02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4303 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

259. mál, lausaskuldir bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. landbrh. og ríkisstj. fyrir flutning þessa frv. Satt að segja var ég orðinn langeygður eftir að sjá þetta mál á þskj.

Haustið 1976 flutti ég á þskj. 260 till. til þál. í hv. Sþ. um lausaskuldir bænda. Þar ályktaði Alþ. að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á hvort nauðsynlegt væri að útvega veðdeild Búnaðarbanka Íslands aukafjármagn á árinu 1977 þannig að veðdeildinni yrði gert kleift að veita þeim bændum, sem verst væru settir, tækifæri til þess að breyta lausaskuldum í föst lán. Leiddi könnunin í ljós að hagur einhverra væri það bágur, að þetta kæmi ekkí að fullum notum, þá yrði kannað hvort unnt væri að gera Stofnlánadeild og veðdeild kleift að veita þeim bændum, sem ættu í mestum erfiðleikum, frest á afborgunum af lánum við deildirnar. — Þessi till. var samþ. á Alþ. 29. apríl 1977 sem ályktun Alþ. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Sumir, sem þá áttu í basli hafa nú klórað sig nokkuð fram úr skuldunum sem betur fer. Nýir hafa bæst við. En öll rök hníga þó að því, að skynsamlegt sé að opna lánaflokk, sem geri kleift að breyta lausaskuldum í föst lán. Það er enn í fullu gildi að þetta er mjög nauðsynleg lagasetning.

Ég vil sem sagt vona að þetta frv. eigi greiða leið gegnum þingið. Það er búið að vinna mjög að málinu, það er búið að vinna mikla og skipulega undirbúningsvinnu og ég held að ég verði að treysta því að frv. verði ekki umturnað hér í d. og það eigi greiða leið. Ég vonast eftir að það geti orðið að lögum fyrir þinglok.