25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4201 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

221. mál, tollskrá

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðh. fyrir efnislegan stuðning við það mál sem hér er til umr. Hann las upp úr bréfi formanns svokallaðrar samstarfsnefndar, sem hann skipaði í haust, til mín, en hann fékk afrit af því bréfi. Ég vil taka fram að það bréf var sent mér að minni beiðni, en ekki að frumkvæði formanns nefndarinnar, og var óskað eftir því að afrit þess bréfs væri til hæstv. ráðh., og mér var kunnugt um það. Ég bað um þetta bréf af því að ég ætlaði mér að gera grein fyrir þessu máli í ræðu minni og þóttist hafa gert það hér áður.

Hæstv. ráðh. gerði mikið úr því, og það eiginlega kom mér dálítið á óvart, að það virtist vera aðallega þess vegna sem hann tók til máls, að um væri að ræða mál sem hefði verið unnið af nefnd sem hann skipaði. Hér er um alvarlegan misskilning að ræða. Málið er það, að talsvert fyrir þann tíma vaknaði áhugi minn á þessu máli og þetta mál hefur verið um margra mánaða skeið til umr. meðal þeirra sem starfa að íslenskum iðnaði. Ég er hérna með bréf sem sent var mér snemma í des. af Félagi ísl. iðnrekenda. Þar er harmað að ég skuli ekki hafa fengið fyrr gögn frá þeim, — ég hafði beðið um þau fyrri partinn í nóv., — en iðnrekendur höfðu strax í upphafi nóv. sent fjmrh. bréf einmitt um það málefni sem verið er að fjalla um í dag.

Það er svo annað mál, að endanlegt orðalag frá hálfu þeirra, sem unnu þetta mál með mér, kom ekki fyrr en það hafði verið tekið til umr. í nefndinni, en það var alfarið samið af þeim mönnum sem starfa annars vegar hjá Landssambandi iðnaðarmanna og hins vegar hjá Félagi ísl. iðnrekenda, og það kemur mér á óvart að þau félagasamtök tvö séu í sérstakri einkaeign einhverrar nefndar sem hæstv. ráðh. hefur skipað. Það kom mér þess vegna dálítið á óvart að það skyldi vera aðallega þess vegna sem hæstv. ráðh. stóð upp, til þess að sýna fram á að hann ætti einkarétt á þessu orðalagi.

Nóg um það. Það, sem skiptir auðvitað höfuðmáli, er að hér er hreyft máli sem er mikilvægt og þarf úrlausnar við. Það er ekki nóg að skipuð sé samstarfsnefnd í þessu máli og það er ekki nóg að hér á Alþ. komi fram þáltill. um stefnu hæstv. ráðh. í iðnaðarmálum. Það skiptir máli að hér sé gerð sú bragarbót á máli sem eiginlega er gamalt loforð stjórnvalda til iðnaðarins, þ. e. a. s. um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum ýmiss konar til iðnaðarins.

Eitt frægasta dæmið í þessum efnum er svo kallað lyftaramál, sem ég veit að hæstv. ráðh. kannast við og þó kannske fremur þeir sem hafa starfað hjá fjmrn. Á sínum tíma var farið fram á skýringar rn. á þeirri lagagr., sem við höfum verið að fjalla hér um, og að þessari undanþáguheimild í tollskrárlögunum væri breytt. Henni var breytt um ákveðinn tíma en breyttist síðan aftur, og það sýnir kannske best að ekki er nægilega vel á þessum málum haldið. Slíkt hefur gerst reyndar um fleiri atriði. Það er sagt eitt í dag og hitt á morgun í þessum málum. Við slík skilyrði er ekki hægt að stunda atvinnurekstur hér á landi. Ég gæti nefnt hér fleiri dæmi sem voru komin til fyrr og það löngu áður en samstarfsnefnd hæstv. ráðh. var sett á laggirnar.

En ég ætla að ítreka að mestu máli skiptir, að málið nái fram að ganga, og leyfa mér hér og nú að skora á hæstv. ráðh. að standa við þau orð sín að fylgja þessu máli og gera á því viðeigandi breytingar, ef þær þarf að gera, hér á þinginu þannig að það verði afgreitt frá þessu þingi sem lög. Mér heyrðist á honum — og ég fagna því — að hann væri stuðningsmaður málsins. Hann hefur tækifæri til þess hér í þingsölum að sanna það í verki með því að flytja brtt. eða biðja flokksmenn sína að gera það í n. þegar málið verður tekið fyrir þar. Aðalatriðið er að við þurfum lagafrv. í þessu máli, sem er mjög brýnt, þótt auðvitað beri að fagna því að hæstv. iðnrh. komi fram með ákveðna stefnu í iðnaðarmálum unna af þeirri nefnd sem hann hefur sett á laggirnar.

Ég vil að endingu aðeins skýra frá því, að á sínum tíma í vetur var gefið út dreifibréf Félags ísl. iðnrekenda og í því er fjallað um þetta mál. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Að mati Félags ísl. iðnrekenda er hér um að ræða eitt brýnasta hagsmunamál framleiðsluiðnaðarins í landinu, og væntir stjórn félagsins þess, að samstaða náist um afgreiðslu málsins á yfirstandandi þingi.“

Flm. þessarar till. fengu bréf frá formanni Félags ísl. iðnrekenda, Davíð Scheving Thorsteinsson, þar sem hann segir m. a. að hann vænti þess, að málið fái fljóta og góða afgreiðslu á yfirstandandi þingi en Davíð Scheving Thorsteinsson er einn þeirra manna sem eiga sæti í samstarfsnefndinni sem hér hefur verið mikið til umr.

Það var ekki ætlun mín að fara ofan í fjölmörg einstök dæmi sem hafa verið nefnd og bent hefur verið á í þessu máli og sýna og sanna að taka þarf ákveðið á málinu, en ég hef tækifæri til að koma þeim dæmum, sem ég hef hér hjá mér, til nefndarinnar.

Ég vil að lokum ítreka það enn einu sinni, að ég fagna stuðningi hæstv. ráðh. Ég skal gjarnan fallast á það orðalag sem komið er frá samstarfsnefndinni. Ég benti á það í ræðu minni. Miklu meira máli skiptir þó í þessu máli stuðningur hans sem við eigum, hv. þm. í þessari d., eftir að sjá í verki á næstu dögum og vikum.