25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4192 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

186. mál, orkuiðnaður á Vesturlandi

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Frv. það, sem við hv. 2. þm. Vesturl. flytjum á þskj. 355, er frv. um orkuiðnað á Vesturlandi. Með flutningi frv. þessa er fyrst og fremst stefnt að tveimur meginbreytingum að því er varðar orkuiðnað á Vesturlandi.

Í fyrsta lagi er að því stefnt að færa verulega út starfssvið Andakílsárvirkjunar sem hefur starfað allt frá árinu 1947 og er sameign þriggja sveitarfélaga á Vesturlandi, þ. e. Akraneskaupstaðar, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu. Þetta fyrirtæki hefur allt frá öndverðu verið ákaflega vel rekið fyrirtæki og ákaflega farsælt. Þykir eðlilegt og sjálfsagt að færa út starfssvið þess og láta það ná til alls Vesturlandskjördæmis. Um þetta atriði eru öll sveitarfélög á Vesturlandi sammála, a. m. k. öll þau sem tekið hafa afstöðu til þess, en í þeim hópi eru öll sýslufélög á svæðinu. Þetta hefur einnig verið það sjónarmið sem hefur verið ofan á innan samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Við teljum eðlilegt og sjálfsagt að tekið sé undir eindregnar óskir heimamanna um að starfssvið Andakílsárvirkjunar sé fært út og jafnframt fái virkjunin að halda þeirri heimild sem hún hefur í lögum þess efnis að virkja Hvítá við Kljáfoss, en það er reyndar forsenda þess að þetta fyrirtæki geti fengið að eflast til hags og heilla fyrir íbúa Vesturlands og einnig til hags og heilla fyrir landsmenn alla.

Annað atriði í þessu frv. er það, að sveitarfélögin á Vesturlandi utan Akraneskaupstaðar sameinist um að annast orkudreifinguna, en hún hefur til þessa að mestu verið í höndum Rafmagnsveitna ríkisins. Við flm. þessa frv. teljum að eðlilegt sé og sjálfsagt að áhrif heimamanna að því er varðar orkudreifinguna verði aukin og að sú leið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sé líkleg til þess að halda niðri raforkuverði á Vesturlandi og koma þannig til móts við og leysa þann mikla vanda sem er því samfara hve raforkuverð á svæðinu er misjafnt. Þetta sjónarmið á einnig mikið fylgi meðal sveitarstjórnarmanna á Vesturlandi, og ég held að í hvert skipti sem um þetta mál hafi verið gerðar ályktanir í hópi sveitarstjórnarmanna á Vesturlandi hafi þær ályktanir hnigið í þá átt, að sjálfsagt væri að heimamenn tækju við raforkudreifingunni og það væri líklegasta leiðin til að halda þar niðri öllum kostnaði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. á þessu stigi, en vænti þess, að hv. þm. í þessari d. taki þessu máli af skilningi og greiði fyrir því af fremsta megni. Þetta frv. er mikilvægt hagsmunamál fyrir íbúa í heilu kjördæmi og þeir mundu vissulega kunna mjög vel að meta að frv. yrði að lögum á þessu þingi.