06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka mönnum undirtektir við þetta frv, og vona að það boði að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi fyrr en síðar.

Út af þeim fsp., sem fram komu í máli síðasta ræðumanns, þá er rétt að um það má deila hvaða tímabil skal hafa í huga þegar slíkar kröfur eru dæmdar. Jafnframt er rétt að hlusta á þau sjónarmið, sem fram komu hjá honum og hv. 7, þm. Reykv., um hvort ekki sé rétt að verðtryggja beinlínis kröfurnar eða hafa hærri vexti með kröfunum og dómnum, frekar en þá aðferð sem frv. gerir ráð fyrir.

Um þetta er það að segja, að þetta hugleiddi ég og ræddi við þá aðila sem ég hafði samráð við þegar þetta frv. var samið: Niðurstaðan varð sú að fara frekar hóflega í sakirnar og stiga þetta skref með þessum hætti í staðinn fyrir að leggja fram frv. þannig úr garði gert að menn teldu sig e.t.v. ekki geta samþykkt það. Þegar miðað er við dómsuppsögn er einfaldlega haft í huga að erfitt gæti verið fyrir dómara að kveða upp dóm og ákveða vexti lengur en fram að þeim tíma að dómurinn sjálfur er kveðinn upp. Það verður auðvitað að ganga út frá því í dómsuppkvaðningu, að dómarnir og kröfurnar séu greiddar samkv. því sem dómurinn segir til um og það sé gert strax, enda oftast gengið út frá því í dómsuppkvaðningu. Þess vegna var ekki eðlilegt í löggjöf sem þessari að gera ráð fyrir því, að greiðslur krafna drægjust úr hófi eftir að á annað borð dómur liggur fyrir. Af þessum sökum var miðað við dómsuppsögu, enda er það hin almenna regla í einkamálalögunum.

Ég get hins vegar vel fallist á að þær aths., sem hafa komið fram við þessa umr., þurfi nánari athugunar við. En ég vonast þó til þess, að slíkt dragi ekki afgreiðslu málsins, verði a.m.k. alls ekki til þess að koma í veg fyrir að það fái afgreiðslu hjá hv, allshn.