25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

186. mál, orkuiðnaður á Vesturlandi

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það gleður mig að nú skuli loks hilla undir að frv. þetta nái að ganga til n. þeirrar sem um það á að fjalla.

Hæstv. iðnrh. fór um frv. nokkrum orðum og um þá stefnu sem það fylgir. Nefnd sú, sem vann að þessum málum, raforkunefnd Vesturlands, var skipuð í maí 1976, en skilaði áliti 25. mars 1978 — ekki á þessu ári eins og raunar má lesa í málið.

Það er rétt, að taka má svo til orða að hér sé um stofnun sérstakrar virkjunar að ræða að því er I. kafla frv. snertir. Þó höfum við, sem að þessu máli stöndum, lagt höfuðáherslu á að hér væri fyrst og fremst um stækkun eða útfærslu að ræða á virkjun sem þegar hefur starfað á þessu svæði frá 1947 og reynst mjög vel.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að stefna sú, sem frv. greinir, er nokkuð önnur en stefna hæstv. ríkisstj. Hin svonefnda stefna hinnar svokölluðu Íslandsvirkjunar, eða einnar virkjunar fyrir allt landið, hefur komið fram öðru sinni hjá hæstv. núv. ríkisstj. á sama hátt og varð á árunum 1972–1973 þegar það mál var komið nokkuð vel áleiðis. En ég held þó, að þegar betur er að gáð sé stefna frv. satt að segja ekki mjög öndverð þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstj. boðar og hæstv. iðnrh.

Við höfum aldrei gert ráð fyrir að Vesturlandsvirkjun yrði algerlega sjálfstæður aðili sem færi sínu fram hvað sem aðrir segðu. Við höfum alltaf viðurkennt og vitað um að yfir landshlutavirkjunum hlyti að verða ríkisvald, annaðhvort Rafmagnsveitur ríkisins eða einhver stofnun sem t. d. ætti hinn svonefnda hringveg rafmagnsins, sem sumir svo kalla, þ. e. a. s. það hlyti að verða einhver stofnun yfir landshlutaveitunum sem hefði svo og svo mikil ráð og reisti hinar stærstu virkjanir og miðlaði öðrum af þeim. Um þetta mætti að sjálfsögðu ræða í löngu máli, því að öll eru þessi mál viðamikil og margþætt.

Þá minntist ráðh. á það, að ef stefna sú yrði tekin upp sem frv. fylgir, þá yrði öll verðjöfnun rafmagns erfiðari. Má vera að svo sé. Þó held ég að bæði hæstv. ráðh. og við flestir hverjir aðrir, sem um þessi mál fjöllum og hugsum, séum fylgjandi þeirri stefnu, að verðjöfnun þurfi að vera sem mest, raforkuverð sem jafnast um allt land.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir það sem hann gat um, að nefndin hefði unnið sumpart gagnlegt starf. Það voru viðurkenningarorð af hans hálfu. Ég er ekki að segja að við höfum fundið hina einu leið í þessum málum eða hina einu réttu leið, en ég vænti þess, að þetta frv. og það starf, sem liggur á bak við, verði nokkurt innlegg í þessi mál, sem vissulega eru enn ofarlega á baugi hjá þjóðinni og verða að vera það þangað til skipulagið er komið í annað og betra horf en nú er.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það hefur verið áhugamál mitt að mál þetta kæmist á dagskrá á þingi, einkum og ekki síst vegna þess að sú 7 manna nefnd, sem að því vann, komst að sameiginlegri niðurstöðu, en það er mikils virði þegar heimamenn ná að sameinast um vissa meginþætti mikilvægra mála í héraði þeirra og raunar í landinu öllu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál nú, en vænti þess, að sú nefnd, sem fær það til meðferðar, láti nú hendur standa fram úr ermum og vinni að því af dug og dáð að koma frv. svo langt áleiðis sem verða má á þessu þingi.