25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4189 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það vill þannig til, að orðið hafa ýmis forföll í forustu fjh.- og viðskn. d. — af eðlilegum ástæðum þó. Bæði formaður n. og varaformaður sitja á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf sem fulltrúar þingflokka sinna. Ég tek skýrt fram, að ég tel þó að fjarvera þeirra hafi á engan hátt orðið til að tefja störf í n., þannig að ekki sé því um að kenna að umrætt frv. að lánsfjáráætlun er ekki komið til 2. umr. hér í d. Það hefur komið í minn hlut að gegna störfum formanns í þessari n. síðustu dagana — og frá því reyndar skömmu fyrir páska — vegna fjarveru þessara tveggja þm. Af þeim ástæðum hef ég séð ástæðu til að leggja hér orð í belg.

Ég tel að út af fyrir sig sé ekkert óeðlilegt að hv. 1. þm. Vestf. kveðji sér hljóðs utan dagskrár til að minna á þetta mál. Það er óumdeilt, að auðvitað er það ekki gott að enn skuli lánsfjáráætlun ekkí hafa verið afgreidd. Það skortir, að ég hygg, ekkert á vilja manna, hvorki í fjh.- og viðskn. Nd.þm. almennt, til að reyna að hraða þessu máli, og ég vil segja það af minni hálfu, að ég hef fullan hug á að það gæti orðið.

Ég tek það fram, að boðaður er í fyrramálið fundur í fjh.- og viðskn. d. Ekki get ég fyrir fram tekið ábyrgð á því, að hann verði sá síðasti um þetta mál, en það er stefnt að því að reyna að hraða afgreiðslu þess eins og frekast er unnt. Við höfum kvatt á fundi n. fjölmargra aðila til þess að fræðast af þeim um ýmis þau atriði sem n. í heild eða einstakir nm. úr hinum ýmsu þingflokkum hafa talið ástæðu til að leita sérstaklega upplýsinga um. Þetta hefur allt verið nokkuð tafsamt, því er ekki að neita. Auðvitað stafar þessi töf einnig að nokkru leyti af því, að menn hafa viljað leitast við að skapa sem víðtækasta samstöðu í n. um afgreiðslu málsins.

Það er rétt, sem hv. þm. Matthías Bjarnason gat um, að við 1. umr. málsins kom fram ákveðin gagnrýni varðandi einstakar greinar þessa frv., m. a. frá einstökum þm. stuðningsflokka ríkisstj. Auðvitað hefði þetta allt gengið eitthvað hraðar ef allir hefðu frá upphafi verið nákvæmlega sammála. En aðalatriðið er að takast megi, áður en veruleg töf hefur orðið til viðbótar við það sem nú þegar er staðreynd, að koma frv. út úr n. og þá helst þannig að því hafi a. m. k. ekki hrakað í meðförum n. Vil ég vænta þess, að það sé spurning um fáa daga — vonandi mjög fáa — hvenær fjh.- og viðskn. Nd. lýkur afgreiðslu málsins. Ég hef bæði fullan skilning á þeirri þörf sem fyrir hendi er á því að fyrirbyggja verulega töf á afgreiðslu þessa máls og einnig fulla trú á því, að okkur muni auðnast hér í d. að ljúka málinu fljótt eftir að það kemur út úr n. og lánsfjáráætlun geti þá farið til Ed. og orðið afgreidd þar áður en margir dagar líða. — Þetta vildi ég sagt hafa.

Auðvitað er það ekkert einsdæmi að afgreiðsla lánsfjáráætlunar dragist dálítið fram á það ár sem henni er ætlað að gilda. Að vísu var hún á síðasta ári afgreidd í des. Auðvitað er það besti kosturinn og sjálfsagt að það sé reynt þegar unnt er það er til fyrirmyndar í raun og veru. En um hitt eru líka finnanleg dæmi í þingsögunni frá síðari árum að afgreiðsla lánsfjáráætlunar hafi átt sér stað nokkru eftir áramót. Þetta ár lendir óhjákvæmilega í þeim hópi, enda áætlunin ekki lögð fram fyrr en komið var nokkuð fram á þetta ár. Það mun hafa verið í síðasta mánuði — mars — sem hún var lögð fram af hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj.

Ég þarf ekki að segja öllu fleira, en vildi láta þessa getið með tilliti til þess að ég gegni um stundarsakir formennsku í viðkomandi nefnd.