25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég vil enn ítreka það, að ríkisvaldið gerði hvað eftir annað tilraun til þess að hafa samráð við vinnuveitendasamtökin um samningu þessa frv., en þeir aðilar hlupu frá borði og þar eru þeir í dag.

Ég vil og vekja athygli á þeirri dæmalausu hræsni sem kemur fram hjá sjálfstæðismönnum þar sem þeir segjast hver um annan þveran vera samþykkir þessu frv., en þeir séu samt á móti því, þeir vilji bara fresta málinu, þeir vilji bara drepa málið. Þeir vita í raun og veru að ef þetta mál dettur upp fyrir á þessu þingi hlýtur það að kosta andsvör verkalýðshreyfingarinnar og ófrið sem enginn í raun vill fá. Í raun eru þeir innst í hjarta sínu á móti þessum réttarbótum, en þora ekki að vera á móti þeim hér á Alþ. vegna þess að augu verkakonunnar niðri í frystihúsi eða verkamannsins horfa til þeirra manna sem leggja sig í það að reyna að drepa þetta mál. Augu þessa fólks hvíla á þeim mönnum og taka eftir því, hvernig þeir greiða atkv. nú á eftir, hvort þeir muni út þennan fund halda áfram að hræsna eða hvort þeir muni fara að þeim óskum, sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson lét í ljós áðan, að allir þdm. sæju sóma sinn í því að vera meðmæltir þessu máli.