30.04.1979
Efri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4277 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63 28. maí 1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, sbr. lög nr. 59 frá 1971.

Á undanförnum árum hefur innflutningur og verslun með tilbúin bruggunarefni (öl- og víngerðarefni) í neytendaumbúðum farið mjög vaxandi. Viðskipti virðast hafa eflst svo mjög að a. m. k. eitt fyrirtæki hefur talið grundvöll fyrir framleiðslu slíkra efna hér innanlands og hefur m. a. leitað eftir niðurfellingu tolla af efnivörum til framleiðslunnar í skjóli ákvæða EFTA-samkomulags.

Samkv. 7. gr. áfengislaga, nr. 82 frá 1969, er bannað að brugga eða búa til áfengi á Íslandi. Þetta skýlausa bannákvæði dugir skammt í baráttu við þá óheillavænlegu þróun sem átt hefur sér stað í þessum efnum á undanförnum árum, þar eð áfengislöggjöfin er að öðru leyti mjög ófullkomin og veitir ekki möguleika til að fylgja banni þessu eftir svo að vel sé. Samkv. 2. gr. áfengislaga er áfengi skilgreint á þessa leið: „Áfengi telst samkv. lögum þessum hver sá vökvi, sem meira er í en 2.25% af vínanda að rúmmáli. Duft, kökur og annað, sem þau efni eru í, sem sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika, skal fara með sem áfengan drykk.“ Í skjóli þessa ákvæðis má segja að sala umræddra efna hafi þrifist. Þeir aðilar, sem hafa séð um innflutning og dreifingu umræddra vara, hafa einfaldlega bent kaupendum á hvernig þeir eigi að halda styrkleika bruggsins innan löglegra marka og hverju það varði fari hann fram úr lögleyfðu hámarki. Þess skal getið hér, að þó svo 2. málsl. 2. gr. taki til dufts sem leysa megi upp í vatni nær ákvæðið ekki til umræddra efna, því að þótt þau séu leyst upp í vatni nægir það eitt sér ekki til þess að úr verði áfengur vökvi, heldur þarf a. m. k. að bæta við þau sykri og gerlum. Samkv. gildandi löggjöf verða brot á 7. gr. áfengislaganna varla sönnuð nema með því að staðreyna að áfengi hafi verið framleitt úr nefndum efnum. Til þess að svo megi verða þarf að hafa hendur í hári þeirra sem kaupa þessi efni í smásölu og framleiða eða brugga úr þeim áfenga drykki, t. d. í heimahúsum. Af skiljanlegum ástæðum hafa lögregluyfirvöld verið treg til aðgerða af þessu tagi. Á meðan söluaðilar umræddra efna geta skákað í því skjóli að brugga megi óáfenga drykki úr efnunum, þótt sá sé eðlilega ekki tilgangur þeirra sem kaupa þessi efni til bruggunar, má ljóst vera af framansögðu að þess er ekki að vænta að hægt verði að stemma stigu við ólöglegri bruggun hérlendis að óbreyttum lögum.

Nýlega var að tilhlutan fjmrn. athugað fræðilega hve mikið áfengi mætti framleiða úr því magni bruggunarefna sem stærsti innflutningsaðili þessara efna flutti inn á árinu 1978. Athugun þessi, sem unnin var af ölgerðarverkfræðingi, leiddi í ljós að úr ofangreindum efnum, sem aðeins umræddur aðili flutti inn, mátti a. m. k. framleiða áfengi sem samsvarar ca. 250 þús. 0.7 lítra flöskum af brennivíni með 40% rúmmálsprósentu styrkleika. (StJ: Hvað skyldi vera hægt að framleiða úr þeim sykri sem fluttur er inn og mjöli yfirleitt?) Það eru sennilega heil ósköp. — Vegna ummæla í blöðum um áætlun þessa skal tekið fram, að hún styðst við athugun á innflutningi 1977 og fyrstu 10 mánuðum 1978. Væri innflutningurinn eins og hann í raun og veru var 1978 lagður til grundvallar yrðu tölur þessar talsvert hærri.

