27.04.1979
Neðri deild: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4262 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

70. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Í raun og veru hef ég ekkert að athuga við orð þeirra tveggja ágætu þm. sem töluðu á undan mér. Í raun og veru erum við allir sammála um að hér er ekki við bankann að sakast né stjórn Stofnlánadeildarinnar eða veðdeildarinnar, enda vakti alls ekki fyrir mér neitt slíkt, heldur að benda á þá óreiðu í fjármálum að þetta skuli hafa þróast á þennan hátt og, eins og skýrt kemur fram, skilningsleysi stjórnvalda í þessum efnum. Um þetta held ég að við séum flestir sammála.

En það, sem ég vildi vekja athygli á með máli mínu, var eiginlega fyrst og fremst fróm ósk um að mál af þessu tagi endurtækju sig ekki og ættu sér ekki stað í fjárfestingarsjóðum þjóðarinnar. Hérna þarf auðvitað bæði aðhaldsstjórn og að standa þannig að málum að ekki sé dregið í skuldahala sem síðan er komið seint og um síðir með til ríkissjóðs til að greiða. Ég er að gagnrýna hvernig að þessu hefur verið staðið, en ekki þá aðila sem hafa fengið það erfiða hlutverk að deila hinum fáu krónum út til þeirra sem hafa þörf fyrir þær.