26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4210 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál hefur komið til umr. aftur. Málið var búið að vera á döfinni fyrr í vetur, því ég lagði fram fsp. um tolltekjur af sjónvarpsinnflutningi og uppbyggingu sjónvarpsins fyrr á þessu þingi. Þar komu fram ítarlegar upplýsingar um þetta mál. Ég tek einnig undir það með síðasta ræðumanni, hv. þm. Sverri Hermannssyni, að ljóst var við afgreiðslu fjárl. að það var fyrrv. ríkisstj. sem hafði lagt þarna línur sem farið var eftir í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Ég tel ekkert vafaatriði að við þurfum að taka höndum saman um málefni útvarpsins og sjónvarpsins og taka þau mál til rækilegrar skoðunar, bæði hvað varðar dreifingu og ekki síður uppbyggingu stofnunarinnar. Það er ekkert vafaatriði, að eðlilegt er, eins og fyrrv. menntmrh. var búinn að láta gera till. um á vegum nefndar þeirrar sem lýst var áðan, að tolltekjur af innflutningi sjónvarpstækja fari beint í uppbyggingu stofnunarinnar bæði hvað varðar dreifingu og innri byggingar hennar.

En ég vildi nota það tækifæri, sem hér gefst, til að koma á framfæri og vekja athygli á því, að ástand þessara mála á utanverðu Snæfellsnesi er mjög slæmt vægast sagt. Ég veit og að hæstv. menntmrh. er það ljóst þar sem honum berast undirskriftir hundraða sjónvarpsnotenda á þessu svæði, sem mótmæla ástandinu og óska eftir því að þarna verði gerðar tafarlausar úrbætur. Endurvarpsstöðvar þarna eru mjög lélegar og viðhald þeirra er fyrir neðan allar hellur. Er svo mikill hiti í sjónvarpsnotendum á þessu svæði, að þeir hafa nú í undirbúningi samtök sín á milli um að neita að greiða afnotagjaldið á þessu vori. Þetta er alvarlegt mál og má ekki koma fyrir. Vonast ég til að á því verði tekið á myndarlegan hátt. — En ég vil endurtaka, að mér finnst að það sé skylda okkar að taka höndum saman um að standa þannig að uppbyggingu á þessu kerfi öllu að viðunandi verði.