni sem félagslegri aðferð til lausnar á vandamálum í þessu þjóðfélagi, að í ýmsum æðstu stöðum innan samvinnuhreyfingarinnar séu menn sem vegna hagsmuna og þjóðfélagshugsjóna á undanförnum árum hafa gengið í lið með klíkunni í Vinnuveitendasambandinu. Þetta eru sömu menn og unnu á ýmsan hátt gegn síðustu vinstri stjórn. Þetta eru sömu menn og voru bakhjarlinn í stjórnarsamstarfi Framsfl. og Sjálfstfl. á síðustu 4 árum. Þetta eru sömu menn og í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa hvað eftir annað verið að reyna að knýja fram kjaraskerðingu og nota til þess ríkisstj.

Ég kunni ekki við að vera að rifja upp ummæli Vinnumálasambands samvinnufélaga í ræðu minni hér. En ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að þau séu rifjuð upp. Ég lasta það ekkert sérstaklega. En ég vil jafnframt hæla þm. Framsfl. fyrir að þeir skuli fylgja okkur þm. Alþb. og Alþfl. í því að hafa andmæli Vinnumálasambands samvinnufélaga að engu. Það er til vitnis um að e. t. v. kunni í þessu ríkisstjórnarsamstarfi að vera hægt að fá Framsfl. til þess að standa að réttindaaukningum til handa lægst launaða fólkinu í landinu, þrátt fyrir andstöðu þeirrar forustuklíku í samvinnuhreyfingunni sem hefur leitt samvinnuhreyfinguna allt of langt inn í íhaldsherbúðirnar í þessu landi. En ég vil jafnframt upplýsa hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson um það, að mér er kunnugt um að innan samvinnuhreyfingarinnar í dag eru, bæði meðal félagsmanna hennar og ýmissa forustumanna, mjög harðar gagnrýnisraddir á þá íhaldslínu sem forustan í Vinnumálasambandi samvinnufélaganna hefur fylgt á undanförnum árum. Ég bind miklar vonir við að í röðum samvinnuhreyfingarinnar verði smátt og smátt á næstu mánuðum og missirum þau þáttaskil sem gera okkur hinum auðveldara að vinna með þeim mönnum og ganga heils hugar til langvarandi bandalags við þá um þjóðfélagsbreytingar í þessu landi í þágu hagsmuna launafólks í framleiðslunni, í kjaramálunum og í velferðarmálunum.

Það eru að gerast breytingar innan samvinnuhreyfingarinnar hvað þetta snertir. Þar gera menn sér grein fyrir að til lengdar felur sú stefna, sem ríkt hefur á undanförnum árum hjá Vinnumálasambandi samvinnufélaga, í sér félagslegan dauða og hagsmunatogstreitu samvinnuhreyfingarinnar við launafólkið í landinu. Þess vegna er það bréf, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson las upp úr áðan, fyrst og fremst til vitnis um skoðanir sem ég vona að séu víkjandi innan samvinnuhreyfingarinnar í þessu landi.

Ég vil aftur sérstaklega þakka hv. þm. Framsfl. og ráðh. hans í þessari ríkisstj. að þeir skuli hafa staðið svo dyggilega sem þeir hafa gert — þeir hafa gert það fyllilega og eðlilega — með þessu frv. og öðrum slíkum, þrátt fyrir þær skoðanir sem hv. þm. Þorv. Garðar vitnaði til.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson kallaði það stóryrði þegar ég lýsti því með almennum orðum, hversdagslegu máli, að þegar Vinnuveitendasamband Íslands hefur mótmælt frv. til að bæta kjör og réttindi láglaunafólksins í þessu landi hefur Sjálfstfl. á þingi ávallt stutt sjónarmið Vinnuveitendasambandsins og sótt sér röksemdafærslur í umsagnir Vinnuveitendasambands Íslands. Ég sé ekki að hægt sé að draga neina aðra ályktun af því en að þegar hagsmunir alþýðusamtakanna í landinu og hagsmunir vinnuveitendasamtakanna í landinu rekast á hafi Sjálfstfl. á þingi kosið að standa með Vinnuveitendasambandi Íslands. Það er staðreynd. Það er söguleg staðreynd. Og hún breytist ekkert þótt hv. þm. kalli það upphrópanir eða eitthvað annað. En hitt efast ég ekki um, að ýmsum innan Sjálfstfl. líður e. t. v. nokkuð illa að þurfa að vera í þeirri för þar sem forusta vinnuveitendasambandsklíkunnar gengur fyrst og leiðir þm. Sjálfstfl. á eftir sér. En eins og ég sagði áðan — og ásakanir um upphrópanir munu engu breyta í þeim efnum — munum við sjá til þess ásamt hundruðum og þúsundum launafólks um allt land að ekki bara nú, heldur lengi um ókomin ár verði afstaða Sjálfstfl. hér á Alþ. þegar til umræðu voru þessi sjálfsögðu réttindi, sem hv. þm. orðaði svo, fyrir láglaunafólkið í landinu — verði afstaða Sjálfstfl. til þeirra mála rifjuð upp og alþýðu þessa lands falið sjálfri að draga ályktanir af því, hverra hagsmuna Sjálfstfl. vill gæta þegar í odda skerst.