26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4205 í B-deild Alþingistíðinda. (3307)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 450 til menntmrh. um tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi.

Það er óþarft að fara hér orðum um mikilvægi sjónvarpsins og menningarlegt hlutverk þess í þjóðlífinu. En ekki er víst að allir geri sér jafnt grein fyrir að svo þýðingarmikið sem sjónvarpið er í þéttbýli er þjónustuhlutverk þess hvergi mikilvægara en í strjálbýlinu. Þar sem fásinni og einangrun er mest hefur sjónvarpið mestu hlutverki að gegna. Af þessu leiðir að sjónvarpið er eitt hið þýðingarmesta tæki til að stuðla að byggðajafnvægi.

Hins vegar hefur það hinar alvarlegustu afleiðingar ef sum byggðarlög eru afskipt sjónvarpinu. Svo er einmitt ástatt enn í dag í mesta strjálbýli landsins. Þannig hefur tilkoma sjónvarpsins ekki orðið þessum byggðarlögum lyftistöng, en þvert á móti aukið mikið á jafnvægisleysið milli þeirra og þéttbýlisins. Það er augljóst að við svo búið má ekki standa. Ég veit að á undanförnum árum hefur verið unnið að því að koma sjónvarpi á þá sveitabæi sem ekki hafa notið þess áður, en enn þá er þessu verki ekki lokið og í raun og veru þolir það ekki bið.

Það er svo, að frá því að sjónvarpið var sett á stofn hefur því verið ætlaður sérstakur tekjustofn, þ. e. a. s. tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum. Það varðar því miklu hverju þessar tolltekjur nema og hvernig sá tekjustofn sjónvarpsins nýtist. Hann hefur verið sjónvarpinu mjög mikils virði. Þó munaði fyrst í stað, þegar innflutningur sjónvarpstækja var sem mestur, mest um þennan tekjustofn, og um þær mundir sem ákveðið var að koma á litsjónvarpi í landinu voru ein rökin þau, sem fram voru færð fyrir þeirri ákvörðun, að við það mundi eflast þessi tekjustofn sjónvarpsins vegna þess að breytingin í litsjónvarp hefði óhjákvæmilega í för með sér mikinn innflutning á litsjónvarpstækjum.

Það er með tilliti til þessa sem ég hef gert fsp. mína til hæstv. menntmrh. um tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi. Fsp. mín er í fjórum liðum:

„1. Hve hárri upphæð námu tolltekjur af sjónvarpstækjum árið 1978 og hefur þeim verið skilað Ríkisútvarpinu svo sem ráð var fyrir gert?

2. Hvað eru margir sveitabæir, sem enn njóta ekki sjónvarpsskilyrða?

3. Hvað var mörgum sveitabæjum komið í sjónvarpssamband á árinu 1978?

4. Hvað er ráðgert að koma mörgum sveitabæjum í sjónvarpssamband árið 1979?“

Ég tel að mikilvægt sé fyrir hið háa Alþingi að fá svör við þessum spurningum með tilliti til mikilvægis málsins, eins og ég áður greindi.