26.04.1979
Sameinað þing: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4224 í B-deild Alþingistíðinda. (3332)

261. mál, ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta í fræðsluumdæmum utan Reykjavíkur

Flm. (Þorbjörg Arnórsdóttir):

Herra forseti. Þegar lög um grunnskóla, nr. 63/1974, voru samþ. af Alþ. var stigið stórt framfaraspor í þá át. að grunnskólar landsins nytu ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Nú, að 5 árum liðnum, hafa ákvæði laganna um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu ekki komið til framkvæmda úti í hinum einstöku fræðsluumdæmum landsins, en víða blasir við brýn þörf á að slík þjónusta sé fyrir hendi ef skólarnir eigi að geta staðið við það uppeldishlutverk og geta náð þeim grundvallarmarkmiðum sem þeim er ætlað lögunum samkv. Ég taldi því ástæðu til að vekja athygli á þessu máli með svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að innan tveggja ára komi til framkvæmda ákvæði grunnskólalaga um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í öllum fræðsluumdæmum landsins.

Á meðan slík þjónusta er ekki komin á verði hún tryggð með heimsóknum viðkomandi sérfræðinga a. m. k. tvisvar á ári út í öll skólahéruð landsins og verði kostnaður við slíka bráðabirgðaskipan að fullu greiddur úr ríkissjóði“.

Það er orðið óumdeilanlegt meðal skólamanna og annarra þeirra, er að fræðslu- og uppeldismálum starfa, að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta sé ómissandi hlekkur í nútíma skólastarfi. Kveðið er skýrt á um hlutverk slíkrar þjónustu í 67. gr. grunnskólalaganna og er það svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu er: a) að nýta sálfræðilega og uppeldisfræðilega þekkingu í skólastarfi; b) að vera ráðgefandi um umbætur í skólastarfi, sem verða mættu til að fyrirbyggja geðræn vandkvæði; c) að annast rannsókn á afbrigðilegum nemendum og þeim, sem ekki nýtast hæfileikar í námi og starfi; d) að leiðbeina skólastjórum, kennurum og foreldrum um kennslu, uppeldi og meðferð nemenda, sem rannsakaðir eru (sbr. c-lið); e) að taka til meðferðar nemendur, sem sýna merki geðrænna erfiðleika, og leiðbeina foreldrum og kennurum um meðferð þeirra; f) að annast hæfniprófanir og ráðgjöf í sambandi við náms- og starfsval unglinga; g) að annast ýmis rannsóknarstörf og athuganir í sambandi við ráðgjafarþjónustuna“.

Í grunnskólalögunum er gert ráð fyrir að ráðgjafar- og sálfræðiþjónustan verði veitt úti í hinum einstöku fræðsluumdæmum, en ekki bundin við miðstöð í Reykjavík, og til þeirrar starfsemi skuli að fengnum till. fræðslustjóra ráða sálfræðinga, félagsráðgjafa og sérkennara.

Það má ljóst vera að það hlutverk, sem ráðgjafar- og sálfræðiþjónustunni er ætlað í grunnskólalögunum, hlýtur að vera mjög þýðingarmikið fyrir innri starfsemi grunnskólanna, og er það ekki síst hið ráðgefandi og leiðbeinandi hlutverk, auk þess sem kveðið er á um meðferð nemenda sem einhverra hluta vegna nýtast ekki hæfileikar í námi og starfi. Slík þjónusta ætti í raun að vera óaðskiljanlegur hluti eðlilegs og virks skólastarfs og er nauðsynleg, einkum ef skólanum á að takast að koma til móts við eðli og sérþarfir einstaklinganna, koma til móts við þá nemendur sem af einhverjum mismunandi ástæðum eiga við aðlögunarvandamál að stríða eða eiga við einhverjar þær hömlur að etja sem gera að verkum að tvísýnt er um að eðlilegur árangur náist með náminu. Skólanum ber skylda til lögum samkv. að koma til móts við slíkar sérþarfir nemenda með öllum tiltækum ráðum. En því miður er þar víða brotalöm á og í hinum dreifðari byggðum og fámennari skólum fara kennarar og nemendur alveg á mis við alla ráðgefandi þjónustu. Stafar það aðallega af algeru aðstöðuleysi skóla úti á landsbyggðaneti og oft og tíðum er það aðeins í einstaka alvarlegum tilfellum sem slíkrar þjónustu er leitað og þá með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn. Árum saman hafa foreldrar og skólamenn úti á landi reynt að þrýsta á að þessi þjónusta sé veitt í öllum skólum landsins, og hafa ýmsar samþykktir og bænarskrár verið gerðar er að þessu hníga. Það hlýtur að vera skýlaus réttur þessara aðila, að þeir geti notið sálfræðiþjónustu til jafns við fólk á stærstu þéttbýlissvæðunum. Það hlýtur að vera skýlaus réttur þessa fólks, að þau börn, sem alast upp úti á landsbyggðinni, geti notið allrar þeirrar fyrirgreiðslu og aðstoðar sem þeim ber lögum samkv. Það er skýlaus lagalegur réttur þessa fólks, að börn þess njóti allrar þeirrar hjálpar sem tiltæk er til að stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Þetta má gjarnan hafa í huga þegar þessi mál eru skoðuð.

