25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

221. mál, tollskrá

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv., Friðrik Sophusson, hefur getið þess, að það frv. til l., sem hann ásamt þremur öðrum hv. þm. flytur, sé ættað að stofni til og meginhluta frá samstarfsnefnd um iðnþróun sem starfar á vegum iðnrn. Mér þykir gott að hv. flm. hefur getið þessa hér í framsögu, en kemst út af fyrir sig ekki hjá því að vekja á því frekari athygli, að dálítið er óvenjulegt að fá hér inn í þingið texta sem er á mótunarstigi á vegum stjórnskipaðrar nefndar, þótt að sjálfsögðu banni enginn þm. að taka upp góðan texta þar sem þeir finna hann, enda telji þeir að það sé viðkomandi máli til framdráttar. Til þess að skýra þetta aðeins betur vil ég í upphafi máls míns vitna í bréf, sem formaður starfsnefndar um iðnþróun, Vilhjálmur Lúðvíksson, hefur ritað hv. 1. flm. og sent mér afrit af, til þess að það sé skýrt hvert samhengi er hér á milli. Í þessu bréfi segir, eftir að rakið hefur verið hlutverk samstarfsnefndar um iðnþróun, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðal þeirra undirstöðuatriða varðandi stefnumótun í iðnaðarmálum og breytingar á aðbúnaði fyrir iðnað í landinu hefur framkvæmd tollalaga verið mjög til umræðu, og var það m. a. eitt af þeim málum sem sett voru fremst á lista af þeim sem reynt yrði að fá bætt úr sem fyrst. Var skipuð undirnefnd í þeim tilgangi að undirbúa málið fyrir hönd nefndarinnar og vinna að því með iðnrn. að fá slíkar umbætur fram. Undirnefnd þessi var skipuð þeim Þorleifi Jónssyni frá Landssambandi iðnaðarmanna og Hauki Björnssyni frá Félagi ísl. iðnrekenda.

Hinn 29. nóv. var mál þetta rætt ítarlega í nefndinni og var á þeim fundi Þorsteinn Ólafsson aðstoðarmaður iðnrh. Á þeim fundi lagði Þorleifur Jónsson fram frumdrög að hugmyndum um lausn á þessum vandamálum, og mótaðist þar sú skoðun, að öll þau meginvandamál, sem eftir stæðu í tollamálum, mætti rekja til þess, hvernig fjmrn. kysi að framkvæma 12. tölul. 3. gr. tollskrárlaga. Var Þorsteinn Ólafsson aðstoðarmaður ráðh. þeirrar skoðunar, að sú framkvæmd væri ekki í samræmi við upphaflegan tilgang þessa tölul., en Þorsteinn var höfundur hennar á þeim tíma þegar hann starfaði í fjmrn.

Á grundvelli þessarar umr. var Hauki Björnssyni og Þorleifi Jónssyni falið að taka saman sameiginlega grg. og gera till. að breytingu á tollskrárlögum sem miðaði að því að fá eðlilega framkvæmd tryggða gagnvart iðnaðinum í landinu. Þann 7. febr. lögðu þeir Haukur og Þorleifur svo fram slíka till. og eftir umr. var þeim falið að undirbúa málið við fulltrúa fjmrn. og iðnrn. Jafnframt var stefnt að því að till. Þessi yrði tekin upp sem liður í tillögugerð samstarfsnefndarinnar um almenna stefnumótun í aðbúnaðarmálum iðnaðarins.

Næst gerist það, að fram kemur á Alþ. frv. til l. um breytingar á tollskrárlögum, samhljóða því sem þeir Haukur og Þorleifur höfðu lagt fram í nefndinni, án þess þó að endanleg umr. um málið hefði farið fram og án þess að getið væri um aðdraganda málsins á vettvangi nefndarinnar. Þar sem ætlunin er að till. þessi verði sett í skýrslu samstarfsnefndar um iðnþróun tel ég nauðsynlegt“ — og það er formaður nefndarinnar sem skrifar þennan texta — „að þessi tengsl við starf nefndarinnar verði gerð ljós, því að andkannalegt virðist að nefndin geri slíka till. eftir að frv. er komið fram um málið á Alþingi.

Að sjálfsögðu hlýtur samstarfsnefnd um iðnþróun að fagna því, að frv. kemur fram með svo skjótum hætti, og styður fyllilega að það nái fram að ganga á þessu þingi, ef unnt er, með þeim smávægilegu breytingum sem nefndin hefur gert á því við umr. síðan það var lagt fram í nefndinni.“ — Tilvitnun í þetta bréf formanns samstarfsnefndar um iðnþróun lýkur hér.

