26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Nú er ljóst að það hefur ekki staðist fullkomlega sem ég áðan greindi. Það er að minni hyggju í hæsta máta óviðfelldið og raunar er það óviðunandi, satt að segja.

Ég vil láta koma fram og minna á það, að í fsp.-tíma fyrr í vetur lét ég þá skoðun í ljós að Ríkisútvarpið ætti að halda tolltekjunum af sjónvarpstækjum sem tekjustofni, ekki kannske eingöngu til dreifingar sjónvarps, heldur til annarra þarfa, vegna þess að þarfir Ríkisútvarpsins fyrir framkvæmdir eru svo gífurlegar sem öllum hv. alþm. er vitanlega kunnugt um. Þar er eitt atriði sjónvarpsdreifingin, þá bæði örbylgjan og stöðvarnar sem eftir er að byggja og svo endurnýjun á eldri stöðvum, t. d. á svæðum eins og hér hafa verið nefnd nýlega í þessum ræðustól, þá er það meginstöð útvarpsins í Reykjavík, langbylgjustöðin, endurnýjun á henni, það er dreifing hljóðvarpsins, þ. á m. FM-bylgjan, og það er útvarpshúsið.

Ég álít að það hafi verið ákveðin allt of lág gjaldtaka fyrir Ríkisútvarpið núna, og ég held að menn verði að manna sig upp í að fylgja eitthvað nálægt því í kjölfar dagblaðanna. Það er ekki of mikið að gera það. Og ég vil minna á að við ákvarðanatökuna um gjöldin haustið 1978 var stefnt að því, að unnt yrði að leggja til hliðar í framkvæmdasjóðinn 5+5%. Reikningar sýna að það tókst fullkomlega. Með því móti, ef við höldum því, sem ég vona að verði gert þótt kannske falli niður hálft ár eða svo, á fjármálum húsbyggingarinnar að vera borgið á 10–15 ára tímabili með hlutfallslega svipaðri gjaldtöku. Það er sannarlega nóg samt af öðrum verkefnum, eins og ég drap á, sem afla þarf fjár til með öðrum hætti.