Svo sem ég hef áður getið er þörfin fyrir ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu mjög brýn úti á landsbyggðinni og aðkallandi að einhverjar úrbætur verði gerðar í þessu máli. Þess vegna legg ég til, að meðan ákvæði laganna koma ekki að fullu til framkvæmda verði bætt úr þörf skólanna með heimsóknum sérfræðinga og ráðgefandi aðila a. m. k. tvisvar á ári út í öll skólahéruð landsins. Slík bráðabirgðalausn væri vissulega spor í rétta átt og leysti að einhverju leyti þann vanda sem við er að etja, a. m. k. hvað varðar leiðbeiningar og ráðgjöf fyrir kennara og foreldra.

Í grunnskólalögunum er kveðið á um að kostnaður við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu greiðist að jöfnu af ríkissjóði og sveitarfélögum. Ég tel slíka ráðstöfun eðlilega. Telja verður eðlilegt að ríkið taki þátt í þessari þjónustu, þar sem lítið er á hana sem óaðskiljanlegan hluta virks grunnskólastarfs. Hins vegar taki sveitarfélögin einnig þátt í rekstrarkostnaðinum þar sem hér er um að ræða þjónustu sem mjög er tengd skyldum sveitarfélaga varðandi félagslegan stuðning við íbúa sína. Hins vegar er vert að benda á, að eigi sveitarfélögin að geta staðið undir sínum hluta stofn- og rekstrarkostnaðarins verður að tryggja þeim tekjustofna. Komist sú bráðabirgðaskipan á, sem getið er um í till., tel ég hins vegar eðlilegt að kostnaður við slíka skipan verði að fullu greiddur úr ríkissjóði, í fyrsta lagi af því að slík bráðabirgðaráðstöfun væri fyrst og fremst til þess að mæta þeim vanda sem yfirvöld skólamála ættu að vera búin að leysa lögum samkv., í öðru lagi er þarna um aðstöðujöfnun að ræða, og eðlilegt er að ríkið taki þátt í henni með dreifingu þjónustu um landið og minnki á þann hátt þann aðstöðumun sem skólar landsins búa við nú.

Það má vel vera að einhverjum finnist hér vera hreyft þýðingarlitlu máli. Borið hefur á ótrú manna á sálfræðilegri þjónustu. En ljóst er að eftirspurn eftir hvers konar ráðgefandi þjónustu hefur farið vaxandi undanfarin ár, og hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þar sem slík þjónustustarfsemi er fastur liður í skólastarfinu, telja kennarar og aðrir skólamenn hana ómissandi hlekk í skólastarfseminni.

Það vilja e. t. v. einhverjir halda því fram, að nú á síðustu og verstu tímum væri nær að koma fram með einhverjar aðhaldsaðgerðir í stað þess að krefjast stöðugt aukinna útgjalda úr ríkissjóði. Víst er það, að þetta mál er e. t. v. ekki mikilvægt fundið hjá einhverjum ef borið er saman við þau stóru efnahagsmál sem hér hafa verið afgreidd að undanförnu. En þó svo að þjóðinni steðji nú mikill efnahagsvandi og þó svo að eyða þurfi miklum tíma í að finna leiðir og rata út úr þeim ógöngum og efnahagskröggum sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir, megum við ekki loka augunum fyrir því, að íslenskt þjóðlíf á sér ekki eingöngu efnahagslegar hliðar, það á sér einnig mannlegar hliðar og þeim þarf ekki síður að sinna þegar stefnt er að bættum þjóðarhag. Ég vil draga stórlega í efa að nokkur sé í vafa um að þeim fjármunum, sem varið er til að koma til móts við þá nemendur á grunnskólastigi sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti, þeim fjármunum, sem varið er til aðstoðar og ráðgjafar börnum og unglingum í skólum þessa lands, þeim fjármunum, sem varið er til að stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun ungu kynslóðarinnar í landinu, sé sóað í óþarfa. Slíkt fjárframlag hlýtur alltaf að koma þjóðfélaginu til góða og skila íslensku samfélagi nýtari og gegnari þjóðfélagsþegnum.

Herra forseti. Það er því stór samviskuspurning fyrir skólamenn og foreldra úti á landsbyggðinni, hvort réttlætanlegt sé að skólar dreifbýlisins fari á mis við alla ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Það er stór samviskuspurning, hvort réttlætanlegt sé að þau börn, er þurfa á slíkri þjónustu að halda, eigi þess nær engan kost enn um hríð að tekið sé á vandanum. Ég flyt þessa till. sem svar við þessum spurningum og vona að sá tillöguflutningur beri tilætlaðan árangur.