26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

350. mál, Skógrækt ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 487 að bera upp við hæstv. landbrh. svo hljóðandi fsp. um Skógrækt ríkisins:

„Hvaða áætlanir eru uppi um flutning höfuðstöðva Skógræktar ríkisins austur að Hallormsstað í ljósi ákvæða í stjórnarsamningi um stofnanaflutning og athuganir rn. á s. l. ári um möguleika á flutningi þessarar stofnunar?“

Í öllum umr., sem orðið hafa um flutning stofnana frá Reykjavíkursvæðinu og út á landsbyggðina, þar sem mönnum hefur sýnst sitt hverjum um réttmæti og möguleika flutnings, hefur þó nær einróma verið talið að höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins væru best komnar á þeim stað þar sem bestur árangur hefur náðst og mest gróska er í skógræktarstarfi öllu, þ. e. a. s. austur á Hallormsstað. Um þetta efni, beinan flutning þessara höfuðstöðva, flutti Kristján heitinn Ingólfsson till. sérstaklega á sínum tíma hér á Alþ. og var efni hennar vel tekið. Í till. stofnananefndar, sem áliti skilaði 1975, var Skógrækt ríkisins í fremstu röð stofnana sem nefndin áleit sjálfsagt að flytja brott af höfuðborgarsvæðinu. Þegar skógarvörðurinn á Hallormsstað, Sigurður Blöndal, varð skógræktarstjóri ríkisins kom málið upp í nýju ljósi, m. a. vegna jákvæðrar afstöðu hans persónulega til flutningsins.

Mjög almennur þrýstingur hefur verið eystra á að þessi skipan næði fram að ganga, sem eðlilegt er. Á síðasta þingi flutti ég fsp. til hæstv. þáv. landbrh. um hvað fyrirhugað væri í þessum efnum og fékk rétt fyrir þinglok skriflegt svar, þar sem fram kom að engin ákvörðun hefði verið tekin í málinu. Þar kom einnig fram, að nefnd hefði athugað mál þetta og skilað áliti til rn. um hina ýmsu þætti sem hugsanlegan flutning snertu. Það álit var þá sagt til athugunar í ríkisstj.

Í ljósi þessa, og ekki síður þess ákvæðis í stjórnarsáttmála sem segir um byggðastefnuna, að haldið verði áfram að flytja þjónustuþætti hins opinbera út á land og efla þar ýmsa aðra starfsemi í tengslum við það, er þessi fsp. flutt, og ekki síður sakir þess, hve mikið og almennt er um þetta mál spurt, þar sem fólki úti á landi, ekki bara á Austurlandi, heldur fólki úti á landsbyggðinni almennt, þykir hér vera um prófstein að ræða á það, hver vilji stjórnvalda á stofnanaflutningi almennt út á landsbyggðina kunni að vera bæði núna og í framtíðinni.