06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef reynt að afla mér nokkurra upplýsinga um það mál, sem hér er flutt á þskj. 19 um dómvexti. Eftir því sem ég hef getað komist næst, er hér hreyft athyglisverðu máli, sem full ástæða er til að skoða af gaumgæfni og sjá til þess að fái athugun og afgreiðslu. Mér er enn fremur tjáð af þeim, sem ég hef talað við, að hér sé um talsvert flókið mál að tefla. Ég er því ekki tilbúinn til þess á þessu augnabliki að lýsa stuðningi við frv. alveg eins og það er. Enn fremur vildi ég koma því á framfæri við hv. flm. og aðra hv. alþm., hvort ekki væri rétt að frv. þetta færi til athugunar hjá nefnd, sem starfar og heitir réttarfarsnefnd og er að athuga ýmsa liði í réttarfari og nauðsynlegar lagabreytingar þeim samfara. Formaður þessarar nefndar mun vera Björn Sveinbjörnsson hæstaréttardómari. Ég hygg að ég muni leggja það til, ef Alþ. verður við þeirri ósk hv. flm. að vísa frv. til meðferðar í allshn. Nd., við formann þeirrar hv. n., að þetta frv. verði sent til umsagnar áður nefndri réttarfarsnefnd.

Erindi mitt hingað — herra forseti — var aðeins það í aðalatriðum að styðja þetta mál, þó að ég hafi fyrirvara um nokkra liði og geri þessa till. um meðferð málsins þegar það kemur til nefndar.