02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4302 í B-deild Alþingistíðinda. (3426)

259. mál, lausaskuldir bænda

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég get verið stuttorður um frv. þetta. Grg. með því er, vona ég, nokkuð skýr. Eins og þar kemur fram athugaði Stéttarsamband bænda 1977 í samráði við fyrrv. landbrh. lausaskuldir bænda, gerði á þeim úttekt og leitaði umsókna um breytingu á lausaskuldum í föst lán. Bárust henni 406 umsóknir. Var samkv. þeim áætlað að lausaskuldir bænda næmu rúmlega l.2 milljörðum. Síðan hefur verið töluvert að því unnið að skoða þessar lausaskuldir og hve brýnt væri að breyta þeim í föst lán.

Skipaði ég í þessu skyni í nóv. s. l. starfshóp sem í áttu sæti Stefán Valgeirsson alþm., Bjarni Bragi Jónsson hagfræðingur og Árni Jónasson erindreki. Sá starfshópur skoðaði þær upplýsingar, sem fyrir lágu, og aflaði nýrra og komst að þeirri niðurstöðu að lausaskuldir, sem taka þyrfti til meðferðar, næmu svipaðri upphæð og fram hafði komið í athugun Stéttarsambandsins eða um 1.2 milljörðum kr. Af þeim starfshópi er frv. þetta samið.

Í frv. felst heimild til veðdeildar Búnaðarbankans til að gefa út skuldabréf þannig að breyta megi lausaskuldum bænda að hluta. Rætt hefur verið um að breyta rúmlega helmingnum a. m. k. í föst lán. Jafnframt felst í frv. þessu heimild til þess að veðsetja megi eignir bænda, allt að 75% af matsverði veðsins, í þessu skyni. Í frv. sjálfu kemur ekki fram með hvaða kjörum þessi skuldabréf skuli vera. Hins vegar kemur það fram í grg. Þar segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að stjórn veðdeildar Búnaðarbankans ákveði lánakjör að höfðu samráði við landbrh. Til þess að bréfin seljist er ljóst að lánakjör verða að vera í samræmi við þau kjör sem ákveðin eru fyrir fjárfestingarlán almennt.“

Rætt hefur verið um að bréf þessi verði með fullri verðtryggingu, en lágum vöxtum í samræmi við að form skuldbindinga sem nú er verið að undirbúa. Ég vil því leggja áherslu á að í þessu frv. felst engin skuldbinding af opinberri hálfu til þess að tryggja að bréf þessi seljist. Eingöngu felst í því heimild, eins og ég hef sagt, fyrir veðdeildina til að ganga frá slíkum bréfum, útbúa þau og standa að baki þeirra með því að taka veð í eignum bænda.

Tvímælalaust er mjög brýnt að ýmsum lausaskuldum verði breytt í föst lán, fyrst og fremst vegna þess að lán hafa verið töluvert óhagstæðari síðari árin en var áður. Fyrst og fremst sýna þær upplýsingar, sem saman hefur verið safnað, að hér er um að ræða unga bændur sem eru að hefja búskap. Búskapur er þess eðlis, eins og hv. þm. þekkja, að oft kemur arður seint. Fyrstu árin eru erfið, fjárfesting mikil og því hefur ýmsum reynst erfitt að standa undir lánum fyrst og fremst fyrstu búskaparárin. Hér er því um að ræða að lengja lán og breyta þeim þannig að greiðslubyrðin verði sem minnst framan af.

Ég vona að hv. þing sjái sér fært að afgreiða þetta mál fyrir þingslit. Mjög er orðið brýnt að koma því í höfn og vona ég að svo geti orðið.

Að lokinni umr., herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.