02.05.1979
Efri deild: 87. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (3413)

260. mál, tímabundið vörugjald

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi mínum við frv. það sem hér er borið fram. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að lýsa nokkurri undrun minni á því, hvernig þetta mál ber að.

Eins og hv. flm. tók fram í ræðu sinni voru þessi mál nokkuð til umræðu í sambandi við afgreiðslu á lögum um tímabundið vörugjald í þessari hv. d. fyrir áramótin, og eins og hann skýrði frá voru menn ekki á eitt sáttir um að þetta vörugjald skyldi ná til hljóðfæra almennt. Ég verð að segja að lagfæring eins og felst í því frv. sem hér er til umr., veldur mér nokkrum vonbrigðum, þ. e. hvernig hana ber að, því að frá mínum bæjardyrum séð er bara um kattarþvott að ræða af hendi hv. flm., þannig að hann geti sagt og látið geta þess í fjölmiðlum að ekki hafi staðið á honum að greiða götu þessa máls og reyna að aflétta þessari ósanngjörnu skattlagningu. Það mun komast til skila í fjölmiðlunum. En þegar hv. flm. hafði tækifæri til þess, og það var að mínu mati á miklu örlagaríkari stundu, þegar stjórnarandstaðan flutti brtt. við upphaflegt frv., sá hann sér ekki fært að fylgja brtt.

Þó að ég lýsi stuðningi mínum við innihald frv. finnst mér einhvern veginn óbragð af því, hvernig frv. fer að, því að það er eins og sé verið að viðurkenna að með þeim faguryrðum og ákaflega óljósum og óskýrum yfirlýsingum ráðamanna, sem gefnar voru þegar rætt var um þessi mál við afgreiðslu frv. fyrir áramótin, var ekkert meint, en til þess að hvítþvo sjálfan sig í augum almennings kýs hv. flm. að flytja þetta frv. nærri því vitandi um að það muni ekki ná fram að ganga.