06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Seint á síðasta þingi leyfði ég mér að flytja frv. shlj. því sem nú liggur fyrir. Að svo miklu leyti sem þetta frv. fékk meðferð hér í þinginu fékk það góðar undirtektir, en tími vannst ekki til að afgreiða það. Þetta er frv. til l. um dómvexti, viðauki við lög nr. 85 frá 1936, um meðferð einkamála í héraði. Það er nánast ein grein og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á tímabilinu frá stefnubirtingu til dómsuppsögu í dómsmáli getur dómari, eftir kröfu aðila, ákveðið, að vextir af dómkröfu séu jafnháir innlánsvöxtum af vaxtaaukalánum eða öðrum sambærilegum vaxtakjörum, er taki sem fyllst tillit til varðveislu á verðgildi fjármagns.

Dómari skal þó ekki verða við slíkri kröfu ef atvik þau, sem getið er í 1. og 3, tölul. 2. mgr. 177. gr. laga nr. 85/1936, eiga við um stefnanda eða ef þegar hefur verið tekið tillit til verðbólgu á ofangreindu tímabili við endanlega kröfugerð í málinu. Sama gildir í útivistarmálum, ef stefnandi skilaði ekki grg.

Frv. þetta er enn ein afleiðingin af því verðbólguástandi, sem hér ríkir, og er einn anginn af því vandamáli, sem verðbólgunni fylgir. Í þessu ástandi þróast hvers lags spákaupmennska, verðskyn brenglast hjá almenningi og kæruleysi — jafnvel ábyrgðarleysi — fer mjög vaxandi varðandi hvers konar fjármuni og fjármál. Áður fyrr þótti sjálfsögð dyggð að standa í skilum og greiða skuldir sínar, en nú í seinni tíð í þessu ástandi hefur sífellt sigið meir á ógæfuhliðina. Stofnað er til gífurlegra fjárhagslegra skuldbindinga, lítil virðing er borin fyrir þeim af þeim sem til þeirra stofna, vanskil eru mjög tíð og menn sjá sér jafnvel hag í því að draga mjög greiðslur fram yfir gjalddaga. Þess er mjög mörg dæmi og veruleg brögð eru að því, að stofnað er beinlínis til vanskila til þess að neyða kröfuhafa til dómsmála, til kröfumála, enda hefur slíkum málum mjög fjölgað í seinni tíð. Vegna verðbólgunnar og vegna dráttar, sem á afgreiðslu slíkra mála er, rýrna að sjálfsögðu mjög allar peningakröfur, og það er ljóst að vísvitandi er til þessara mála stofnað vegna þess að greiðslufrestur, sem þannig fæst, er hinn ákjósanlegasti og er jafnvel skuldurum til hagsbóta. Þessi dráttur skaðar að sjálfsögðu mjög verulega kröfuhafana. Hann gerir réttmætar kröfur nánast verðlausar og hann rýrir mjög traust dómstólanna í landinu.

Til þess að mæta þessum vanda þarf fyrst og fremst að ráða niðurlögum verðbólgunnar almennt talað, en það er löngu ljóst og á sér augljósar skýringar sem ég fer ekki út í að þessu sinni. En meðan glíman við verðbólguna gengur ekki betur en raun ber vitni, þá er nauðsynlegt að mínu mati að gera dómstólum kleift að taka tillit til þessarar verðbólgu við uppkvaðningu dóma og verðtryggja með einum eða öðrum hætti þær kröfur sem orðið er við og dæmdar eru. Þetta frv., sem hér er flutt, stefnir að því að gera dómstólum þetta mögulegt. Er það gert með þeim hætti, að vextir af dómkröfu verði jafnháir innlánsvöxtum af vaxtaaukalánum eða öðrum sambærilegum vaxtakjörum, er taki sem fyllst tillit til varðveislu á verðgildi fjármagns.

Áhrif þessa frv., ef að lögum verður, geta orðið margvísleg og í flestum ef ekki öllum tilfellum jákvæð. Í fyrsta lagi mundi það draga mjög úr öllum óþarfa málarekstri, sem nú er ótvírætt stofnað til. Í öðru lagi mundi það tryggja þeim, sem eiga réttmætar kröfur, að verðgildi þeirra krafna haldist. Síðast en ekki síst mundi það auka og treysta virðingu alls almennings fyrir dómstólum og réttlátri meðferð mála hjá þeim.

Þetta frv. er samið í samráði við sérfróða og kunnuga menn á þessu sviði. Í því sambandi kemur að sjálfsögðu til greina að verðtryggja kröfurnar beinlínis eða reyna að ná markmiðum frv. fram með öðrum hætti, en niðurstaðan varð sú að leggja þetta frv. fram og hafa þennan hátt á, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil — herra forseti — leyfa mér að vona, að þetta frv. fái jákvæðar undirtektir hjá þingheimi. Þetta er sjálfstætt mál og hægt að afgreiða án tillits til almennrar stefnu í vaxtamálum og alveg án tillits til almennrar stefnu í efnahagsmálum, sem stjórnvöld grípa til á hverjum tíma. Hér er raunverulega um það að ræða að bjarga raunverulega dómstólum úr þeirri klípu, sem þeir eru í, auka veg þeirra og virðingu og sjá til þess, að réttmætar kröfur, sem engin deila í sjálfu sér getur verið um, fáist greiddar á því verði og samkv. því verðgildi sem er fyrir hendi þegar dómur er kveðinn upp.

Ég leyfi mér svo að lokum — herra forseti — að leggja til að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.