Af því m. a., sem hér að framan hefur verið rakið, má ljóst vera að alvarleg félagsleg vandamál fylgja því ástandi sem nú ríkir í þessum málum, en það er e. t. v. aðalatriði þessa máls. Ég er þeirrar skoðunar, að þau vaxandi félagslegu vandamál sem fylgja stóraukinni bruggun í landinu séu talsvert íhugunarefni fyrir hv. Alþ. og ástæða til þess að taka þau mál til skoðunar. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort sú aðferð, sem hér er lögð til, nær þeim árangri í þessum efnum sem ætlast er til. Það er annað mál. En einnig hefur ríkissjóður þegar orðið fyrir mjög verulegu tekjutapi af þessum sökum. Í þessu sambandi er vert að geta þess, að tekjur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins af áfengissölu á s. l. ári voru ca. 1.5 milljarði kr. lægri en gert var ráð fyrir að þær yrðu samkv. fjárl. 1978. Verði ekkert aðhafst til að hamla gegn þessari þróun má búast við áframhaldandi rýrnun þessa mikilvæga tekjustofns ríkissjóðs. Það er lítið samræmi í því að innleiða nýja tekjustofna, er skila ríkissjóði e. t. v. 200–300 millj. kr. hver með mikilli skriffinnsku og fyrirhöfn, og láta um leið afskiptalaust að einn helsti tekjustofn ríkisins rýrni um e. t. v. tífalda þá upphæð.

Í framhaldi af þessu skal þess getið, að svipuð vandamál hafa oft verið uppi annars staðar á Norðurlöndum. T. d. gripu Svíar til þess ráðs í ársbyrjun 1978 að banna með lögum notkun á „extrakti“ og „konsentrati“ úr malti, þrúgusafa eða öðrum ávaxtasafa við framleiðstu á áfengi. Sala þessara efna, sem hér að framan hafa verið nefnd tifbúin bruggunarefni, er talin hlutdeild í brotum á þeim ákvæðum sem banna notkun efnanna við bruggun. Engu að síður er bruggun áfengra drykkja leyfileg í Svíþjóð ef aðeins er notast við ávexti, malt, ómalað korn o. s. frv. sem grunnefni og þess jafnan gætt að áfengisstyrkleikinn fari ekki fram úr 4.5%. Þessar aðgerðir eiga rætur sínar að rekja til þess, að tekjur af áfengissölu höfðu stórlækkað s. l. ár um leið og sala framangreindra efna, sem auðvelda bruggun áfengra drykkja afar mikið, hafði stóraukist.

Með frv. þessu er lagt til að ríkisstj. einni verði heimilt að flytja inn eða framleiða tilbúin bruggunarefni svo og hvers konar lifandi gerla. Þessi tilhögun hefur verið ríkjandi varðandi innflutning áfengis og tóbaks hérlendis. Þá er nauðsynlegt, ef aðgerðir af þessu tagi eiga að bera raunhæfan árangur, að færa innflutning og sölu á lifandi gerlum aftur í hendur hins opinbera, en notkun gerla er nauðsynleg við bruggun áfengra drykkja. Lifandi gerlar eru nær eingöngu notaðir við bakstur (pressuger) og framleiðslu á öli, miði og víni, (öl- og vínger). Samkv. þessu frv. er þó gert ráð fyrir að heimila megi öðrum aðilum en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins innflutning og sölu á gerlum, enda uppfylli þessir aðilar skilyrði sem sett kunna að verða í því sambandi. Kemur einkum til álita að heimila öðrum aðilum innflutning á pressugeri, enda verði tryggt að það verði eingöngu notað til brauð og kökugerðar.

Það, sem er e. t. v. alvarlegast í þessu máli og ég held að sé óhætt að fullyrða, er að það eigi sér stað allalmenn bruggun sem er brot á lögum. Það má sjálfsagt deila um hvað í sjálfu sér er óæskilegt. En það þarf ekki að deila um að óæskilegt er að lög í landinu séu meira og minna brotin, vegna þess að það hefur auðvitað í för með sér þverrandi virðingu landsmanna fyrir lögum og rétti. Eins og ég sagði áðan skal ég ekkert fullyrða um hvort sú aðferð, sem hér er lögð til, nær fullkomlega þeim árangri sem til er ætlast, en ég er sannfærður um að hún mun a. m. k. minnka þá bruggunaröldu sem gengur yfir landið. Ég er sannfærður um það, vegna þess að torveldara verður að brugga en nú er.

Gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða, að nauðsynlegt sé að gefa aðilum, sem stundað hafa innflutning, framleiðslu og sölu þeirra efna, sem samkv. frv. þessu eru gerð að einkasöluvöru, nokkurn tíma til þess að losa sig við birgðir sem þeir kunna að eiga af þeim þegar lög þessi öðlast gildi. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en vísa til ítarlegrar grg. sem fylgir frv.

Ég leyfi mér að beina þeim tilmælum til þeirrar hv. þn., sem fær málið til meðferðar að hraða meðferð þess þannig að unnt verði að afgreiða málið sem lög frá þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.