25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4188 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hefur vakið máls á því, hvað líði meðferð lagafrv. sem flutt var í samræmi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. og fjallaði aðallega um lánsheimildir í samræmi við þá stefnu sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin markar. Ég talaði fyrir þessu máli við 1. umr. 28. febr., minnir mig vera, hafði framsögu fyrir málinu þá. Ég get vel viðurkennt að mér urðu það vonbrigði að ekki var hægt að afgreiða þetta mál fyrir áramót, fyrir jólin. Ég hafði lagt nokkra áherslu á að það yrði gert, en eðlileg málsmeðferð er að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fylgi fjárl. Það fór þó svo fyrir jólin, að miklu meiri tími fór í afgreiðslu fjárl. en ástæða var til að ætla. Því vannst ekki tími til að ljúka þessu máli fyrir áramótin, þó að í raun og veru væri búið að vinna málið af hálfu ríkisstj. og af hálfu fjmrn. fyrir áramótin.

Ég sé í Alþingistíðindum að ég hef rætt þetta mál aftur 14. mars. Ég sagði þá í upphafi ræðu minnar, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Skýrsla ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ásamt frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir o. fl. hefur verið hér til meðferðar í hv. þd. alllengi. Ég vildi leyfa mér að beina því til hv. fjh.- og viðskn., sem eflaust fær þetta mál til meðferðar, að reyna að hraða afgreiðslu þess þegar þar að kemur, vegna þess að það fer að verða óþægilegt að bíða eftir samþykkt frv.“

Ég vil gjarnan skýra frá því, að eftir þetta hef ég rætt það við formann hv. fjh.- og viðskn. að nauðsynlegt sé að hraða þessu máli, því að töf á afgreiðslu fer að valda truflunum í atvinnulífinu, sérstaklega þó í iðnaðinum og e. t. v. í sambandi við orkuframkvæmdir sem þurfa sína peninga að sjálfsögðu. Ég get því tekið undir það með hv. 1. þm. Vestf. að auðvitað þarf að hraða þessu máli. Mun ég reyna að leggja á það áherslu eins og hingað til, þó að það hafi ekki borið meiri árangur en raun ber vitni, að svo verði gert. Ég vonast til að ekki líði ýkjamargir dagar áður en málið kemur fyrir Nd. og hægt verði að hraða meðferð þess í gegnum báðar deildir þingsins.

Ég vil vekja athygli á því í sambandi við þessa umr. utan dagskrár, að í nýsettum lögum um stjórn efnahagsmála o. fl. fjallar sérstakur kafli um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir ríkisstj. Samkv. þeim kafla hefur verið lögfest sú lagaskylda, að ríkisstj. skuli leggja fyrir Alþ. fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skuli þær fylgja fjárlagafrv. Um leið og ég get tekið undir aðfinnslur hv. 1. þm. Vestf. í sambandi við meðferð málsins vil ég skírskota til þessa. Það er brýn nauðsyn á því, að fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin fylgist að hér á Alþ. Þetta eru svo nátengd mál á alla vegu að eðlilegt er að fjallað sé um þau jafnhliða.

Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. spurðist fyrir um, um lánakjör fjárfestingarlánasjóða, get ég upplýst að Framkvæmdastofnun ríkisins og Seðlabankinn hafa fyrir alllöngu skilað ríkisstj. till. um lánakjörin, eins og fyrir er mælt í lögum. Ég var að vísu fjarverandi tvo fundi í ríkisstj., en ég veit ekki betur en ríkisstj. hafi samþ. fyrir sitt leyti þær till, um almennu stefnuna. Síðan gengur þetta til einstakra fjárfestingarlánasjóða sem ákveða nánar útlánakjörin.