26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3320)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þegar flestir, ef ekki allir ræðumenn lýsa yfir, að þeir telji að fjárhagur Ríkisútvarpsins þurfi að vera góður á hverjum tíma, og hneykslast á því, að skerðing á tolltekjum til Ríkisútvarpsins hafi átt sér stað, er auðvitað spurningin sú, hvernig þetta má vera. Að svo miklu leyti sem skuldinni má skella á fráfarandi ríkisstj. held ég að það sé rétt að taka það fram, að þegar gerðar voru áætlanir eftir að lögbindingin var afnumin um bein framlög á fjárl. til Ríkisútvarpsins var nokkurn veginn miðað við þær áætlanir sem lágu fyrir varðandi væntanlegan innflutning á sjónvarpstækjum. Það verður að segja eins og er, að sú áætlun fór langt fram úr björtustu vonum. En við síðustu fjárlagaafgreiðslu gerðist það, að núv. hæstv. ríkisstj. tók ákvörðun um að sama krónutala skyldi vera í fjárl. fyrir árið 1979 og var fyrir árið 1978. Ríkisstj. veit að innflutningur hefur stórkostlega vaxið á síðasta ári og hann mun vaxa á þessu ári, en þrátt fyrir þetta gerir hún ráð fyrir því í fjárl. að sama krónutala gildi áfram.

Enn gagnrýni ég ríkisstj. fyrir það, að hún neitar Ríkisútvarpinu um eðlilegar hækkanir á afnotagjöldum þrátt fyrir augljósan fjárskort. Þetta tel ég vera pólitískt gagnrýnivert og árásarefni á ríkisstj. Ég álasa og gagnrýni ríkisstj. fyrir að fara svona að þrátt fyrir vitneskju um fjárhagsvanda útvarps, og ég tel það bera vott um áhuga- og skilningsleysi ríkisstj. á málum Ríkisútvarpsins, sem er stærsta og merkilegasta menningarstofnun landsins. Ef hér eru einhverjir stjórnarandstæðingar sem ekki hafa fylgst með þessu, hvað þá ef þeir telja þetta ekki vera pólitískt gagnrýnisefni, eiga sömu stjórnarandstæðingar, og ég tala nú ekki um stjórnarsinna, að snúa sér að öðrum verkefnum.