26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4212 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að rangt sé að svelta Ríkisútvarpið. Menn tala um vinstri eða hægri stjórn. Ég get ekki annað en brosað! Forveri minn, Magnús Torfi, tók ekki við glæstum arfi frá „viðreisn“. Það var hluti af „hrollvekjunni“, held ég, sem þar var óleystur. Ég tók ekki heldur við góðum arfi frá vinstri stjórninni. Það hélt við lokun á útvarpinu þegar ég kom þar að. Og það gekk ekki alltaf skafið að hækka afnotagjöldin! En það tókst — og þökk sé meðráðh. mínum í þeirri stjórn og gjaldskrárnefndarmönnum, sem þá störfuðu, fyrir að það tókst!

En ég ætla aðeins að víkja að því sem rætt hefur verið um sjónvarpstollana. Það er ekki alveg rétt, að sú greiðsla hafi verið lögvernduð. Hún var ekki lögboðin. Það var heimild í tollskrálögum frá 1964 til að nota sjónvarpstollana til þess að útbreiða sjónvarpið. Það hefur komið fram hér, að þessu var svo breytt með lögum átið 1976 og hvorki þáv. menntmrh. né fjölmargir aðrir þm. tóku eftir því fyrr en það var búið og gert. Ég mótmælti þessu ekki opinberlega í blöðum eða hér á Alþ. En ég mótmælti þessu við fjmrn. og þáv. fjmrh. (MÁM: Það kom fyrir ekki.) Jú, það kom til nokkurs. Ég ræddi þetta ítrekað við fjmrh. Niðurstaða okkar varð sú sem kemur fram í bréfi menntmrh. frá 5. ágúst 1977, þ. e. svari til útvarpsstjóra. Þar segir:

„Með vísun til bréfs fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnunar, dags. 14. júní s. l., staðfestir rn. hér með að menntmrh. hefur rætt efni bréfsins við fjmrh., sem hefur lýst því yfir að Ríkisútvarpið muni áfram njóta allra tolltekna, sem til falla af innfluttum sjónvarpstækjum, með sama hætti og verið hefur“.

Ljósrit af þessu bréfi sendi ég fjmrh. að sjálfsögðu og fékk enga aths. við það. Samkv. þessu var starfað. Þegar ég fór úr rn. gerði ég frásögn af þessu máli, af því að það var nokkuð laust í reipum eins og hv. þm. heyra, til viðtakandi menntmrh., og til fjmrh. um leið, og hún er gerð 27. júlí 1978. En í allra síðustu frásögn minni af þessu máli, sem er frá 30. 8. 1978, segir svo:

„Ég hef borið frásögn mína frá 27. júlí 1978 um þetta efni undir fjmrh. og ráðuneytisstjóra Höskuld Jónsson. Hafa þeir ekki gert aths. við frásögnina í meginatriðum. Ég tel því fastmælum bundið:

1. Að Ríkisútvarpið fái til ráðstöfunar nefnda tolla, sem til falla 1977 og 1978 og framvegis, þar til annað verður ákveðið.

2. Að eftirstöðvar frá 1977 verði greiddar á þessu ári, sbr. þó fyrrnefnda frásögn.“ — Þar var rætt um að fresta hluta af þessum greiðslum fram yfir áramót.

„3. Að samkomulag verði gert um hversu greiðist það sem kann að verða umfram gerða greiðsluáætlun 1978“. Ég fæ e. t. v. tækifæri til þess á eftir að tala í 2 mínútur í viðbót.