25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4195 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

221. mál, tollskrá

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 442 frv. ásamt hv. þm. Áma Gunnarssyni, Ingvari Gíslasyni og Kjartani Ólafssyni. Þetta frv. er unnið í samráði við Landssamband iðnaðarmanna annars vegar og Félag ísl. iðnrekenda hins vegar. Frv. gerir ráð fyrir að breytt sé lögum um tollskrá, eins og kemur fram á þskj., og tilgangur þess er að fella endanlega niður greiðslu aðflutningsgjalda af aðföngum þeirra iðnfyrirtækja sem stunda framleiðslu til útflutnings eða eiga í beinni samkeppni við vörur og þjónustu, sem heimilt er að flytja til landsins, eða óbeinni samkeppni þegar heimilt er innflutningur sem komið getur í stað innlendrar vöru eða þjónustu. Eins og þetta stendur núna í lögum er það í annarri grein en þarna er gert ráð fyrir, en sú breyting, sem hér er verið að leggja til, snýst um að um sé að ræða miklu fortakslausari ákvæði en áður.

Í grg. á þskj. er gerð grein fyrir því, hvernig túlkun og framkvæmd á núgildandi skipun hafi verið. Þar segir að á aðlögunartímanum vegna inngöngunnar í EFTA hafi aðflutningsgjöld af aðföngum samkeppnisiðnaðar smám saman verið felld niður að mestu. Var þetta í fyrsta lagi gert með beinni niðurfellingu aðflutningsgjalda í tollskrá af þeim tollskrárnúmerum, sem aðföng iðnaðar féllu undir, og í öðru lagi með heimildarákvæðum í tollskrá og fjárl. Enn eru þó mörg dæmi um að fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisiðnaði sé gert að greiða aðflutningsgjöld af aðföngum sínum og veldur þar eftirfarandi mestu:

1. Aðföngin falla í svokölluð blönduð tollskrárnúmer, þ. e. a. s. aðföng iðnaðar falla í tollskrárnúmer sem að verulegu leyti fela í sér vörur til annarra notenda en iðnfyrirtækja. Hefur því ekki verið talið fært að fella niður toll í viðkomandi tollskrárnúmerum vegna tekjusjónarmiða ríkissjóðs.

2. Túlkun 12. tölul. 3. gr. tollskrárlaganna, bæði hvað snertir gildissvið aðfanga og skilgreiningu samkeppnisiðnaðar, er of þröng til að tölul. nái því að heimila niðurfellingu allra aðflutningsgjalda til samkeppnisiðnaðar.

3. Fjmrh. hefur nýverið farið að túlka heimildarákvæðin þannig, að einungis sé heimilt að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af aðföngum sem beri jafnhá gjöld eða hærri en samkeppnisvaran.

Þá er í grg. bent á einstök atriði í þessu sambandi og tekin nokkur dæmi, eins og sjá má á bls. 2. Ég vil vekja sérstaka athygli hv. þm. á hve tollur er misjafn, eins og kemur fram í þessari upptalningu, á ýmsum flutningatækjum annars vegar og á ýmsum öðrum innfluttum vörum til iðnaðarframleiðslu hins vegar. Við flm. leggjum til að á þessu verði breyting. Við bendum á að hér sé um að ræða mál sem nauðsynlegt sé að fái góða afgreiðslu hér á þinginu, vegna þess að þetta sé þáttur í tæknivæðingu iðnaðarins, nauðsynlegri tæknivæðingu sem óhjákvæmilega hljóti að leiða síðar til lækkunar vöruverðs og þar með til bættra lífskjara í landinu.

Við bendum á það á bls. 3 í grg., að eitt af þeim afriðum, sem hér á landi hafi staðið í vegi fyrir aukinni framleiðni, séu allt of háir tollar á tækjum til flutninga innan verksmiðjanna. Afleiðing af þessu er sú, að vörur eru fluttar til með handafli eða á annan frumstæðan hátt sem krefst verulegrar áreynslu af hálfu starfsmannanna. Með nútíma flutningatækjum, svo sem lyfturum, færiböndum og hlaupaköttum svokölluðum, má auðvelda þessa flutninga til muna. Afleiðingar af þessari breytingu yrðu að okkar mati: Í fyrsta lagi kæmi fram bætt vinnuaðstaða vegna minnkaðs líkamlegs álags á starfsmenn. Í öðru lagi að starfsmenn eyddu meiri tíma við sjálfa framleiðsluna og við það mundi framleiðnin aukast. Og í þriðja lagi mundi sá tími, sem tekur að fullgera hverja einingu af vörunni, styttast þar sem varan kemst án tafar frá einni aðgerð til annarrar.

