26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4206 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fsp. þessar voru sendar Ríkisútvarpinu og svofellt svar barst 19. mars s. l.:

1. Tolltekjur af sjónvarpstækjum og loftnetum voru sem hér segir á árinu 1978: Innflutt 12 040 litsjónvarpstæki. Tolltekjur 1 142 943 075 kr. Innflutt 25 svarthvít sjónvarpstæki, 1 996 725 kr. Og innflutt sjónvarpsloftnet, 30 millj. 971 þús. 570 kr. Samtals 1 175 911 370 kr. Af þessari upphæð hefur Ríkisútvarpinu verið skilað 340 millj. kr. og eftirstöðvar því 836 millj. Eftirstöðvar frá árinu 1977 eru 68 millj. 442 þús. kr.

2. Nú þegar skýrsla þessi er gerð hafa um 320 bæir í sveit engin, slæm eða óviðunandi sjónvarpsskilyrði. Á árinu 1978 voru mjög víða gerðar endurbætur með nýjum stöðvum og bættum búnaði.

3. Samkv. upplýsingum radíódeildar Póst- og símamálastofnunar fengu 125 bæir sjónvarpsmerki vegna framkvæmda 1978.

4. Nái framkvæmdaáætlun þessa árs fram að ganga munu 70 sveitabæir komast í sjónvarpssamband á árinu. Að lokum skal þess getið, að ótryggt rafmagn er allvíða stór hluti rekstrarvanda dreifikerfis. Má þar nefna Reykhóla, Víkursvæðið austur til Háfells, Gagnheiði o. fl.

Þetta var svar Ríkisútvarpsins við fsp. hv. þm. og ég hef ekki í sjálfu sér ýkjamiklu við það að bæta. Þó tel ég að rétt sé að fara nokkrum orðum um það meginspursmál þessarar fsp., hvort ekki vanti mikið á að Ríkisútvarpinu hafi verið skilað því sem því ber.

Eins og kemur fram í bréfi Ríkisútvarpsins er það skoðun Ríkisútvarpsins að það eigi inni hjá ríkissjóði, enda í bréfinu talað um að þessari og þessari upphæð hafi verið skilað, en eftirstöðvar séu svo og svo miklar. Vissulega felur það í sér að Ríkisútvarpið lítur svo á að það eigi kröfu til hærri fjármuna en það hefur fengið. Ég er alveg sammála Ríkisútvarpinu um það. Ég tel að Ríkisútvarpið eigi kröfu til þess, að tolltekjum sjónvarpsins verði skilað. En ég vil vekja á því athygli, að þetta er ekki lögvernduð krafa. Krafa af þessu tagi var lögvernduð fyrr á árum og í reglugerð var kveðið á um að þessum tolltekjum ætti að skila til Ríkisútvarpsins, en þetta ákvæði mun hafa verið afnumið svo að lítið bar á í tíð fyrri stjórnar. Ég segi: „svo að lítið bar á“, vegna þess að ég harma að þegar þetta gerðist, en það mun hafa verið fyrir 2–3 árum, skyldi því ekki hafa verið mótmætt kröftuglega. Ég veit ekki til þess að neinn aðili hafi haft uppi mótmæli. Ég tel það afleitt, vegna þess að sjónvarpið og útvarpið þurfa bersýnilega á þessum tekjum að halda, og það var því spor aftur á bak að þetta skyldi gerast án þess að einhverjar umr. færu fram um það á Alþ. og stefna væri mörkuð af löggjafanum um hvað rétt væri að gera í þessum efnum, hvort ætti að standa áfram við þessa stefnu eða hvort ætti þarna eitthvað að slaka á.

Þetta var sem sagt afnumið með reglugerðarbreytingu án þess að uppi væru höfð mótmæli. Þegar svo litvæðing hefst og fólk fer að kaupa litsjónvarpstæki í stórum stíl, þannig að tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum vaxa mjög verulega, fer að verða munur á þeirri fjárhæð, sem Ríkisútvarpið fær frá fjmrh., og þeirri upphæð sem Ríkisútvarpið telur sig eiga kröfu til samkv. fyrri venju. Sá munur hefur farið verulega vaxandi og var á s. l. ári, eins og hér kom fram, hvorki meira né minna en 836 millj. kr. Er allt útlit fyrir að munurinn verði álíka mikill á þessu ári, miðað við að verðmæti innfluttra sjónvarpstækja verði ekki minna á þessu ári en var á hinu seinasta, því að í fjárl., sem afgreidd voru nú fyrir áramótin, er ekki gert ráð fyrir að útvarpið fái af þessum tolltekjum nema 340 millj. á árinu 1979.

Ég hef gert grein fyrir því, að ekki er um að ræða lögverndaða kröfu, en ég endurtek, að ég tel að Ríkisútvarpið eigi þessa kröfu og sé fyrst og fremst um að ræða eðlilega kröfu sem auðvelt sé að rökstyðja. Litsjónvarp er vissulega ágætt og þar var um að ræða merkilegt framfaraspor. En hitt er ljóst, enn njóta fjölmargir bæir og byggðarlög um land allt annaðhvort alls ekki sjónvarps eða algerlega ófullnægjandi sjónvarpsskilyrða. Það er réttlætismál, sanngirnismál, að úr því verði bætt á sem skemmstum tíma. Útilokað er fyrir Ríkisútvarpið—sjónvarp að framkvæma það, sem gera þarf í þessum efnum, nema krafa þess til tollteknanna verði viðurkennd og komist á í framkvæmd. Ég geri mér því vonir um að eftir að litvæðingin hefur að mestu gengið yfir og innflutningur sjónvarpstækja dottið aftur niður haldi sjónvarpið áfram að fá veruleg framlög úr ríkissjóði, vegna þess að ríkissjóður eigi eftir að skila Ríkisútvarpinu þeim mikla mismun sem fyrir hendi er frá árunum 1977, 1978 og 1979. Ég hefði vissulega talið æskilegra að meira hefði gengið til Ríkisútvarpsins af tolltekjum en ákveðið er í fjárl., en Alþ. er þar æðsti dómari og hefur þegar kveðið upp dóm sinn, og ég geri ekki ráð fyrir að honum verði breytt, fyrir árið 1979.