25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3283)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það eru orðnar lengri umr. um þetta mál en maður hafði gert ráð fyrir af tilefni þeirrar dagskrártill. sem við hv. 5. þm. Suðurl. höfum lagt fram. Ég skal ekki fara að elta ólar við allt sem sagt hefur verið frá því að ég talaði síðast.

Hv. 3. landsk. þm. hefur mikinn áhuga á því að hv. þm. Jón Ásbergsson tali sem oftast í þessari d. Ég tek undir með honum. Ég vona að við eigum eftir að heyra hann oft tala í þessari d. En þá verður hv. 3. landsk. þm. líka að vanda sig betur þegar hann svarar vel uppbyggðum og góðum ræðum hans og betur en hann sýndi sig gera áðan.

Hv. 3. landsk. þm. gerir sér grein fyrir og margsagði það, að við sjálfstæðismenn, sem stöndum að minnihlutaálitinu, teljum — hann tók. upp mín orð -að hér sé um hið þýðingarmesta mál að ræða. En hv. 5. þm. Reykn. hefur greinilega ekki skilið þessa afstöðu okkar, hvað oft sem við höfum undirstrikað hana. Hann segir orðrétt, að með því að flytja dagskrártill. viljum við drepa málið algerlega. Þetta segir hv. þm. þó að það sé sérstaklega tekið fram í dagskrártill. og lögð áhersla á það, að þeirri athugun, sem við gerum ráð fyrir, sé hraðað svo að hægt sé að leggja málið fram í byrjun næsta þings. Ég þykist vita að þegar hv. 5. þm. Reykn. athugar þetta betur sjái hann hið rétta í þessu, eins og kom líka greinilega fram í máli hans, að hann sá hið rétta í afstöðu Bjarna heitins Benediktssonar til félagslegra mála í landinu. Hv. þm. sá það og taldi ýmis atriði sem var komið í framkvæmd undir stjórn þess ágæta foringja Sjálfstfl. Var það einmitt undirstrikun á því sem ég sagði áðan, að jafnan þegar Sjálfstfl. hefði verið í stjórn hefði einmitt miðað í rétta átt í hinum félagslegu málum.

En það, sem er kannske erfiðast við að eiga í þessum umr., ef hægt er að komast svo að orði, er afstaða Ólafs Ragnars Grímssonar, hv. 3. landsk. þm. Mér virðist að hann tali nokkuð öðru máli en — mér liggur við að segja: flestir hv. dm. gera. Þegar hann talar um Vinnuveitendasamband Íslands talar hann í þeirri tóntegund, að maður getur ekki ætlað annað en það sé skoðun hans að best væri að þessi klíka, sem hann svo kallar, væri ekki til, — maður getur ekki ætlað annað, — að það væri ekki Vinnuveitendasambandinu fyrir að fara. Og hann hneykslast á því, að ef Vinnuveitendasambandið kemur með einhverja skoðun geti mönnum þótt rétt að líta á það mál. Það á fyrir fram að dæma allt óalandi og óferjandi sem kemur úr þeirri átt. Svo segir hann að við sjálfstæðismenn séum náttúrlega verkfæri þessara óþurftarsamtaka. En ég held að menn átti sig á því, og jafnvel ýmsir góðir menn í flokki Ólafs Ragnars Grímssonar, að vinnuveitendasamtökin eru mjög mikilvæg og þýðingarmikil samtök í landinu. Þau eru svo þýðingarmikil, að ef þau væru ekki gætum við ekki hugsað okkur heldur að það væru verkalýðssamtök. (Gripið fram í. ) Jú, segir hv. 3. landsk. þm. Við þekkjum slík verkalýðssamtök. Við þekkjum slík samtök fyrir austan járntjald. En við þekkjum ekki verkalýðssamtök í lýðfrjálsum löndum öðruvísi en það séu líka samtök viðsemjenda þeirra.

Þegar við sjálfstæðismenn metum hvort við tökum tillit til hugmynda sem fram koma hjá atvinnurekendum eða launþegum, þá höfum við þetta í huga. Við teljum hvor tveggja þessi samtök jafnþýðingarmikil og við hikum ekki við að taka tillit til hugmynda og tillagna þessara aðila vinnumarkaðarins, hvort sem er frá Alþýðusambandi Íslands eða Vinnuveitendasambandi Íslands. Við teljum skyldu okkar að vega og meta í hverju einstöku tilfelli hvað skuli gera, hvort í hugmyndum þessara aðila sé eitthvað sem að gagni megi verða. Við erum ekki fyrir fram uppfullir af fordómum gegn öðrum aðilanum. Ef við værum það værum við í raun og veru uppfullir af fordómum gegn því skipulagi sem við búum núna við, hinum frjálsa samningsrétti og hinu frjálsa, lýðræðislega þjóðfélagi. Þetta þurfum við að hafa allt í huga. Ég held að ef hv. 3. landsk. þm. hefur þetta í huga og hefði haft það í huga hefði hann stillt í hóf ýmsu því sem hann beindi að okkur sjálfstæðismönnum í þessu efni.

Þetta eru lokaorð mín í þessari umr., og ég vil leggja áherslu á það, sem við sjálfstæðismenn höfum allir gert, að við viljum að þetta mál nái fram að ganga. En við viljum gera tilraun til þess að gera það betur úr garði en hér er. Við fáum ekki orða bundist yfir þeirri óhæfu, að svo sjálfsagt mál skyldi vera gert að verslunarvöru með því að heimta á móti að verkalýðurinn gæfi eftir 3% af umsömdu kaupi í des. s. l.