26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið.

Mér komu ekki á óvart þessar upplýsingar, sérstaklega að Ríkisútvarpinu hefði ekki verið skilað öllu því fé sem hafði verið gert ráð fyrir að það fengi, þ. e. a. s. tolltekjum af innfluttum sjónvarpstækjum. Hins vegar vil ég að það komi fram, eins og ég held að hafi komið fram hjá flestum ræðumönnum og a. m. k. hjá hæstv. menntmrh. og fyrrv. menntmrh., að það er eins með mig og þá, að ég gerði mér ekki grein fyrir né vissi þegar breytt var þeirri reglu sem upphaflega var gert ráð fyrir, þ. e. a. s. að sjónvarpið fengi tolltekjurnar óskertar.

Hæstv. menntmrh. sagði að þetta hefði komið smám saman. Ég held að það sé ekki rétt að orða það svo. Það er um 3 ár að ræða. Árið 1976 fóru allar tekjurnar óskertar til sjónvarpsins, og árið 1977 voru tekjurnar rúmar 600 millj., 609 millj., en það vantaði þá 68 millj. upp á að allar tekjurnar rynnu til sjónvarpsins. Þó að ekki sé eðlismunur er mikill stigsmunur á milli þess að það vantar 68 millj. árið 1977 og vantar 835 millj. núna.

Áður en ég vík að öðru en svari hæstv. menntmrh. vil ég lýsa yfir sérstakri ánægju minni með að hann telur að sjónvarpið eigi að fá tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum óskertar. Það er ágætt að heyra það og ég lýsi ánægju minni. En ég spyr hæstv. ráðh.: Getur hann ekki lýst því yfir, að hann og ríkisstj. muni beita sér fyrir því, að þetta verði og tollamálið verði leiðrétt? Það er ágætt að tala fallega um þetta mál, en það, sem máli skiptir, eru framkvæmdir, verkin sjálf.

Hér hafa menn dálítið verið að metast á milli flokka um einstök atriði. Ég gaf ekkert tilefni til þess í frumræðu minni. Ég vil líka taka það fram sem allir ræðumenn hafa tekið fram, að nauðsynlegt er að við styðjum allir að þessu máli, hvar í flokki sem við stöndum.

Mér kom dálítið á óvart þegar fyrrv. menntmrh., hv. 2. þm. Austurl., fór að leggja lykkju á leið sína og hnýta í viðreisnarstjórnina í þessu sambandi. Ég hélt að ekki hefði verið ástæða til þess. Við skulum hafa í huga að það var viðreisnarstjórnin sem tók ákvörðun um að setja á stofn sjónvarpið og gerði það með þeim myndarbrag, og líka í sambandi við dreifinguna, að langt fór fram úr þeim vonum sem menn gerðu sér þegar fyrstu áætlanir voru gerðar. En ég ætla ekki að fara að gera neitt upp á milli flokka og ég segi þetta aðeins að gefnu tilefni.

Fsp. mín varðar tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi. Það hefur oft verið talað hér áður um sjónvarp á sveitabæi.. Árin 1972, 1973 og 1974 flutti ég ásamt fleiri sjálfstæðismönnum till. um að ljúka þessu verki á skömmum tíma. Það töluðu allir í raun og veru með þessum till. Allir voru sammála um mikilvægi þeirra. En menn fóru að tala um að það þyrfti að gera ýmislegt fleira, eins og líka hefur komið fram í þessum umr. Það er alveg rétt. En þó að allir væru svona jákvæðir með þessum till. fengust þær aldrei afgreiddar í Alþ., ekki fyrr en 1975. Þá er með formlegum hætti afgreidd till. frá mér og fleiri sjálfstæðismönnum um að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að hlutast til um að Ríkisútvarpið komi upp endurvarpsstöðvum fyrir þá sveitabæi sem njóta óhæfra eða engra sjónvarpsskilyrða. Í þessu skyni skal leita til Byggðasjóðs um óafturkræft framlag. Þessari till. var vísað til ríkisstj.

En um það leyti sem þessari till. er vísað til ríkisstj. er uppi ákvörðunartaka um sjónvarpsvæðinguna. Þess vegna kom till. ekki til framkvæmda, að það var ein af forsendunum fyrir sjónvarpsvæðingunni hjá ýmsum að sjónvarpið fengi það miklar tekjur að hægt væri að leysa verkefnið. Og það er þetta verkefni sem þrátt fyrir allt er vangert og kallar á samvisku okkar allra alþm., að láta því ástandi lokið að þeir þjóðfélagsborgarar, sem ekki hafa sjónvarp, þurfi að búa við annan kost en landsmenn almennt. Þess vegna legg ég áherslu á það, um leið og tryggt verði að allur tekjustofninn af tolltekjum af innfluttum sjónvarpstækjum gangi til sjónvarpsins, að þetta verkefni verði loksins látið ganga fyrir, eins og oft hefur komið fram að væri vilji allra þm. sem um þessi mál hafa talað í fjöldamörg ár. Þá á ég ekki við að þessum borgurum séu send segulbandstæki. Ég á við að þessir sveitabæir verði sjónvarpsvæddir eins og aðrir sveitabæir í landinu og fólkið þar búi við sama kost og aðrir landsmenn í þessu þýðingarmikla máli.