06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við það frv. sem hér er til umr. Ég tel að þetta frv. sé ákaflega vel unnið og víki að máli sem er mjög þarft, komi með hugmyndir um lausn, sem er mjög athyglisverð.

Í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um markaða tekjustofna og aðrar leiðir til tekjuöflunar fyrir félagslega þjónustu, vil ég taka það fram, að vikið er að þessu máli hér, mörkuðum tekjustofnum, fyrst og fremst vegna þess, sem er auðvitað meginatriði í málinu, að ríkissjóður og Alþ. hafa ekki treyst sér til þess að standa við fjárhagsskuldbindingar sem Alþ. hefur tekið á sig með samþykkt sérstakra laga. Það er ætlast til þess, þegar ríkisstjórnir leggja fram stjfrv. um viðamikil mál, að Alþ. sé gerð grein fyrir því hvað samþykkt á slíku frv. kosti. Þetta hefur hins vegar yfirleitt ekki verið gert. Og stóra lagabálka, eins og t.d. grunnskólafrv. á sínum tíma, sem hv. Alþ. samþykkti, samþykkir Alþ. án þess að hafa hugmynd um hvaða fjárhagslegar skuldbindingar það er að taka á sig með því. Þess vegna skapast þau vandamál, að Alþ. samþykkir e.t.v. góð lög sem það síðan getur ekki framkvæmt vegna þess að þingið hefur reist þjóðinni hurðarás um öxl í fjárhagslegu tilliti. Þetta er ein af ástæðum þess, að þegar menn hafa séð að slíkir lagabálkar ná ekki framkvæmdum sökum skorts á fjármunum, þá hafa menn valið þá leið, sem hér er að vikið, að afla þá fjár til þessara sérstöku þarfa með sérstökum hætti. Þetta er skýringin á því, hvers vegna menn hafa valið þá leið að gera till. um markaða tekjustofna, einkum og sér í lagi til þess að fullnægja félagslegum þörfum.

Ég vil leggja áherslu á það, að ef menn vilja draga úr notkun slíkra markaðra tekjustofna, þá verður það auðvitað ekki gert nema með því að þm. geri sér grein fyrir hvaða fjárhagslegar skuldbindingar þeir eru að leggja á sig eða öllu heldur á þjóðina með því að samþykkja stóra lagabálka.

Ég vil að lokum vekja athygli þingheims á því, að grunnskólafrv., sem samþ. var hér á Alþ. fyrir alllöngu, á enn langt í land. Ég get ekki séð að ýmis mikilvægustu atriði grunnskólalaganna verði framkvæmd á næstu árum, ekki vegna þess að stjórnvöld eða Alþ. skorti viljann, heldur vegna hins, að menn hafa fyrst samþ. lögin og síðan reynt að gera sér grein fyrir því á eftir, hvað framkvæmdin kostar. Það er auðvitað aðferð, sem ekki verður lengi við unað, en það er sú aðferð, sem hefur í of miklum mæli verið viðhöfð á Alþingi íslendinga, að menn hafa ekki viljað af einhverjum ástæðum gera sér grein fyrir því, hvað það kostar, sem þingið er að samþykkja, hvaða byrðar þingið er að leggja á þjóðina með stórum og vissulega jákvæðum lagabálkum sem þingið samþykkir. Eina leiðin út úr því fyrir þm., sem ekki vilja una aðgerðarleysi, sem ekki vilja una því að lög, sem samþ. hafa verið af þessari hv. stofnun, koma ekki til framkvæmda, — eina leiðin fyrir þessa þm. er þá að sjálfsögðu að benda á tekjuöflunarmöguleika. Það hefur hv. 12. þm. Reykv. gert í sambandi við það frv., sem hún hér flytur.