27.04.1979
Neðri deild: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4260 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

70. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hef, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, skrifað undir nál. með fyrirvara. Það merkir að sjálfsögðu ekki að ég muni flytja brtt. eða leggjast gegn frv., heldur er fyrirvarinn bundinn því að vekja athygli á einu atriði, hvernig fjárhag veðdeildarinnar sé nú komið, en meginatriði þessa frv. er einmitt að leysa fjárhagsvanda veðdeildarinnar.

Þannig segir í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta: „Fjárhag veðdeildar er svo komið að í árslok 1977 var öfugur höfuðstóll 29 millj. kr. Miðað við núverandi skuldbindingar deildarinnar og óbreytta tekjustofna hefur verið áætlað að í árslok 1985 yrði tapið komið upp í 361 millj. kr., en þá hafa óhagstæðustu lán veðdeildar verið greidd upp og frekari halli ekki fyrirsjáanlegur. Þessu til viðbótar hefur verið áætlað að greiðsluhalli deildarinnar vegna lánstímamunar tekinna og veittra lána yrði samtals 287 millj. kr. á næstu 5 árum“. — Þannig lýkur þessari tilvitnun.

En hvað felur þetta í sér í raun og veru? Veðdeildin hefur m. ö. o. lánað á óhagstæðum kjörum, þ. e. a. s. hún hefur lánað á lægri vaxtakjörum en eru á lánum sem hún sjálf varð að taka, og einnig hefur hún lánað fé til lengri tíma en það fé var lánað sem hún hafði fengið. Afleiðingarnar eru þær, að á 8 árum er kominn skuldahalli upp á sjötta hundrað millj. kr.

Ég nefni þetta sem sérstakt dæmi um hvernig ekki eigi að standa að fjármálum. Nú vita allir að stjórn Búnaðarbankans er mjög traust og ekkert við það að athuga, en engu að síður hefur bersýnilega verið þrýstingur frá framkvæmdastjórninni og ríkisstj. um þessa tilhögun. Það er óverjandi að mínum dómi að lána fé við þeim kjörum, sem hér er gert, og safna skuldum sem síðan á að greiða með fé úr ríkissjóði.

Veðdeild Búnaðarbankans er sjálfsagt ekki ein um þetta. Þetta tíðkast sjálfsagt í öðrum stofnlánasjóðum atvinnuveganna að einhverju marki. En ég hygg að svona óráðsía í fjármálum sé forkastanleg, og ég tel að vinnubrögð af þessu tagi megi ekki eiga sér stað. Þess vegna skrifaði ég undir með fyrirvara, að ég vil vita, hvernig að þessu hefur verið staðið, og tel að í þessu verðbólguþjóðfélagi og á ýmsan hátt óráðsíuþjóðfélagi þurfi yfirvöld að hafa þann skapstyrk og það geð í sér að hafa stjórn á fjármálunum, en ekki safna skuldahala og hlaupa svo alltaf til ríkissjóðs. Ég vonast til þess fastlega að einhver breyting verði á þessum vinnubrögðum hjá núv: ríkisstj.