Ég vil jafnframt geta þess og staðfesta það, sem kom fram hjá hv. 1. flm. þessa frv., að þessi nefnd er í þann veginn að skila af sér umfangsmiklu áliti sem væntanlega mun fylgja þáltill. um stefnumörkun varðandi iðnaðarmál sem ég vænti að geta kynnt hv. Alþ. innan tíðar. Það er rétt, sem hv. þm. gat um, að ekki er víst að jafnframt hefði fylgt lagafrv. um þetta atriði á þessu þingi eða óvíst í hvaða búningi það hefði fram komið. En hugmynd mín er sú, að eftir að almenn stefnumörkun varðandi iðnþróunarmál hefur farið fram og Alþ. gefist kostur á að leggja mat sitt á hana verði unnið að lagabreytingum og nýmælum í lögum sem geti verið til framdráttar iðnaði í landinu. Þá er þetta eitt af þeim atríðum þar sem ástæða er til að bæta um og glöggva einnig í framkvæmd, og kannske hefði í vissum tilvikum nægt að bæta úr vissum agnúum sem eru á framkvæmd gildandi laga.

Á till. eins og þær eru hér fluttar eru nokkrir agnúar, og hv. flm. benti á einn í 1. gr. sem hann teldi að athuguðu máli að mætti burt falla, — agnúar sem rn. hefði tekið til athugunar auk þess að taka síðan málið upp við fjmrn. svo sem skylt er þar eð lög um tollskrá heyra undir það. Þá á ég við ef frv. sem þetta hefði verið fram borið sem stjfrv. Breytir þetta hins vegar ekki jákvæðu viðhorfi mínu til þessa frv. og þeirra hugmynda sem þar liggja að baki um hagsbætur fyrir íslenskan iðnað. Nauðsynlegt er að fá lausn á þeim málum sem hér er um fjallað.

Ég vil hér á eftir gera nokkrar aths. og ábendingar varðandi frv., um leið og ég tek undir flesta efnisþætti þess sem horfa mundu til bóta ef samkomulag næðist um framkvæmd þeirra. En þar reynir ekki síst á skilning af hálfu fjmrn. sem sér á eftir nokkrum tekjum sem nú renna í ríkissjóð. Ég hef ekki gert sérstaka úttekt á því máli, þannig að ég hef ekki upplýsingar um það atriði fremur en hv. flm., talsmaður frv. hér áðan. Ég vil leggja áherslu á að ég tel að frv. eigi að fá eðlilega þinglega meðferð. Er iðnrn. reiðubúið að gefa formlegar ábendingar um einstaka þætti þess sé eftir þeim leitað.

Rétt er að víkja nokkrum orðum að lagatæknilegum atriðum sem snerta frv.

Þá er fyrst að þykja kann hæpið að jafnumfangsmikil undanþágugrein og hér um ræðir, þar sem oft eru mjög óljós matsatriði sem ráða niðurstöðum, sé sett fram sem fortakslaus eða það sem stundum er kallað „pósitíf“ tollfrelsisgrein. Eðli málsins samkv. ætti hún líklega betur heima sem heimild og þá í tengslum við 3. gr. tollskrárlaganna. Á bak við þessa framsetningu liggur hins vegar eflaust reynsla margra aðila í iðnaði af beitingu fjmrn. á 12. tölul. 3. gr. tollskrárlaga og sú ósk að með breytingunni verði undanbragðalaus framkvæmd tryggð. Sú framkvæmd hefur að minni hyggju ekki verið sem skyldi og styð ég eindregið að á því verði fengin viðunandi og farsæl lausn. Þá er á greininni jafnframt sá annmarki, að samkv. henni er með heimild í tollskrárlögum felldur niður m. a. söluskattur, vörugjald og jöfnunargjald sem nú lúta öðrum sérstökum lögum. Þá má benda á að gert er ráð fyrir niðurfellingu gjalda þegar framleiðandi á í óbeinni samkeppni, en það er þegar um er að ræða víxlnotkun ákveðinnar innfluttrar vöru við innlenda framleiðsluvöru, sem þó er ekki hliðstæð sem kallað er, — svo dæmi sé tekið má þar benda á ávaxtasafa og ávexti, — og að þessari niðurfellingu ráði, eins og kemur fram í 1. gr., almennt mat notenda viðkomandi vöru. Hv. flm. benti sérstaklega á í framsögu sinni að þetta atriði mundi orka tvímælis. Slík viðmiðun í löggjöf má vissulega teljast hæpin, svo að ekki sé meira sagt, og verður væntanlega að vera samráðsatriði rn. og viðkomandi samtaka hvernig á er haldið.

