26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4212 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem aðrir hv. þm. hafa sagt um nauðsyn þess að landsmenn sitji við sama borð varðandi möguleikana á því að nota sér útsendingar útvarps og sjónvarps, hvort heldur menn vilja, — svo ég leyfi mér að taka með nokkrum semingi undir fullyrðingu hv. þm. Ingvars Gíslasonar um afdráttarlaust menningargildi allrar starfsemi Ríkisútvarpsins, — kalla það að allir landsmenn eigi rétt á því að fá notið útsendinga útvarpsins eða hvort réttlátt sé að það bitni jafnt á öllum. Það kann að verða álitamál.

Undir ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar kom mér það í hug sem oftar er ég heyri til þess ágæta og fríska manns, að gott eiga þeir sem ungir eru, ekki bara vegna þess hvað þeir eru frískir, kátir og hraustir og léttir á fótinn, heldur líka vegna þess hvað það er takmarkað sem þeir vita, því að sumt af því, sem þeir eldri vita, er ekkert skemmtilegt.

Þegar ég kom til starfa til Ríkisútvarpsins 1. apríl 1946 lá þar fyrir teikning af útvarpshúsi og ítarleg áætlun um að koma upp sæmilegu dreifikerfi þannig að dagskrá útvarpsins gæti, ef við orðum það þannig, bitnað jafnt á öllum landsmönnum. Af þeim 33 árum, sem síðan eru liðin, hefur Sjálfstfl. setið 25 í stjórn. Enn á Ríkisjónvarpið ekki útvarpshús og enn er ástandið eins og þegar þáv. hv. þm. Austurl., Eysteinn Jónsson, Lúðvík Jósepsson og Einar Sigurðsson, gengu á fund útvarpsstjóra og kvörtuðu undan því, að ekki heyrðist til Ríkisútvarpsins á Austurlandi. Þá gaf hann fremur í skyn en hann segði nokkuð um framkomu fjárveitingavaldsins gagnvart Ríkisútvarpinu, og spurði síðan: Þið eruð þeirrar skoðunar að það sé í sjálfu sér stefna Ríkisútvarpsins að heyrast út um hvippinn og hvappinn! Enn er ástandið nákvæmlega eins á ýmsum stöðum á Austurlandi og það var þá.

Ég tek undir það sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði um brýna nauðsyn þess að þm. einstakra flokka reyndu ekki að koma sök af sínum í þessu máli, en minni á að alvarlegasta skrefið, sem stigið var í fjármálum Ríkisútvarpsins, var þó stigið í tíð viðreisnarstjórnarinnar þegar ákveðið var að taka útvarpsgjaldið inn í vísitölu. Ég þarf ekki að útskýra fyrir hv, þm. þá þýðingu sem þetta hafði fyrir möguleikana á því að hækka afnotagjöldin, en hún hefur verið mjög þungbær.