25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4182 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Jón Helgason:

Herra forseti. Það er aðeins til að leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. 3. landsk. þm., að við framsóknarmenn í þessari hv. d. séum í andstöðu við samvinnuhreyfinguna þegar við samþykkjum eða styðjum þetta frv. Enda þótt í bréfi því frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, sem lesinn var stuttur kafli úr áðan og ég hef reyndar ekki séð, kunni að vera bent á einhverja annmarka við samþykkt þessa frv. er það ekki í andstöðu við samvinnuhreyfinguna að bæta kjör eða aðstöðu þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Allir vita að samvinnuhreyfingin er stofnuð til þess að jafna aðstöðu fólks og að því vinnur hún.

Það er rétt, að ýmsum samvinnumönnum hefur stundum fundist vera of lítill munur á afstöðu Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna við kjarasamninga. Þegar við höfum að því spurt höfum við fengið þá skýringu, að þar sem þeir eðli málsins samkv. sitja sömu megin við samningaborðið komi ekki alltaf fram sá mismunur sem hefur verið á vinnubrögðum þeirra. En þar sem aðrir eiga ekki betri aðgang að því að fá upplýsingar um þá sögu en hv. 3. landsk. þm. veit ég að hann mun fá réttar upplýsingar um hana.