18.10.1978
Efri deild: 3. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég átti ekki von á því að Sjálfstfl. í þessari deild mundu taka til máls á þann hátt sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson gerði hér áðan þegar það frv., sem hér er til umr., kæmi á dagskrá. Ferill stjórnarforustu Sjálfstfl. á s.l. fjórum árum er slíkur, að umr. um ástand efnahagsmála á Íslandi s.l. vor ættu í raun og veru að vera í þeim herbúðum tilefni til alvarlegra hugleiðinga í eigin röðum, en ekki þeirra ásakana eða ádeilna í garð núv. ríkisstj. sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson lét hér frá sér fara. Staðreyndin er sú, að það hefur engin ríkisstj. í sögu íslenska lýðveldisins skilið við efnahagsmál landsins í öðru eins ástandi og sú ríkisstj. sem Sjálfstfl. veitti forustu fram á mitt þetta ár. Hvernig var umhorfs í íslensku þjóðfélagi þegar þjóðin hafði fengið að reyna þá langtímastefnu sem Þorvaldur Garðar Kristjánsson, hv. þm., auglýsti eftir hér áðan — þá langtímastefnu sem Sjálfstfl. beitti sér fyrir?

Við skulum aðeins rifja það upp, þó aðeins til þess að minna þá ágætu þm. á það, að sú saga verður ekki gleymd hér í þingsölum eða meðal þjóðarinnar um langa framtíð. Hún mun verða rifjuð upp aftur og aftur þegar þessir ágætu menn bjóða fram leiðsögn sína um langtímastefnumótun íslensku þjóðarinnar í efnahagsmálum.

Í fyrsta lagi hafði íslenska þjóðin reynt meiri verðbólgu en hún hafði áður gert, samfara þeirri margháttuðu félagslegu, siðferðilegu og stjórnarfarslegu upplausn í þessu þjóðfélagi sem slíku hástigi verðbólgunnar er samfara.

Í öðru lagi hafði ríkisstj. magnað slík átök á vinnumarkaðnum við helstu launþegasamtökin í landinu, að síðustu mánuði ferils hennar ríkti í raun og veru kalt stríð milli launafólksins í landinu og ríkisvaldsins.

Í þriðja lagi blasti við stöðvun helstu atvinnuvega landsins. Frystihúsaiðnaðurinn var við það að stöðvast í heild sinni og verulegur hluti hans hafði þegar stöðvast. Grundvallarframleiðsla íslensku þjóðarinnar, undirstaða hins efnahagslega sjálfstæðis hennar, var í rúst.

Í fjórða lagi hafði þjóðin safnað slíkum erlendum skuldum, að flestallir, sem um þau mál hugsuðu, voru sammála um að stærð þess skuldabagga stofnaði efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í hættu.

Í fimmta lagi hafði sú stefna verið ríkjandi í ríkisfjármálunum, að meginlausnin á öllum vanda, sem þar blasti við, var sífelld skuldasöfnun við Seðlabankann.

Þetta eru aðeins nokkur af þeim atriðum sem einkenndu þann viðskilnað forystutímabilsins sem Sjálfstfl. bauð íslensku þjóðinni með Framsfl. á s.l. fjórum árum. Og svo hafa þessir ágætu menn kokhreysti til þess að koma hér við 1. umr. efnahagsmála í þessari deild og bjóða fram hugmyndir sínar um langtímalausn á efnahagsvandamálum íslensku þjóðarinnar.

Sem betur fer gerðust þeir atburðir undir lok ágústmánaðar, að sett var hér á laggirnar ríkisstj. sem stöðvaði þessa óheillaþróun. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess, að á fyrstu mánuðum valdaferils hennar sé allri þessari holskeflu ófara í efnahagsmálum, sem ég var að rekja hér áðan í örfáum atriðum, snúið við. En það er hins vegar mikilvægt, að stigin hafa verið veigamikil grundvallarspor sem marka stefnu sem sýnir á hvern hátt þessari þróun verður snúið við. Og ef það skyldi hafa farið fram hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni í önnum hans við átök í þingflokki Sjálfstfl. og öðrum innanbúðarerfiðleikum þar í flokki, þar sem málefni þjóðarinnar virðast kannske skipta minna máli heldur en niðurröðun manna í nefndir og forustu í þingflokknum, þá ætla ég að rifja þessi atriði upp með örfáum orðum.

Í fyrsta lagi er nú komin til valda ríkisstj. á Íslandi sem hefur samráð við hreyfingar launafólksins í landinu að hornsteini stjórnarstefnunnar. Með þeim yfirlýsingum, sem ríkisstj. gaf launafólkinu á Íslandi, öllum þorra þjóðarinnar, og samtökum þess, hefur hún sett sér það markmið, að í stað þess kalda stríðs, sem ríkti fyrr á þessu ári milli fjandsamlegs ríkisvalds og verkalýðshreyfingarinnar, er nú komin náin samvinna og samráð með hinum kjörnu fulltrúum fólksins á Alþingi og í ríkisstj. og fulltrúum launafólksins í landinu. Allar þær efnahagsaðgerðir, sem hér hafa verið framkvæmdar, eru gerðar í náinni samvinnu við verkalýðshreyfinguna í landinu, og því er skilyrðislaust lýst yfir, að áframhald aðgerða á þessu sviði verður einnig unnið á þann hátt.

