26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (3328)

350. mál, Skógrækt ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Síðustu orð hæstv. ráðh. voru fyrst og fremst þakkarverð í þessu efni, því að þar kom í ljós að hann hefði, þrátt fyrir það álit sem hann las upp og ýmislegt sem hann tók til úr því, sannarlega áhuga á því að flytja þessa stofnun á þann stað sem ég tel eðlilegast að hún sé á.

Það kemur mér ekkert á óvart að það sé tregða í embættismannakerfinu og hjá ýmsum þeim, sem að þessum málum starfa, á að flytja höfuðstöðvar Skógræktarinnar frá Reykjavík. Við þessa tregðu urðum við sannarlega varir í stofnananefndinni. Hún var alls staðar. Menn vildu hreinlega ekki fara frá hinum ímynduðu kjötkötlum og út í kuldann. Það var ósköp einfalt mál.

Við gerðum okkur líka fullkomlega ljóst að það yrði viss kostnaðarauki í upphafi af þessari framkvæmd. Við gerðum okkur sömuleiðis ljóst að ekki væri hægt að ganga fram hjá né mætti hundsa álit starfsfólksins t. d. eða þeirra sem með þessi mál færu. Auðvitað yrði að athuga vel þann kostnaðarauka, sem af þessu væri, og meta hann og vega. En hins vegar álít ég að þessi atriði eigi ekki að verða til þess að hindra allar framkvæmdir í þessu efni. Ég bendi á að óeðlilegt er að láta þá liði móta stefnuna í þessum efnum, eins og ég er hræddur um að verði. Samskonar atriði komu upp á Norðurtöndunum á sínum tíma, þegar stjórnvöld þar fóru út í mikinn stofnanaflutning bæði í Noregi og Svíþjóð. Kostnaðaraukinn varð ekkert smáræði þar. Samt töldu Norðmenn og Svíar þjóðhagslega og byggðalega hagkvæmt að flytja mjög veigamiklar stofnanir til annarra borga, en frá höfuðborginni í báðum löndum. Sú hagkvæmni er auðvitað ekki síður hér, því að samþjöppun stofnana hins opinbera og viss valds í skjóli embættismannakerfis er ekki minni hér á landi en þar.

Ég heyrði á þessu áliti, sem fyrst og fremst meiri hl. átti hlut að, embættismennirnir, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að ýmsa skemmtilega annmarka bentu þeir á; má nefna trega þeirra yfir því að samskiptin yrðu erfið frá Hallormsstað við Skógræktarfélag Íslands og það yrði erfitt að fara með gesti austur í Hallormsstað, og austur í skóg o. s. frv. Sparðatíningur af þessu tagi er kannske broslegur, en hann er fyrst og fremst dæmi um hvað menn leggjast lágt í raun og veru til þess að reyna að koma í veg fyrir að stofnun verði flutt. Og sama er að segja um skógarverðina sem allir vilja miklu frekar koma til Reykjavíkur og dvelja á hótelum og hafa það gott í nokkra daga en vera að þvælast austur í Hallormsstað. Ég skil þá líka mætavel frá því sjónarmiði séð. Nál. kemur mér þess vegna ekkert á óvart, enda hafði ég séð þennan furðulega rökstuðning. Ég vil þó, eins og Hæstv. ráðh., taka fullt tillit til. meginmálsins í álitinu og einnig þess, að hér verði ekki rasað um ráð fram. Við erum ekki heldur að tala um að flytja höfuðstöðvar Skógræktarinnar í snarheitum, en að því verði unnið engu að síður með skipulegri áætlun.

Ferðakostnaður, sem þarna var upp talinn og ég hef líka séð tölur um, er ótrúlegur. Fyrr mega nú vera ferðalögin sem þarna er gert ráð fyrir. Menn yrðu þá alltaf á ferðinni. Maður gæti helst haldið að þessir menn væru ekki að vinna að skógrækt, heldur að ferðamálum, samkv. því sem kemur fram í þessari skýrslu. Ég dreg því annmarkana, sem þarna eru nefndir, stórlega í efa.

Ég geri mér ljósa grein fyrir því, hvað kostnaðurinn er mikill við að flytja stofnanir. Hann verður það í sambandi við hverja eina stofnun sem við flytjum þannig.

Það er alveg rétt, að við eigum að stefna að deilda- og útibúakerfinu. En það gengur líka grátlega hægt. Það kostar líka sitt. Af því að ég sé hv. þm. Alexander Stefánsson sitja beint á móti mér, dettur mér í hug raunasagan sem hann rakti fyrir okkur í fjvn. um útibúastofnunina í heimahéraði hans, sem löngu var ákveðin og kostar ekki nema brot af þessu, en ekki er komin í framkvæmd enn þá. Þannig þarf að hyggja að mörgu fleira.

Hér þarf sem sagt að snúa við. Það þarf að brjóta í blað. Ég tel, að hvergi sé um sjálfsagðari byrjun að ræða en einmitt þarna, og vil skora á hæstv. ráðh. að láta síðustu orð sín áðan verða stefnumarkandi í þessum efnum, þ. e. a. s. þann vilja sinn að flytja umrædda stofnun austur á Hallormsstað sem allra fyrst.