27.04.1979
Efri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4243 í B-deild Alþingistíðinda. (3341)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hafa sérstaka ástæðu til að kveðja sér hljóðs og fagna fram komnu lagafrv. Það vil ég gera nú og taka að því leyti til undir með þeim hv. þm. sem hafa talað á undan mér. Ég fæ ekki betur séð en hér sé frv: um viðkvæmt efni og brýnt lagt fram með þeim hætti að það sé fjallað um það, sem þarf og máli skiptir, í skorinorðu og skýru máli.

Í frv. eru nokkur nýmæli sem ég vil sérstaklega fagna og ég held að hljóti að geta orðið til mikillar gæfu ef vel tekst til. Sérstaklega sé ég ástæðu til að fagna nýmælinu í 15. gr. frv., sem fjallar um aðstoð við foreldra eða aðstandendur þroskaheftra sem vilja annast þá sjálfir í heimahúsum.

Ég flutti þáltill. þessa efnis fyrir nokkrum árum. Tilgangur hennar var raunar ekki einungis að stuðla að því að aðstandendur þroskaheftra, sem þá önnuðust sjálfir, fengju fjárhagsaðstoð. En vitanlega hlaut fjárhagsaðstoð að vera meðal þess sem þurfti. Sú aðstoð getur gert viðkomandi aðstandendum kleift að fá hjálp við þau störf sem unnin eru á heimilum til þess að annast þroskahefta og einnig að leita sérfræðilegra leiðbeininga. Vissulega hefur göngudeild Kópavogshælis visst skipuleggjandi hlutverk og starfshlutverk í þessu sambandi, eins og kveðið er á um í reglugerð nr. 142 frá 1977. Foreldri þarf að komast frá til að leita aðstoðar og leiðbeininga. Í mörgum tilfellum er um að ræða að sá, sem annast vangefinn einstakling, er algerlega við það starf bundinn og kemst ekki frá nema fá annan til að leysa sig af hólmi.

Mér finnst ástæða til í þessu sambandi að draga fram hvaða mikilvægu hlutverk eru ætluð göngudeild Kópavogshælis eða að hún eftir atvikum feli öðrum stofnunum þjóðfélagsins, þegar um er að ræða þroskahefta einstaklinga sem dveljast í heimahúsum. Sú aðstoð Kópavogshælis hlýtur að geta komið að ómetanlegu gagni, og þegar til kemur einnig fjárhagsaðstoð, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., hlýtur þetta að geta greitt götu til þess að bæði þroskaheftir og aðstandendur þeirra geti með auðveldari hætti brugðist við vandamálum lífsins.

Í reglugerðinni frá 1977 er gert ráð fyrir að aðalþættir félagslegrar aðstoðar og heilsugæslu við andlega vanþroska fólk utan stofnana séu fólgnir í eftirfarandi: 1. Rannsókn, hæfileikakönnun og tiltækri greiningu á stigi og eðli vanþroska ásamt skráningu. 2. Sérfræðilegri læknisþjónustu. 3. Tannlækningum. 4. Geðvernd. 5. Sjúkraþjálfun. 6. Heimahjúkrun og leiðbeiningum til foreldra og annarra, er annast vangefna, um uppeldi, þjálfun og hjúkrun þeirra í heimahúsum. 7. Leikkennslu, leiðsögn í tómstundaiðju og iðjulækningum. 8. Vinnumiðlun. 9. Heimilishjálp sem tengd væri heimilishjálp sveitarfélaga. 10. Tímabundinni vistun í stofnunum í forföllum forsjármanns.

Í þessum 10 atriðum eru upp taldir þeir hlutir sem flestir hafa haft í huga þegar talað er um sérstaka aðstoð sem veita þurfi þroskaheftum og forsjármönnum vangefinna í heimahúsum. En með þeirri hugmynd, sem sett er fram í 15. gr. þessa frv., tel ég að þau atriði, sem rakin eru í reglugerðinni, geti orðið enn virkari, og það er það sem máli skiptir.

Nokkur önnur atriði langar mig til að draga sérstaklega fram. Í 6. gr. er fjallað um mæðraskoðun. Ef í ljós kemur við mæðraskoðun, að líkur séu til að barn verði þroskaheft, er gert ráð fyrir að foreldrum sé tilkynnt það og hlutast sé til um frekari rannsókn. Í framhaldi af þessu sé foreldrunum leiðbeint og þeir búnir undir hvað gera skuli er barn fæðist þroskaheft. Sá undirbúningur hlýtur að hafa ómetanlega þýðingu fyrir öryggi og líðan foreldranna, sem svo hefur aftur áhrif á barnið. Það segir sig sjálft.

Annað athyglisvert atriði í frv. er undirstrikun 8. gr. þess um hlutverk sálfræðiþjónustu í skólum. Er þar kveðið á um að sálfræðiþjónustan í skólum skuli leggja á það áherslu að fylgjast með þegar fram koma einkenni um þroskaheftingu, eins og stendur í frvgr. Þetta hlýtur að vera atriði sem vert er að veita enn aukna athygli svo að reynt sé að átta sig á fyrstu vísbendandi einkennum slíks sem allra fyrst. Reynt sé þá að staðreyna sem skjótast hvort þar sé um alvarlegt stig að ræða sem krefjist viðbragða. Þyrfti e. t. v. að geta um sérstaklega í þeim tilfellum, jafnvel í sömu frvgr., að haft yrði samband strax við foreldra einstaklingsins og þeim veitt leiðbeining. Það mætti athuga í nefnd.

Gert er ráð fyrir í 9. gr. hvernig við skuli brugðist ef grunur um heftan þroska reynist ekki á rökum reistur. Ég tel að ekki verði um of undirstrikuð þýðing þess að haft sé strax samband við foreldra og þeim leiðbeint um hvernig brugðist skuli við með sem allra eðlilegustum og réttustum hætti.

Herra forseti. Ég ræði þetta mál ekki frekar nú. Til þess gefst tími í n. þegar um það verður fjallað. En ég sá ástæðu til þess að lýsa ánægju minni yfir frv. og stuðningi við öll aðalefnisatriði þess og sérstaklega ýmis nýmæli.