Í öðru lagi er nú ríkjandi vinnufriður á Íslandi.

Í þriðja lagi hafa hjól atvinnulífsins farið að snúast á nýjan leik. Þeirri stöðvun frystiiðnaðarins og fjölmargra annarra þátta í iðnaði og öðrum atvinnugreinum, sem við blasti, hefur verið bægt frá a.m.k. að sinni. Og í undirbúningi er fjárlagagerð af hálfu ríkisstjórnarmeirihl. sem hefur það að yfirlýstu markmiði, að á fyrstu 16 mánuðum náist jöfnuður í ríkisbúskapnum, það verði ekki safnað meiri skuldum við Seðlabankann.

Þótt ekki væri gengið lengra í fyrsta áfanga heldur en það að safna ekki meiri skuldum við Seðlabankann en gert hefur verið á undanförnum árum — ég tala nú ekki um ef farið verður að greiða eitthvað af þessum skuldum — þá er það vissulega eitt blaðið í viðbót, sem brotið er í nýrri grundvallarstefnu.

Þar að auki hafa verið settar fram margvíslegar hugmyndir sem fela í sér að í stað þeirrar óráðsíu í fjárfestingarmálum, sem einkenndi s.l. valdatímabil, komi skipulagsleg uppbygging í fjárfestingu, bæði í fjárfestingu atvinnuveganna og í opinberri fjárfestingu. Það hefur stundum að mínum dómi farið lítið fyrir því í umr. um verðbólguna á Íslandi, að langtímavandi okkar í glímunni við verðbólguna er nauðsynin á skipulögðum áætlunarbúskap og samræmdum aðgerðum í fjárfestingarmálum, í stað þeirrar tiltölulega taumlausu óstjórnar hins svokallaða markaðskerfis, sem er og hefur verið ríkjandi í íslenska verðbólguþjóðfélaginu og fyrst og fremst beinir fjárfestingunni inn í farvegi sem til lengdar eru þjóðhagslega óarðbærir, þótt þeir kunni að skila eigendum sínum stundargróða í það og það skiptið.

Enn fremur kemur fram í yfirlýsingu þessarar stjórnar og í aðdraganda hennar, að hún mun á víðtækan hátt beita sér fyrir því að uppræta margvíslegan félagslegan ójöfnuð, margvíslega spillingu á ýmsum sviðum þjóðfélagsins sem þróast hefur í skjóli þeirrar óstjórnar í efnahagsmálum sem ríkt hefur á undanförnum stjórnartíma.

Enn fremur hefur þessi ríkisstj. sýnt af sér það raunsæi að ákveða í samstarfsyfirlýsingu sinni, að þegar hún er komin yfir erfiðasta hjallann í því að snúa við þeirri holskeflu efnahagslegra ófara sem síðasta ríkisstj. skildi við, þá muni hún marka sér fjölþætt stefnumið á öðrum sviðum þjóðmálanna sem ekki er svigrúm til að takast á við þegar menn standa frammi fyrir þeim mikla og hryllilega arfi óstjórnar síðustu ára sem hún tók við.

Þessi ríkisstj. er því að ýmsu leyti sérstök. Hún er sérstök fyrir þá sök, að hún er mynduð fyrst og fremst í samráði við og eftir ákalli hreyfinga launafólks í landinu. Hún hefur víðtækari lýðræðislegan stuðning meðal þessarar þjóðar heldur en ríkisstj. hafa haft hér um langa hríð. Og vissulega mun ríkisstj. beita þessum mikla styrkleika sínum til þess að knýja fram til langframa þær breytingar á efnahagslífinu sem ég hef hér aðeins gert að umræðuefni.

Hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm., að við, sem styðjum þessa stjórn, erum fullvissir um það, að þær aðgerðir, sem nú hefur verið gripið til, eru aðeins fyrsta skrefið. Þær eru hins vegar skref sem mótar mjög þær meginlínur sem stjórnin mun vinna eftir. Ef henni tekst að framfylgja stefnu sinni jafnt og þétt, missiri af missiri, í samræmi við þessar grundvallarlínur, þá hef ég nokkra von um að á seinni hluta næsta árs eða fyrri hluta ársins 1980 verði búið að ná íslensku þjóðinni þó nokkuð niður úr þeirri miklu verðbólguöldu sem Sjálfstfl. skildi hana eftir í.

Það segir sig hins vegar sjálft, að til þess að svo megi verða þarf að verða áframhaldandi grundvallarbreyting ekki aðeins á ríkisfjármálunum, heldur í fjárfestingarmálum og markaðsmálum íslensku þjóðarinnar. Í raun og veru felur sú breyting það í sér, að í stað þess brjálaða óskapnaðar, sem heitir markaðskerfið í íslenska verðbólguþjóðfélaginu, komi vitræn og skynsamleg heildarstjórn á efnahags- og fjárfestingarmálum þjóðarinnar, — stjórn sem miðast fyrst og fremst við hagsmuni fólksins í landinu, en ekki þá hagsmuni fámennra gróðaaðila sem Sjálfstfl. hefur talið meginverkefni sitt að þjóna á undanförnum árum og áratugum og hann vissulega skilaði stórum feng á s.l. kjörtímabili, þótt almenningur í landinu bæri þar skarðan hlut frá borði.