26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4213 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Menn hafa einkum rætt um skil ríkissjóðs á þeim fjármunum sem hann innheimtir í tolltekjunum. Hefur nokkuð horfið í skuggann annað atriði sem fsp. fjallaði líka um og greið svör hafa fengist við. Menn hafa í umr. gleymt þeim 320 sveitabæjum sem eftir eru — eða það er a. m. k. ekki eins ofarlega í huga manna.

Ég vil fyrir hönd fólksins á þeim 125 sveitabæjum, sem fengu sjónvarp á s. l. ári, færa hæstv. fyrrv. menntmrh. — og eftirmanni hans jafnframt — þakkir. Eitt þeirra heimila er mitt heimili. En ég vil jafnframt gera þá kröfu fyrir hönd hinna 250 sem eftir verða um næstu áramót, þ. e. a. s. þeirra sem tæknilega er unnt að koma með skaplegum hætti sjónvarpi til, að menn drífi sig nú og láti ekki deigan síga við að koma þangað sjónvarpinu.

Upphafleg framkvæmdaáætlun, sem sett var fram og byggði á litvæðingu, hefur riðlast stórkostlega. Sú framkvæmdaáætlun gerði ekki ráð fyrir svo miklu fé sem varið hefur verið til fjárfestingar innan sjónvarpsins, en aftur á móti meira til uppbyggingar dreifikerfisins. Hlutföllin riðluðust og þess vegna eru enn svo margir settir hjá. Það eru eðlileg mannréttindi, sem við eigum að hjálpast að við að koma til þegnanna, að njóta þessa fjölmiðils. Það er rétt að skila peningum til uppbyggingar sjónvarps úr ríkissjóði, en ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á að menn gleymi ekki í hita bardagans þeim heimilum sem enn eru utan þjónustusvæða sjónvarpsins.