Það er góður þáttur, þegar lagt er fram frv. sem hreyfir við tekjum ríkissjóðs á þann veg að ríkið tapar af tekjum sínum, að reyna að áætla slíkt tekjutap eða þann kostnað sem frv. hafa í för með sér. Ætlunin var í undirbúningi við þetta frv. að meta slíkt rækilegar en gert er í grg., en því miður gafst ekki tími til þess. Þó má segja að það sé skoðun þeirra, sem gerst þekkja til málsins, að tekjutap ríkissjóðs sé ekki verulegt, en með því að þetta mál komist til n. má gera ráð fyrir að á því máli verði gerð sérstök úttekt. Það, sem gerir tekjutapsáætlunina dálítið flókna, eru að sjálfsögðu þau atriði sem áður hafa komið fram máli mínu, en það er að í þessum tollskrárflokkum eru margs konar vöruflokkar sem eru notaðir til annarra þátta en beinlínis til iðnaðar. Það, sem við leggjum til, er að þessi áðurgreindu ákvæði flytjist úr undanþáguheimildum tollskrárlaganna yfir í greinina sem fjallar um frjálsan innflutning.

Þess ber að geta í sambandi við þetta mál, að frá því í haust hefur starfað samstarfsnefnd um iðnþróun, sem skipuð var af iðnrh., og sitja í þeirri nefnd Vilhjálmur Lúðvíksson, sem er formaður hennar, Bjarni Einarsson framkvæmdastjóri byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Bragi Hannesson bankastjóri, Davíð Scheving Thorsteinsson formaður Félags ísl. iðnrekenda, Guðmundur Þ. Jónsson formaður Landssambands iðnverkafólks, Hjörtur Eiríksson framkvæmdastjóri iðnaðardeildar SÍS, Pétur Sæmundsen bankastjóri, Sigurður Magnússon stjórnarformaður Framleiðslusamvinnufélags iðnaðarmanna og Þorleifur Jónsson framkvæmdastjóri Landssambands iðnaðarmanna. Hlutverk nefndar þessarar er, eins og fram hefur komið: 1) Að vera iðnrh. til ráðgjafar um mótun heildarstefnu í iðnaðarmálum og leggja fram till. um það efni. 2) Að efla samstarf hinna ýmsu aðila iðnaðarins sem framkvæma þær aðgerðir sem samstaða næst um innan nefndarinnar og á vettvangi ríkisstj. og Alþingis. 3) Að gera till. til iðnrh. um ráðstöfun jöfnunargjalds af iðnaðarvörum samkv. lögum nr. 83/1978 vegna ársins 1979, og svo sem síðar kann að verða ákveðið, í þágu iðnþróunaraðgerðar í samræmi við mótaða stefnu.

Strax í haust, þ. e. a. s. um mánaðamótin nóv. — des., var það mál, sem hér hefur verið lýst, þ. e. a. s. það mál sem þetta frv. fjallar um, á dagskrá í þessari nefnd og fékk þá ítarlega umræðu í nefndinni. Á þeim fundi lagði Þorleifur Jónsson fram frumdrög að hugmyndum um lausn á því vandamáli sem hér er verið að gera tilraun til að leysa. Mér er skylt að segja frá þessu þar sem orðalag í frv. okkar er að langmestu leyti sama orðalagið og kemur fram í þeirri nefnd sem ég hef verið að segja frá, enda nutum við samstarfs við þá aðila sem í nefndinni hafa starfað. Á því orðalagi, sem kemur fram í nefndinni, er þó sú breyting að ekki er minnst á „almennt mat“, en í 1. gr. frv., sem hér liggur frammi til umr.; er gert ráð fyrir í 5. línu að neðan í 1. gr. að þar komi til almennt mat notenda viðkomandi vöru. Eins og augljóst er er slíkt almennt mat ákaflega erfitt og það varð að ráði í samstarfsnefndinni að það orðalag félli brott. Ég fyrir mitt leyti, og ég vænti þess, að ég tali þar fyrir hönd annarra flm. jafnframt, get vel sætt mig við þá breytingu.

Þess ber þó að geta, að á starfi nefndarinnar og því starfi sem við höfum unnið, og þá sérstaklega ég sem 1. flm. vann með öðrum höfundum þessa frv. og það hófst talsvert áður en frv. kom til umr. í áðurgreindri samstarfsnefnd, lögðum við áherslu á að þetta mál kæmi á þessu þingi í frv.-formi, en ekki í þál.-formi, eins og mér skilst að hæstv. ráðh. hafi í hyggju að gera þegar samstarfsnefndin hefur endanlega unnið störf sín.

Formaður samstarfsnefndarinnar, Vilhjálmur Lúðvíksson, hefur sagt mér nýlega að starf nefndarinnar sé á fullri ferð og megi gera ráð fyrir að því starfi ljúki innan tíðar.

Þess skal geta, að samtök iðnaðarins hafa lýst yfir stuðningi við þetta frv. og lýst yfir áhuga á að það fengist afgreitt á þessu þingi. Það er þess vegna von mín að það fái afgreiðslu í þessari d. og afgreiðslu á þessu þingi.

Ég vil að lokum leggja til að frv. verði sent hv. fjh.- og viðskn. til afgreiðslu.