06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta mikilsverða málefni sem hér hefur verið lagt fram frv, um, um Framkvæmdasjóð öryrkja. Ég er ekki í neinum vafa um að allir alþm. hafa hug á því að greiða götu þess, að þau verkefni, sem frv. fjallar um, nái fram að ganga og til þess verði veitt það fjármagn sem frekast er unnt og helst svo mikið sem nauðsyn krefur.

Hv. flm. flutti ítarlega framsöguræðu sem ég hef ekki miklu við að bæta hvað snertir nauðsyn þess verkefnis sem frv. fjallar um. Ég held að sú nauðsyn sé almennt viðurkennd og viðurkennd af þeim sem settu grunnskólalögin og hafa starfað hér á Alþ. að undanförnu. En það er eins og oft hefur viljað verða, að það er fjármagnið sem vantar, og svo mun einnig í þessu tilviki.

Ég vil þó, áður en þetta frv. fer til n., gera örfáar aths., ekki af því að ég sé andvígur efni frv., heldur vegna þess að ég vil að það komi fleira til athugunar í sambandi við afgreiðslu þess en í því stendur eins og það er nú.

Í fyrsta lagi finnst mér, að nafnið sé fullvíðtækt fyrir það verkefni sem ætlað er að vinna samkv. frv. Sjóðurinn á að heita Framkvæmdasjóður öryrkja, en það er ekki nema hluti af þeim framkvæmdum, sem til þarf, sem honum er ætlað að vinna að.

Þá vil ég í öðru lagi benda á, hvort þörf sé á að skipa stjórn fyrir þetta verkefni, eins og þarna er lagt til. Hér er um að ræða framkvæmd á lögboðnum verkefnum, og ég dreg nokkuð í efa að það sé rétt leið að bæta við einu stjórnunartækinu til viðbótar. Satt að segja hélt ég að báknið væri alveg nógu stórt eins og það er og hægt væri að koma þessum málum fyrir án þess að bæta við nýjum millilið. Má vera að ég misskilji þetta eitthvað.

Í þriðja lagi vil ég svo segja það almennt, að enda þótt ég hafi á sínum tíma, og það oftar en einu sinni — margoft býst ég við — verið flm. að frv. sem gera ráð fyrir svokölluðum mörkuðum tekjustofnum, þá er ég það ekki lengur. Ég tel að verkefni, sem lög kveða á um, eigi að fjármagna gegnum fjárlög og þar eigi að tiltaka þá fjárhæð sem fært telst að leggja fram til lausnar þessu verkefni. Hv. flm. sagði líka réttilega, að það skipti ekki neinu meginmáli hvaðan fjármagnið kæmi, aðalatriðið væri að það kæmi, það væri fyrir hendi. Og ég vil í allri vinsemd benda á það, hvort ekki sé vænlegra og réttara, með tilliti til framtíðarinnar líka, að tillaga til þessa verkefnis eins og margra annarra sé ákveðið í fjárlögum. Ég veit að það er að hluta til ákveðið í þessu frv., að ríkisframlag skuli koma til, en ég lýsi þessu sem minni skoðun eins og hún er nú orðin, — ég hef þá leyfi til þess að láta mér snúast hug á ný, ef ég verð sannfærður enn á ný, og fara þá einn hring enn. Eins og sakir standa tel ég almennt að verkefni eins og þau, sem hér um teflir, eigi að fjármagna gegnum fjárlög. Það má vel vera, að hægt sé að hætta við eitthvað af því sem í fjárlagafrv. er nú. Ef svo er, þá er út af fyrir sig vel. Það má líka vera, að hægt sé að finna eitthvað fleira en það, sem hv. flm. nefndi, sem draga mætti úr, og þá er það einnig góðra gjalda vert. Ég vil nú fremur vara við þeirri fjáröflunarleið sem hér er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. tappagjaldi og gjaldi á aðgöngumiða að skemmtisamkomum.

Að öðru leyti ætla ég ekki að seg ja meira um þetta mál, herra forseti. Ég fagna framkomu þess, því að enda þótt okkur kunni að greina á um leiðir til fjáröflunar, þá hlýtur þó flutningur frv. að vekja athygli á því máli sem hér er um að tefla, sem er vissulega þarft, og þess vegna hefur það þegar, vil ég vona, náð nokkrum tilgangi.