Til viðbótar því, sem ég hef þegar sagt um efnisatriði till. sjálfrar, vil ég bæta við, að frv. felur í raun í sér breytingu á núv. 12. tölul. 3. gr. tollskrárlaganna. Felst hún fyrst og fremst í því, að auk hráefna, efnivara og véla, vélahluta og varahluta, sem fella skal niður gjöld af samkv. núv. 12. tölul. 3. gr., eru nefnd hjálparefni, rekstrarvörur, umbúðir, tæki og áhöld og sérstaklega tekið fram um flutningatæki til flutninga innan verksmiðjulóða. Þá gerir till., eins og fyrr segir, ráð fyrir að niðurfellingin nái til söluskatts, vörugjalds og jöfnunargjalds auk tolla, sem er breyting frá fyrri tollskrá. Í reynd snertir þetta þó aðeins söluskattinn og hann að hluta, því að í lögum um vörugjald og reglugerð um jöfnunargjald eru ákvæði sem segja að hafi verið felldur niður tollur samkv. 12. tölul. 3. mgr. 3. gr. tollskrárlaganna skuli sú niðurfelling jafnframt gilda um gjöld sem innheimt eru samkv. þeim lögum, þ. á m. um vörugjald og jöfnunargjald.

Hvað söluskattinn áhrærir er sérstök heimild í 12. tölul. 6. gr. fjárl. yfirstandandi árs til að fella niður eða endurgreiða sölugjald af vélum og tækjum, vélahlutum og varahlutum til samkeppnisiðnaðar. Það, sem eftir stendur, er þá söluskattur af hjálparefnum, rekstrarvörum og flutningatækjum. En benda má á að fyrirtæki í útflutningi fá svokallaðan uppsafnaðan söluskatt endurgreiddan, þar sem aðallega er um að ræða söluskatt af rekstrarvörum.

Þá er og veigamikil breyting í frv., og hún er sú, að fallið er frá viðmiðuninni um að um sé að ræða aðföng til framleiðslu á vöru sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af samkv. EFTA- og EBE-samningunum, þ. e. aðföng til svokallaðs samkeppnisiðnaðar. Er tekið fram, að niðurfellingin eigi við þegar um sé að ræða fyrirtæki sem stundi framleiðslu til útflutnings, fyrirtæki sem séu í beinni samkeppni við innflutta vöru og þjónustu, þ. á m. viðgerðir og verktöku, og fyrirtæki í óbeinni samkeppni þegar heimilaður er innflutningur sem komið getur í stað innlendrar vöru eða þjónustu. Varðandi þessi atriði kann að vera um ýmis tolltæknileg vandamál að ræða í framkvæmd og þurfa þau því góðrar athugunar við. En aðalatriðið er að ná fram breytingum sem verði iðnaðinum til hagsbóta og styrki samkeppnisaðstöðu hans án þess að um mikla hættu sé að ræða á misnotkun af hálfu annarra aðila.

Herra forseti. Eins og ég hef þegar tekið fram tel ég frv. þetta í meginatriðum góðra gjalda vert, enda unnið efnislega af nefnd sem starfar á vegum iðnrn. að tillögugerð um iðnþróun. Fyrir utan greinar frv. sjálfs eða megingrein þess, þá er einnig atriði úr grg. beint sótt í grg. samstarfsnefndar um iðnþróun. Þannig er kaflinn um túlkun á framkvæmd núgildandi skipunar algerlega orðrétt tekinn upp úr þeim drögum að grg. sem mér hafa borist frá nefndinni. En megintilgangur frv. er að ráða bót á hvimleiðu vandamáli fyrir þá sem fyrir iðnrekstri standa, þótt á frv. kunni að vera nokkrir efnislegir og tæknilegir ágallar, eins og hér hefur verið bent á, sem rn. hefði að sjálfsögðu leitast við að sníða af í samráði við fjmrn. ef það hefði staðið að þessu frv., svo sem sjálfsagt er í slíku efni, enda hefði komið í hlut fjmrh. að flytja slíkt frv. hér á Alþ. þar sem lög um tollskrá falla undir fjmrn. Bráðlæti eða ákveðinn vilji flm. þessa frv. hefur hins vegar komið í veg fyrir slíka málsmeðferð. Er ég út af fyrir sig ekki að amast við áhuga þeirra á málinu, þótt höfundárrétturinn sé ótvírætt hjá umræddri samstarfsnefnd um iðnþróun, eins og ég hef hér glöggt tekið fram. Vænti ég að það komi ekki að sök við efnislega meðferð málsins hér í þinginu og viðhorf rn. og stjórnvalda komi fram við meðferð málsins í þeirri þn. sem væntanlega mun um það fjalla. Fátt er nú brýnna í atvinnulífi landsmanna en efling iðnaðar og bætt samkeppnisaðstaða, og fagna ég sem iðnrh. jákvæðum stuðningi við þann málstað frá hv. þm. og þá einnig hv. flm. þessa frv.