26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Jón Ásbergsson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu einhvers hv. þm., að um 320 sveitabæir nytu enn þá ekki sjónvarps. Eftir að hv. þm. Páll Pétursson hafði lokið ræðu sinni hafði þeim fækkað í 250. Ég veit eiginlega ekki alveg hver hin raunverulega tala er, en líklega er það rétt hjá Páli Péturssyni, að 250 sveitabæir, sem tæknilega mögulegt er að útvega sjónvarpsefni, njóti þess ekki í dag

Ég legg til, þar sem ég hef einungis 2 mínútur og er ungur maður eins og Friðrik Sophusson, að við göngum í það strax að gera þessum 250 eða fleiri sveitabæjum mögulegt að njóta sjónvarpsefnis með því að senda þangað sjónvarpssegulbönd. Það mundi kosta ríkið innan við 100 millj. — margfalt lægri upphæð en mundi kosta að koma dreifikerfinu þangað. Við skulum senda þessu fólki sjónvarpssegulbönd, biðja svo næsta bónda, sem nýtur sjónvarps, að taka upp efnið á kvöldin og koma því annaðhvort með pósti eða á annan hátt sem skjótast til þeirra bæja sem eru sjónvarpslausir. Það er ódýrt, tekur engan tíma.