26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það eru einkenni vinstri stjórna þegar þær taka við völdum, að þá sverfur hungrið að stofnunum eins og Ríkisútvarpinu. Þá er byrjað að ýta á undan sér fjárhagsvandræðum stofnana. Það kom glöggt fram t. d. um áramótin 1974–1975 varðandi Ríkisútvarpið þegar það var í gífurlegum lausaskuldum. Síðan tók við ný ríkisstj. og þáv. hæstv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, sá sóma sinn í því að gera það vel við stofnunina að hægt væri að halda starfsemi hennar úti. Nú er ballið byrjað aftur. Það er byrjað að halda niðri nauðsynlegum hækkunum afnotagjalda.

Í dag ræðum við um tolltekjurnar sem voru forsendur litvæðingar, eins og hv. þm. vita — og ég vænti þess að hér komi upp í ræðustólinn hv. þm. Sverrir Hermannsson sem var í nefnd sem rannsakaði þessi mál á sínum tíma og gerði till. um málið.

Útvarpið sjálft hefur gert ráð fyrir að fá 800 millj. kr. til dreifikerfisins, og þá segi ég „dreifikerfi“ í víðtækri merkingu. Þar með er talið stúdíóið, sem telst til dreifikerfis þegar um litvæðinguna er að ræða. 1150 millj. koma í ríkiskassann, 340 er skilað í stað þeirra 800 sem óskað er eftir. Hæstv. ráðh. minnir á það, sem rétt er, að hér sé ekki lengur um markaðan tekjustofn að ræða. En það skiptir engu máli í þessu tilviki. Menn geta staðið við orð sín þó að þau séu ekki lögbundin, þótt eflaust sé það nýtt fyrir hæstv. ríkisstj. — Þannig virðist vera með núv. hæstv. ríkisstj. að hún þurfi að lögbinda sína eigin samninga innbyrðis, eins og gerst hefur í vetur um alla lagasmíð um eigin samninga.

En hægt er að bjarga þessu máli við. Hægt er að gera það á þessum þingfundi ef hæstv. fjmrh. kemur í pontu og lýsir því yfir að það, sem á vantar, verði tekið inn í lánsfjáráætlun á þessu ári. Hægt er að gera það líka þannig, að hæstv. menntmrh. og fjmrh. komi upp og segist muni bæta fyrir þennan skaða á næsta ári. Slík yfirlýsing yrði tekin alvarlega héðan úr þessum sal og mundi eflaust geta komið til móts við þær óskir sem uppi hafa verið hafðar í þessu máli. Þannig geta hæstv. ráðh. sýnt hug sinn í verki.

Ég vil að lokum, herra forseti, geta þess, að yfirráðh. ríkisstj., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, 1. þm. Austurl., uppgötvaði þetta mál 14. febr. Það var að vísu löngu búið að samþykkja fjárl., en getið er um það í spalta 2583 í Alþingistíðindum hver eru viðhorf hans. Þannig má eflaust lofa stuðningi hans að honum fjarstöddum, ef hann skyldi hafa áhrif á hugi einhverra manna.